21.2.2020 | 14:09
Verkföll - fyrr og nú.
Helga Vala Helgadóttir lýkur aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu á þessum orðum:
,,Við í Samfylkingunni höfum lagt til margvíslegar breytingar til tekjujöfnuðar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa því miður fellt. Má þar nefna hækkun barnabóta, sem í dag eru líkari fátækrastyrk en raunverulegum stuðningi, hækkun vaxtabóta og síðast en ekki síst hækkun skatta á þá sem eru á ofurlaunum. Allar þessar aðgerðir gagnast til að jafna kjör fólksins í landinu. Slíku samfélagi vegnar best."
Hefði ef til vill verið betra að taka undir þessar tillögur Samfylkingarinnar og hrinda þeim í framkvæmd?
Ýmislegt var gert í tengslum við ,,Lífskjarasamningana", en hefur augljóslega ekki verið nóg, og ekki gert í nægjanlega víðtæku samráði við félög fólks á vinnumarkaði, sem eru fleiri með lausa samninga en margan hefði grunað.
Mörgum sem utan standa, finnst sem verkalýðsbaráttan sé komin á nýtt form og annað stig en áður var.
Sem dæmi um það má taka aðsenda grein í Kjarnanum þar sem formaður Eflingar heldur því fram, að:
,,Núna stendur Reykjavíkurborg í stríði við starfsfólk sitt því að þau vilja ekki semja um eðlilega launaleiðréttingu í kjaraviðræðum."
Virðist ekki gera sér grein fyrir muninum á verkfalli og verkbanni.
Því má við bæta að þjóðin horfði á, í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi á að ruðst var inn á fund sem var haldinn í Reykjavík og voru þau sem það gerðu, með það sem einhverarntíma hefði verið kallað skrílslæti.
Það er vandi að standa í kjarabaráttu og ekki sama hvernig gengið er fram, og það situr enn í mörgu eldra fólki sem man tímana tvenna, þegar sest var á bryggjupollana í Reykjavíkurhöfn til að hindra að farmenn, sem voru langt að komnir kæmust heim til sín og sinna.
Og ekki er langt síðan ég var minntur á, þegar hindrað var í verkfalli, að mjólk gæti borist til þéttbýlisins við Faxaflóa.
Þetta eru gömul dæmi sem gerðust fyrir löngu; eru víti til varnaðar og sýna að best er að berjast málefnalega í orði og í æði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.