12.2.2020 | 08:05
Framtíð Sjómannaskólans.
Sjómannaskólinn er eitt helsta manngerða kennileiti Reykjavíkurborgar og er eign íslenskra sjómanna. Þeirra sem samfélag okkar hefur að stórum hluta byggst á, til að afla verðmæta og til að halda uppi verslunarsamskiptum við aðrar þjóðir.
Nú stendur til að flytja stóran hluta, ef ekki alla, starfsemi skólans brott frá Reykjavík.
Er í raun framhald af sögu sem hófst, þegar Vélskóli Íslands og Stýrimannaskólinn voru lagðir inn í skólasamlag, sem gengur undir nafninu Tækniskóli.
Til var skóli sem starfaði undir því nafni og var skóli á tæknisviði, hugsaður fyrir þau sem vildu afla sér aukinnar þekkingar að loknu t.d. iðn- eða vélskólanámi. Eins konar millistig yfir í háskólanám; skóli sem útskrifaði tæknifræðinga.
Sá skóli var lagður niður og upp kom sú sérkennilega hugmynd, að flytja núverandi Vélskóla Íslands í húsnæði hins niðurlagða Tækniskóla. Vélasal Vélskólans átti síðan, samkvæmt því sem fram kom, að hafa í miðju húsnæðinu og raða skólastofum til bóknáms umhverfis salinn!
Hugmyndin var svo fráleit að hún dó drottni sínum að mestu af sjálfsdáðun; var andvana fædd firra manna sem lítið sem ekkert þekktu til þess sem þeir voru að fjalla um.
Enn er sótt að Sjómannaskólanum og á sækir grunur um að undir liggi, að taka eigi húsnæðið undir ,,eitthvað annað" og væri fróðlegt og upplýsandi, að fá fram hvað það eigi að vera?
Sjómannaskólanum var valinn á sínum tíma fallegur staður. Hann stendur hátt og þjónaði viti sem er í turni hans, sem merki til innsiglingar í Reykjavíkurhöfn allt þar til fyrrverandi borgarstjórn leyfði byggingar sem lokuðu fyrir það merki.
Nú er komin upp mikil ásókn í svæðið umhverfis skólann af hálfu Borgarstjórnar Reykjavíkur og er þá gott til þess að vita, að til eru orðin frjáls félagasamtök sem rísa upp svæðinu og skólanum til verndar.
Gott væri að fá fram hver sé afstaða, VM Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna og Skipstjóra- og stýrimannafélag Íslands?
Ætla þau félög sjómannastéttarinnar að taka því með þögninni að skólanum og umhverfi hans verði ráðstafað svo sem nú virðist standa til?
Liggur ef til vill sá fiskur undir steini að til standi að breyta skólanum í enn eitt hótelið, eða stjórnsýsluhúsið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.