21.5.2020 | 17:12
UPPSTIGNINGARDAGUR - VOR
Það er vor í lofti og uppstigningardagur með eftirminnilegri messu og folöldin eru að koma í heiminn og lömbin líka.
Kjúklingarnir koma í heiminn jafnt og þétt allt árið líkt og kálfarnir og það er svo sannarlega notalegt að halda á þeim þegar dúnninn er orðinn mjúkur og allir sem hafa handfjatlað kálfa vita hve gott það er. Spyrjum börnin!
Grísum höfum við örlítið kynnst. Þeir eru líka alltaf að fæðast og eru skemmtilegar skepnur; forvitnir og uppátækjasamir.
Kálfarnir dreifast yfir árið og sama er með fleira ungviði s.s. hvolpa og kettlinga.
Við sem varið höfum mestum tíma okkar í sveitinni, þekkjum vel hve góður ilmurinn er af vanga lambsins og snertingin ljúf.
Við horfum líka í sífelldri undran á folöldin svífa á jörðinni; stíga svo létt til jarðar að engu er líkara en að þau komi ekki við, þó þau geri það samt!
Skiljum heldur ekki hvernig kindin getur tekið sem sjálfsögðum hlut, meðferðinni sem lömbin beita við að koma sér á spena.
Og enn síður skiljum við hvernig folöldin ,,vita hvernig þau eiga að bera sig að til að komast í næringuna sem þeim býðst frá móðurinni.
Það var ógleymanlegt að fylgjast með gæsapari, hænum, hundum, köttum og grísum éta saman í bróðerni fyrir allt of mörgum árum! Hver valdi sitt og eftir sínum smekk.
Og við höfum séð það gerast sem við héldum að gæti ekki gerst.
Við höfum séð kind sem komin var að fótum fram vegna veikinda, studda af lömbum sínum að hausti; gangandi sitthvoru megin við hana til að hindra að hún félli út af. Sjón sem ekki gleymist.
Við höfum séð nýgeltan fola horfa í undrun á annan slíkan liggjandi flatan eftir sömu meðferð, en árinu yngri. Sáum hann ganga að þeim sem lá, krafsa í hann og bíta síðan í faxið á herðakambinum og sleppa ekki fyrr en hann var kominn á fætur. Það gleymist ekki heldur.
Við höfum líka orðið vitni að því þegar tík sem búin var með sitt stutta líf og lögst til hvíldarinnar eilífu, fékk ,,hjálp frá vinu sinni, sem vildi koma þeirri gömlu til aðstoðar. Koma henni heim til þeirra sem hún treysti til að gera eitthvað í málinu, en réði ekki við það og var fegin, þegar henni var komið til hjálpar. Þó hjálpin leiddi ekki til þess sem hún virtist vona.
Við vitum sem sagt að dýrin eru endalaus uppspretta og jafnframt ráðgáta.
Eru þau skynlaus, þó þau hafi annað skynbragð á lífið og tilveruna en við? Ég held ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.