12.7.2020 | 12:31
Nýtt skip Eimskips.
Í Morgunblaðinu (11.02.2020) er sagt frá því að nýtt skip Eimskips sé við það að koma til landsins á komandi mánudegi.
Við sem höfum verið í farmennsku fögnum því að eðlileg endurnýjun sé á farskipunum og óskum fyrirtækinu og starfsfólki þess til sjós og lands, til hamingju með hið nýja skip.
Það var gott að starfa á skipum Eimskipafélagsins og ég á góðar minningar frá þeim tíma sem ég var þar.
Ráðherra tilkynnti í ræðu á sjómannadegi fyrir nokkrum árum, að íslensku kaupskipin yrðu senn skráð á Íslandi og undir íslenskan fána. Ekkert hefur gerst í framhaldi þeirrar yfirlýsingar í nokkur ár og ekki er svo að sjá sem neitt muni gerast í málinu.
Gaman hefði verið af hin nýju skip gætu verið skráð í heimalandi sínu.
Úr Morgunblaðinu:
,,Dettifoss og systurskip hans, Brúarfoss, verða stærstu gámaskip í sögu íslensks kaupskipaflota, 180 metra löng, 31 metra breið og geta borið 2.150 gámaeiningar. Skipin mælast 26.500 brúttótonn. Ganghraði verður 20,5 sjómílur á klukkustund. Þau eru hönnuð með mjög mikla stjórnhæfni og með TIER III, 17.000 Kw aðalvél sem er sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíð (NO x ) út í andrúmsloftið, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Eimskips. Skipin verða mun sparneytnari á flutta gámaeiningu í samanburði við eldri skip og eru útbúin olíuhreinsibúnaði sem minnkar enn frekar losun brennisteins (SO x ) út í andrúmsloftið.
Þau eru sérlega útbúin fyrir siglingar á Norður-Atlantshafi, ísklössuð og uppfylla Polar Code-reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga við Grænland, en þangað munu þau sigla. Gert er ráð fyrir að seinna skipið, Brúarfoss, verði afhent Eimskip í september nk."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.