7.3.2024 | 09:59
Fésbókin sem hvarf, ásamt símagreiðslukerfinu!
Myndin af branduglunni og textinn eru að þessu sinni fengin úr Morgunblaðinu...
... það sama má segja um teikninguna sem er til hægri og eflaust finnst mörgum það vera rétt uppröðun.
Sú til vinstri er eftir Halldór en hin eftir Ívar og líklega passar að hafa röðunina eins og hún er!
Þau undur og stórmerki gerðust um daginn, að einn af föstu punktunum í tilveru nútímamannsins Fésbókin, hvarf eins og slökkt væri á ljósi og fleira fylgdi með, því a.m.k. undirritaður gat ekki greitt reikninga með síma sínum seinni part dagsins.
Fyrst í stað var hægt að bjarga því með greiðslukorti, en svo virkaði það ekki heldur og eins og svo oft, var það kona sem kom til bjargar og reikninginn reyndist hægt að greiða með gamaldags millifærslu og þar með komst ritari upp í nýviðgerða og þvegna rennireið sína og gat lagt af stað heim á leið, eftir daglanga veru í Reykjavík.
Sannaðist þar að gott er, fyrir gamla karla að eiga góða að þegar á þarf að halda og nær örugglega var það furðusvipur sem kom á karlahópinn sem fylgdist með greiðsluaðferðinni!
Seðlar eru úr sögunni, enda getur enginn rogast með það magn íslenskra peninga í vösum sínum, sem nota þarf núorðið í viðskiptum og augljóst er, að styttast fer í að taka þurfi nokkur núll aftan af krónutetrinu.
Heim á leið var farið og með hálfum huga og stöðvað við bensíndælu á Selfossi til að taka olíu og þar virkaði allt, enda notað sérhannað kort frá söluaðila og stofnað til skuldar!
Allt er gott sem endar vel og hafi Bílabúð og bílaþjónusta Benna þökk fyrir verkið, sem eflaust var vel unnið sé tekið mið af fyrri reynslu.
Í dag verður farið á Selfoss og látið reyna á, hvort tilveran sé svört eða björt hvað fyrrnefnd tæknimál varðar og ef ekki, þá verður bara að hafa það!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.