20.11.2023 | 08:00
Kominn tími til að hætta?
Á meðfylgjandi tengli inn á umfjöllun CNN um stöðuna í styrjöldinni milli Rússlands og Úkraínu, kemur ýmislegt fróðlegt fram.
Það vantar allt til alls ef svo má segja, því þegar ekki fæst lengur fólk og við ofurefli er að etja, þá er stríðið tapað.
Úkraína er sem verktaki í þessari styrjöld við Rússa og verktakarnir eru vesturlönd sem leggja til fé og herbúnað.
Og sjúkrahús á hjólum, ekki má gleyma því!
Þó Úkraínu berist allt þetta frá Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra og þar með talið Íslandi, þá dugar það ekki til.
Úkraína er langtum minni en Rússland í öllu tilliti og gildir það jafnt um, hvort horft er til landstærðar, fólksfjölda, innviða, efnahags, svo ekki sé nú minnst á stjórnkerfið og margt fleira mætti til telja.
Zelensky sést hér á fundi með belgískum forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum og við þurfum vart að giska á hvert erindið er.
Í grein CNN er fjallað um stöðuna á vígaslóðinni og dálítið um hvernig málin blasa við þeim sem enn eru í Úkraínu.
Eru þar enn, en margir eru farnir þó fleiri séu eru eftir.
Þegar svo er komið í styrjöld, að illa gengur að manna herinn og menn sjá sér vart tilgang í því að fórna lífi sínu og limum til lítils eða einskis og baráttuandinn er farinn að dvína, þá styttist í endalokin skyldi maður ætla.
Menn skilja ekki hvað við erum komnir út í segir hermaður og er dapur á svip ,,Ég fór í þjónustuna í upphafi innrásar Rússa 24. febrúar (2022). Á þeim tíma var engin boðun sem slík, mörg ungmenni hlupu til og gengu í herinn og ég gerði það sama.
Í upphafi stríðsins var andinn annar og karlmenn buðu sig fram frekar en hitt og það gerðu konur líka.
,,Ég hef rætt við eiginmann minn um að ég skrái mig á skrifstofu hersins. Hann studdi mig. segir konan og er til í að leggja sitt að mörkum í baráttunni.
Hvort unga fólkið sem er tilbúið til að fórna lífinu fyrir þjóð sína, gerir sér grein fyrir stöðunni er hreint ekki víst.
Hitt er víst, að öll góð öfl ættu að gera sem þau geta til að stilla til friðar í stað þess að etja ungmennum út í blóðbað, sem ekki er annað að sjá en að ljúka muni með ósigri.
Það er að fjara undan Úkraínu í þessu stríði, fréttamenn sem kynna sér málið sjá það og skilja.
Það eru stjórnmálamennirnir, sem líkt og svo oft, skilja ekki sinn tíma og átta sig ekki á að anað hefur verið út í fen sem erfitt er að komast uppúr.
Kannski skilja þeir meira en við höldum, en eru króaðir af og finna ekki leiðina út.
Við höfum séð þetta áður og eigum eftir að sjá það aftur.
Þá má hugsa til þess, að ekki er gott að egna björninn þegar hann hvílist í hýði sínu, því þegar hann vaknar þá bregst hann illa við.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.