Frelsið, stríðið og dauðinn

2022-03-10 (15)Í Evrópu komu saman til fundar menn og konur og báru sig saman um hvernig hægt væri að valda íbúum álfunnar sem mestum skaða á sem allra skemmstum tíma.

Fundurinn endaði vel að sögn og eftir þrætur hik og tafs, var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að valda Rússum sem mestu tjóni og að það yrði best gert, með því að skaða aðra íbúa álfunnar, en þó Rússa sem allra mest.

Þeir eru reyndar eftir því sem best er vitað í Evrópu, en það gleymdist í hita leiksins.

Er þessi niðurstaða lá fyrir, fór hver til síns heima og undu þar sæmilega glaðir við sitt, en ekki þó alveg. Því eftir var að sannfæra fólkið - sem átti að taka á sig refsinguna sem ætluð var hinum voðalegu Rússum, en eru alls engir Rússar-, um þörfina og ánægjuna, sem það myndi finna fyrir í hjarta sínu, þegar það fengi um þriðjungi minna af eldsneyti á bílinn sinn fyrir hverja evru, en áður hefði verið.

Það var líka fremur óljóst hvernig hinir vondslegu Rússar myndu taka niðurstöðunni, en í hjarta sínu vonuðu hinir fínu herrar og frúr, að rússneskir ráðamenn og hermenn, tækju þessu sem hvatningu um að ljúka ætlunarverki sínu í Úkraínu sem fyrst: þ.e. að ,,afnasistavæða" landið.

Og þar sem fundarfulltrúar töldu sig hafa traustar úkraínskar heimildir fyrir því að nær engir nasistar væru í landinu, þá yrði þessu lokið bæði fljótt og vel.

Þrír mánuðir í heilli styrjöld er náttúrulega ekki mikið, að minnsta kosti ekki borið saman við Vietnam stríðið bandaríska á árunum. En það var náttúrulega svo langt í burtu frá frelsurunum sem verða mátti og er því á engan hátt sambærilegt!

Úkraína er eins og við vitum orðið, af fréttum, nánast hérað í eða út úr Rússlandi og því ætti ekki að vera mikið mál að hreinsa það af fyrrnefndri nýnasista óværu.

Hvernig verkið gengur vitum við satt að segja fremur lítið um, því helsta heimildin eru kvöldmessur forseta landsins sem sagt er hýsa hina nýju nasista.

Í fyrsta lagi skiljum við ekki það sem sagt er í ræðunni og í öðru lagi treystum við ekki þýðingunni; vitum ekki hvaðan hún er fengin og hver það var sem snaraði henni yfir á hið ástkæra og ylhýra.

Fréttir af málinu hefjast gjarnan á orðunum ,,talið er“ og ,,haft er eftir“ og að því fengnu vitum við það, að í fréttum er það helst, að talið er og haft er eftir einhverjum, að eitthvað hafi gerst svona eða hinsegin.

Þessu til viðbótar var sá siður innleiddur í frelsinu vestræna, að ritskoða svo sem hægt væri allar fréttir sem bærust frá þeim sem vinna að frelsun Donbas svæðisins í Úkraínu.

Þær fréttir hafa reyndar tekið á sig allskyns útúrdúra og króka, sérstaklega í upphafi leiðangursins.

Þannig að stundum hafa menn ekki vitað eitt né neitt um, hvað fyrir mönnunum vekti. Ráðist var á höfuðborgina, Chernobyl kjarnorkuverið fornfræga og ýmislegt fleira, sem við sem ekki skiljum hernaðartækni botnum ekkert í af hverju var gert.

Að vísu höfðu borist af því fréttir að úkrainar væru farnir að fikta við kjarnorkuvopn, en að höfuðborgin og aflagt kjarnorkuver séu góðir staðir fyrir svoleiðis fikt, er ekki gott fyrir okkur sem ekki höfum þekkingu á kjarnorkufræðum að átta okkur á og skilja.

Vitum þó að við vildum ekki að verið væri að fikta við svoleiðis í stofunni í næsta húsi!

Fyrst leit svo út, að til stæði að ,,frelsa“ allt landið undan nasistunum og þar með sjálfu sér, en seinna kom í ljós að svo var ekki og því var líkast, sem menn hefðu ekki verið búnir að ákveða hvað gera skyldi.

Eftir japl, jaml og fuður, var sem sagt ákveðið af stefna í suður, þangað sem óværan væri, en láta uppsprettuna eiga sig –, í bili að minnsta kosti.

Þar eru við í dag, olíu og bensínlítil og auralítil, en brosandi út að eyrum af ánægju yfir að geta lagt okkar lóð á vogarskál réttlætisins, með því að kafa dýpra ofan í peningaveskin í hvert sinn sem fylla þarf tankinn á heimilisbílnum, kaupa í matinn og ferðast sér til ánægju.

Allt er það þó hjóm eitt í samanburði við það sem þjóðirnar tvær sem stríða þurfa að fást við, þar sem sonurinn kemur ekki heim úr leiðangrinum, eða ef hann kemur heim, þá er hannn skaðaður á sál og líkama, ef hann þá skilar sér yfirleitt.

Svo ekki sé nú minnst á öll þau sem um sárt eiga að binda í þessu stríði sem öðrum, vegna þess að þau voru ekki á réttum stað á réttum tíma, og ráfa nú um lemstruð á sál og líkama, ef þau eru ekki endanlega hætt að hreifast.

Því þannig er komið fyrir mörgum að þau eru ekki lengur á meðal okkar og jafnvel ekki einu sinni vitað hvar líkamar þeirra eru.

Þannig eru stríð, að mannlegar hörmungar liggja í stríðsslóðinni hvert sem litið er og við hugsum til allra þeirra barna sem aldrei verða fullorðin, eru horfin, eða eru fötluð á líkama eða sál.

Hvers eiga þau að gjalda?

Ekki höfðu þau neitt til sakar unnið sem getur réttlætt það, að þau láti lífið eða lemstrist í ógeðslegu blóðbaði styrjaldar.

Aftur og aftur og aftur, munum við samt horfa á atburði sem þessa endurtaka sig!

Þrátt fyrir tvær heimstyrjaldir og sífellt endurteknar staðbundnar styrjaldir. Alltaf skal það gerast aftur að menn geti ekki komist að sanngjörnum niðurstöðum í ágreiningi sínum.

Hvenær verður komið nóg?


Bloggfærslur 3. júní 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband