Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kosningagos

Nei, bara eldgos og þau eru sem fastir liðir eins og venjulega, á Reykjanesi.

Skjámynd 2024-11-15 073910Þetta var í Morgunblaðinu um daginn og nú er gripið til sparnaðaraðgerða, enda séð fram á krepputíma að kosningum loknum:

En þegar við vöknum þennan morguninn, er sagt frá því í fréttum, að eldgos sé hafið í enn eitt skiptið á Reykjanesi.

Lítið og nett sprungugos eins og þau hafa verið flest og ástandið er fyrir löngu farið að minna á ,,Kröflueldana”, sem afgreiddir voru svo léttlega af Jóni Sólnes þegar hann sagði:

,,Við kröflum okkur út úr þessu”.

Þeir Ragnar Arnalds og hann, lögðu til hliðar pólitískan fjandskap þegar þeir voru í forsvari fyrir framkvæmdunum við Kröfluvirkjun.

Eldgos í byggð, eða á framkvæmdasvæðum eru ekkert grín en Jóni var fyrirgefið þó hann slægi á létta strengi, því það þarf að hafa léttleikann með, svo alvaran fari ekki að verða of þungbær!

Það eru ekki framkvæmdir sem liggja á okkur þessa dagana, heldur kosningar til Alþingis og eins og tekið hefur verið eftir, liggja aurar á lausu til að gera eitt og annað, sem reyndar verður trúlega fæst síðan gert eftir kosningar.

Það er nefnilega oft þannig, að þegar búið er að kjósa, þá breytast viðhorfin og þá þarf að huga að einhverju öðru en því sem var til umræðu fyrir kosningarnar.

Atkvæðin eru komin í hús, eins og það er kallað og þá er farið að hugsa að eitthvað annað.

Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að fjölga lögreglumönnum um 200 eftir kosningar.

Framsóknarflokkurinn rýkur til og segist ætla að byggja brú sem búið er að japla um og jamla á í langan tíma, en eftir er að hanna.

Áður en flokkurinn batt ástfóstri við brúna, sem enn er óhönnuð hugmynd, dreymdi hann um að bræða göng undir Ölfusá og sleppa brúnni.

Nú er ,,bræðslutólið” gleymt og grafið og það sama mun gilda um göngin miklu sem bræða átti til Eyja og töframaðurinn sem jarðbræðslunni átti að stjórna, hefur ekki verið nefndur í langan tíma.

Svo er samt ekki um rafknúnar farþegaþotur sem Framsóknarflokkinn dreymir um, því þær birtast í umræðunni við hin ýmsustu tækifæri.

Rafknúin tól af ýmsum gerðum þurfa raforku og því stærri sem tólin eru, því meiri raforku þarf til að knýja þau, en það er ekki í handbókum Framsóknar.

Þau kjósa sig svo sjálf en það er fullkomlega eðlilegt eins og flestir sjá, því ekki geta þau farið að kjósa einhverja aðra, sem eru þar að auki með alrangar hugmyndir!

Þannig er það að þeir sem þrá að halda völdum og þykir gaman að ,,ráða” og ,,stjórna“, að þeir þurfa sífellt að finna upp á einu og öðru til að heilla okkur kjósendur.

Til er andategund sem kölluð er stokkendur en hún kemur þessu ekkert við og stígur ekki einu sinni á stokk og hvað þá tvisvar!

Og fer aldrei í framboð!

Skjámynd 2024-11-21 095653Teiknarar draga upp myndir í fjölmiðla og hafa gaman að öllu tilstandinu og hér sjáum við nokkur dæmi um það, sem Ívari teiknara Morgunblaðsins, hefur dottið í hug. Almennir kjósendur vita hins vegar að flest verða kosningaloforðin gleymd að kosningunum loknum.


Bændasamtökin í fortíð og nútíð

Í Heimildinni er farið yfir hallarbyltinguna sem gerð var hjá Bændasamtökunum, þegar kosinn var nýr formaður og framkvæmdastjóri, sem ný forysta rak síðan úr starfi án sýnilegrar ástæðu.

Við erum nokkur sem munum það sem var hjá Bændasamtökunum – áður Stéttarsambandi bænda – og síðan breytingarnar sem seinna urðu.

Bændasamtökin voru áður fyrr fyrst og fremst samtök sauðfjár- og kúabænda, enda þær búgreinar umsvifamestar á þeim tíma og þá einkum sauðfjárræktin, sem auk afurða af kindinni til sölu á innanlandsmarkaði, framleiddi svo mikið umfram þörf, að flytja þurfti afurðina út í skipsförmum.

Smávegis greiðslur fengust fyrir kjötið og Skipadeild Sambandsins, sem sá um flutninginn til annarra landa, fékk eðlilega greiðslur fyrir.

Þannig var þetta um langan tíma og þar kom, að stórir draumar vöknuðu hjá þeim sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir bændur og niðurstaða þeirra varð, að ekkert minna dygði til en að byggt yrði glæsihótel til að hýsa starfsemina og framkvæmdin yrði fjármögnuð m.a. með því að leggja gjald á bændur landsins og þ.á.m. bændadætur og syni sem áttu oft eina eða fleiri kindur sem þau fengu að njóta innleggsins af að hausti.

Með árunum fjaraði smátt og smátt undan og æ minna var í kassanum til að borga reikningana og svo fór að blaðran sprakk og þau sem þá voru komin til starfa hjá samtökunum, urðu að bjarga því sem bjargað varð og máttu taka saman, flokka, hreinsa og henda og flytja að lokum starfsemina annað og nú er Hótel Saga ekki lengur til.

Eitt af síðustu verkum þeirra sem áður réðu húsum, var að fjárfesta í hótelhúsgögnum fyrir ómældar upphæðir og hafa þau eflaust verið borin út líka en ekki fer miklum sögum af, að mikið hafi fengist fyrir þau í endursölu þ.e.a.s. ef þær fóru þá ekki á haugana.

Það kom í hlut nýrra vanda að hreinsa út og sópa, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og kosinn var vænn maður úr hópi garðyrkjubænda til að stýra samtökunum með nýrri stjórn og nýjum framkvæmdastjóra.

Það fólk gekk síðan í að í að gera það sem gera þurfti og var það ekki lítil vinna, að hreinsa út allskyns uppsafnað rusl sem orðið hafði til með tímanum.

Frá þessu er m.a. sagt í grein Heimildarinnar sem tengillinn er á í upphafi þessa pistils og verður það ekki rakið lengra, en þegar tiltektinni var lokið var gerð hallarbylting og kosinn sauðfjárbóndi sem formaður samtakanna og framkvæmdastjórinn rekinn og nýr ráðinn.

Þannig var þeim þakkað fyrir vel unnin störf, að þau voru látin víkja.

Það þykir gott að hafa grænmeti með kjötmáltíðunum og því var það, að mörgum í bændastétt, þótti það ekki verra að garðyrkjubóndi væri í forystu, þ.e. bóndi sem framleiðir það sem haft er með flestum kjötréttum.

Það er nefnilega fleira matur en feitt kjöt!

Hin nýja bylting varð til þess að horfið var aftur til fyrri tíðar að því leiti til, að hinn nýi formaður er sauðfjárbóndi.

Sumir segja að sagan gangi í hringi, breytist og endurtaki sig síðan og svo er að sjá sem það hafi sannast hjá samtökum bænda en hvort að eftir eins og hálfa öld verður kosinn til forystu samtakanna maður úr hópi þeirra sem sameina og horfa til framtíðar, mun tíminn einn leiða í ljós.

_ _ _

Skjámynd 2024-11-20 061117Það er framkvæmdastjórinn sem látinn var hætta, þegar nútíðin breyttist í fortíð, sem rætt er við í grein Helga Seljan og sem vitnað var til hér í upphafi.

Í grein Helga er m.a. eftirfarandi haft eftir Vigdísi Häsler fyrrverandi framkvæmdastjóra:

„Framsóknarmenn voru aðallega pirraðir því Bændasamtökin voru þeirra vígi. Ég lagði mig hins vegar fram um að vera frekar í sambandi við og nálgast fólk í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Ég var að vinna fyrir atvinnugreinina en ekki einstaka stjórnmálaflokka. Ég held að það hafi gengið vel,“ segir Vigdís og bætir við að þó að hún hafi verið að vinna á Alþingi og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi hún aldrei verið í starfi þar sem pólitíkin var jafnmikil.

„Það er alveg ofboðsleg pólitík í Bændasamtökunum.“ „Menn verða að passa að þetta verði ekki eins og hér áður fyrr þegar Framsóknarflokkurinn ók um sveitir landsins ásamt forystu Bændasamtakanna. Við erum með alls konar landslag af bændum. Þeir eru Píratar, þeir eru Sjálfstæðismenn, Vinstri græn, á óháðum listum – allt pólitíska litrófið.“ „Ég hlustaði ekki á umfjöllun um landbúnað og keypti mér ekki kótilettur“, segir Vigdís Häsler á einum stað í viðtalinu.

Myndin eru úr grein Heimildarinnar.


Vindorka eða vatnsorka

Í grein undir yfirskriftinni ,,Vindurinn – Ekki sjálfgefinn“ í Heimildinni eftir Ara Trausta Guðmundsson er fjallað um vindorkuver og vatnsaflsvirkjanir og hvernig þessi mismunandi orkuver vinni saman, eða réttara sagt vinni ekki saman.

Skjámynd 2024-11-15 062012Ef rétt er skilið, telur höfundur greinarinnar, að vindorkuverin þurfi vatnsorkuverin til að brúa bilið þegar vindinn skorti og því þurfi það sem hann kallar réttilega ,,jöfnunarafl” og ef rétt er skilið, þá telur hann, að þar muni vatnsaflsorkuverin koma til með taka við orkuþörfinni.

Sá sem þetta ritar telur að snúa megi dæminu við og segja sem svo, að þegar vindorkuverin fái næga orku þá geti vatnsaflsorkuverin dregið úr sinni framleiðslu og safnað í lónin vatni til að nota síðan til að framleiða orku þegar vindinn skorti, þ.e.a.s. að þessar orkuöflunaraðferðir komi til með að styðja hver við aðra.

Vatnsaflið er ekki stöðug auðlind og það er vindurinn ekki heldur en þessar orkuöflunaraðferðir geta vel unnið saman og tryggt betur orkuöflun.

Við vitum að það koma mismunandi góð ,,vatnsár” og við vitum jafnvel enn betur, að ekki er treystandi á að vindurinn sé alltaf til staðar og þó okkur þyki lognið gott, þá er það ekki gott fyrir vindmyllurnar því það dregur úr orkuöflun þeirra og sé lognið algjört, sem sjaldan gerist hjá okkur, þá stöðvast vindmyllurnar og þá reynir á aðra orkugjafa sem þurfa að koma í staðinn!

Skjámynd 2024-11-15 061908Hins vegar er það, að þegar vindmyllurnar skila miklu geta orkuver sem nýta sér fallvötnin dregið úr sinni framleiðslu og safnað vatni í uppistöðulónin.

Það er því ástæðulaust að stilla þessum orkuöflunaraðferðum upp sem andstæðum.

Bæði vindorka og vatnsorka eru ,,hreinir” orkugjafar samkvæmt þessu og engin ástæða til að stilla þeim upp hvorum gegn öðrum.

Þegar farið er um heiminn má víða sjá vindmyllur sem reistar hafa verið til orkuöflunar og við getum treyst því að það er verið að gera það til að afla orku og að orka sem þannig fæst, minnkar álagið á önnur orkuver ef eitthvað er.

Við skulum því skoða þetta sem samstarf sem skilar góðu vegna þess að aðferðirnar styðja hver við aðra.


Mun ófriður breytast í frið?

Það er barist í Evrópu og það er barist í Afríku og eflaust víðar, þó ekki sé eins mikið um það fjallað.

Við getum lesið þar um hvernig ófriðaröldurnar berja á í ýmsum löndum en gera má ráð fyrir að við séum mörg sem erum einna mest með átökin í A- Evrópu í huga. 

Þó ótrúlegt sé, þá eru bundnar talsverðar  vonir við, að kosningaloforð Trump um skjóta stöðvun stríðsins milli Úkraínu og Rússlands verði að veruleika  og svo er að sjá sem karlinn hafi ekki látið sitja við orðin tóm, því sagt er frá því að hann hafi þegar sett sig í samband við bæði Putin og Zelensky. 

Við fögnum því, vonum að það sé rétt og að jákvæð niðurstaða náist fram, sem geti orðið til að stöðva átökin og að þjóðirnar sem í hlut eiga, geti í framhaldinu snúið sér að því að byggja upp í stað þess að brjóta niður. 

Sagt er frá því  á RT.COM að Úkraína standi að þjálfun manna sem síðan nýti kunnáttu sína til ófriðar og skemmdarverka í Afríku. 

Sé það rétt að þeir hafi orku til slíkra hluta þrátt fyrir það sem þeir standa í sjálfir, þá er staðan þar ekki eins slæm og látið er í veðri vaka. 

Þeir sem berjast fyrir hönd þjóða sinna í Rússlandi og í Úkraínu er ekki öfundsverðir af verkefninu. 

Víglínan er löng og landsvæðin sem tekist er á um eru víðáttumikil og samkvæmt því sem við getum lesið, þá er engan vegin einfalt að eiga við það allt. 

Hvers er hvað og hvað er hvers, á þessu landsvæði, er síðan endalaust hægt að deila um og hefur verið gert um aldir. 

Við sem minni spámenn erum vitum að eitt sinn var Úkraína partur af Sovétríkjunum og var þeim mikils virði, þó ,,stálmaðurinn” hafi ekki skilið að svo væri en fyrir það bætti annar sem var þaðan upprunninn og gaf Úkraínu skagann, bara sí svona og kannski mest vegna þess að honum rann blóðið til skyldunnar, þar sem hann var úkraínskur. 

Þannig var það í þá daga, að menn af úkraínskum uppruna gátu komist til æðstu valda í Sovétríkjunum.

Við leysum málin ekki með bloggtuði en gott væri nú, að menn slíðruðu sverðin og færu að ræða saman og vinna að uppbyggingu í stað þess að brjóta niður það góða sem þeir eiga. 

Þau sem líða fyrir hernaðinn eru eins og vanalega þau sem minnst mega sín og síðan auðvitað hermennirnir sem hvattir eru til illverka og til að eyðileggja svo mikið sem þeir geta.

Hætt er við að þeir sem komast heilir á líkama verði ekki eins heilir á sálinni eftir að hafa verið þátttakendur í stríðsverkunum og að það muni þurfa eina kynslóð eða tvær ef ekki fleiri til að græða sárin, sem í þeim, aðstandendum þeirra og síðan þjóðunum sjálfum munu sitja. 

Vonumst því eftir friði og því að hann verði varanlegur og ef til vill stendur Trump við loforðið!  

Tenglar inn á það sem hér var stuðst við auk þes sem er í texta, eru eftirfarandi:

https://www.cnn.com/2024/11/11/europe/russia-drone-strikes-ukraine-intl-latam; https://www.bbc.com/news/articles/cx28jd0114ro;


Eytt sparað og barist

Stjórnendur Reykjavíkurborgar stefna á að tekjuafgangur á næsta ári verði 1,7 milljarður.

Það er nánast á pari við það sem ríkisstjórnin færði forseta Úkraínu að gjöf, eftir að hafa boðið honum á þing Norðurlandanna.

Og það vantar a.m.k. milljarð í rekstur Landhelgisgæslunnar, milljarð sem ekki liggur á lausu.

Ekki hefur ritari séð hve margir hundar og kettir hafa verið fluttir til landsins frá Úkraínu en fram hefur komið, að kostnaður við hvert gæludýr, sem fólkið sem flýr stríðið tekur með sér, kosti íslensku þjóðina 3 milljónir íslenskar auk þes sem það mun kosta um 7 milljónir að taka á móti hverjum flóttamanni.

Ríkissjóður Íslands er rekinn með halla sem meðal annars stafar af fjáraustri í stríðsrekstur, sem íslensku þjóðinni kemur ekki við, nema ef hún myndi manna sig upp í að reyna að stilla til friðar.

Ganga á milli og reyna að bera klæði á vopnin, hvort sem er á milli Ísraela og Palestínumanna, eða Úkraínu og Rússlands.

Þess í stað var farið í barnalega fýlu út í Rússland, sem líkist því þegar börn snúa sér undan og segja ,,ég vil ekki tala við þig"!

Væri dugur og mannsbragur á hópnum sem landinu stjórnar, hefðu menn kynnt sér málin, rekið utanrikisráðherrann, ráðið nýjan og farið í að reyna að miðla málum.

Það hefur verið tregða í ríkisstjórnarnefnunni, á að styðja við flóttafólk sem vill komast á brott frá helför Ísraela.

Helför af öðru tagi en því, sem við munum frá seinni heimstyrjöldinni og er, ef eitthvað er, sýnu verri og viðbjóðslegri en sú sem þá var.

Þá voru það gyðingar sem urðu fyrir ofsóknum sturlaðra manna sem vildu útrýma þeim.

Á endanum tókst að stöðva þann óhugnað, sigra nasista og stöðva helförina - þar áttu Rússar stóran hlut að máli - en nú eru það afkomendur þeirra sem ofsóttir voru þá, sem sprengja fólk í tætlur og drápin bitna jafnt á konum, börnum og körlum, svo samjöfnuðurinn er óhugnanlega sambærilegur.

Nema að það er ef til vill ,,hreinlegra" að drepa fólk með markvissum hætti í þar til gerðum aftökustöðvum en að kasta á það sprengjum, sem ýmist deyða eða limlesta.

Þau sem sleppa lifandi eru löskuð bæði á líkama og sál og oftast hvort tveggja.

Enginn sendiherra hefur verið sendur til síns heima vegna þessa af íslenskri ríkisstjórn og enginn á von á að það verði gert, því undirlægjuhátturinn gagnvart stórveldinu sem í raun rekur hernaðinn í Palestínu, er slíku að það kemur ekki til greina.

Skömmin er ómæld.


Ríkið styrkir fjölmiðla

Við munum þá tíma þegar fjölmiðlar voru í fjárhagslegu basli og þurftu að hafa allar klær úti til að geta haldið sér á floti.

Nú er komin önnur tíð með blóm í haga og menn þurfa ekki að hafa eins mikið fyrir því að afla sér tekna til að geta t.d. borgað starfsfólki, þó ekki sé nema einhver laun.

Launin voru ekki alltaf greidd áður fyrr samkvæmt taxta og það gat orðið bið eftir greiðslum og því var lifað sparlega og reynt að fara vel með.

Oft var um að ræða hugsjónastarf, sem menn fórnuðu sér og sýnum fyrir og kröfurnar sem gerðar voru, fólust fyrst og fremst í því að koma t.d. ,,blaðinu“ út, fá sem flesta áskrifendur og helst eitthvað af auglýsingum og síðast en ekki síst styrki frá vildarvinum.

Allt þetta þurfti að rukka inn og það var barist í bökkum en fólk lagði mikið á sig til að geta komið t.d. málgagninu út.

Nú eru aðrir tímar með blóm í haga og í Viðskiptablaðinu er frétt sem vakið hefur athygli ritara.

Þar er þann 5. nóvember 2024 sagt frá því að úthlutað hafi verið styrkjum til fjölmiðla samtals að upphæð um 550 milljónum króna.

Sagt er frá því, að úthlutað hafi verið tæplega 551 milljón, eða eins og segir í inngangi fréttarinnar:

Til út­hlutunar voru 557,2 milljónir kr. að frá­dregnum kostnaði vegna um­sýslu, sér­fræðiað­stoðar, aug­lýsinga, þóknunar fyrir störf út­hlutunar­nefndar o.fl. sem var um 1,1% af heildar­fjár­hæð eða 6.298.068 kr.

Til út­hlutunar voru því 550.901.932 kr.“ Hér verður einungis getið þeirra sem fengu hæstu styrkina en í frétt miðilsins, sem hægt er að nálgast á tenglinum hér að ofan er taflan öll eins og hún birtist í blaðinu. Þeir sem hæstu styrkina fá samkvæmt fréttinni eru: Árvakur og Sýn með styrki á annað hundrað milljónir og síðan koma: Bændatorgið, Fjölmiðlatorgið, Fröken ehf., Myllusetur ehf., Sameinaða útgáfufélagið ehf., Skessuhorn, Sólartún og Víkurfréttir með á annan tug milljóna.

Aðrir fá minna samkvæmt fréttinni og ef rétt er talið bætast 17 aðilar við sem fá styrki sem eru innan við tug milljóna.

Samfélagið hefur sannarlega breyst frá því sem áður var og þetta er aðeins eitt dæmi um það en hvort rétt er gefið á þessa jötu, er ritari ekki fær um að dæma.


Hvert fór fylgið og hvers vegna?

Í Heimildinni er farið yfir það hvernig fylgið við stjórnmálaflokkana hefur hreyfst frá síðustu kosningum.

Hvaðan kom það, hvert fór það og hvar er það, fylgið sem flokkarnir fengu síðast þá er kosið var til Alþingis?

Það er líka farið yfir það hvernig fylgið við stjórnmálaflokkana hefur hreyfst frá síðustu kosningum. Hvaðan kom það og hvert fór, fylgið sem flokkarnir fengu síðast.

Önnur eins hreyfing á fylgi milli flokka og nú er, hefur varla sést áður og sé skoðanakönnunum treystandi er einn fyrrverandi stjórnarflokkur á leið út af þingi en ýmsir aðrir flokkar blómstra sem aldrei fyrr.

Menn uppskera eins og þeir sá, segir gamalt máltæki og ekki er annað að sjá en það ætli að rætast núna, Vg virðist vera á förum eftir sjö ára daður við, Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.

Réttara væri samt að kalla það daður við Vg hvernig Framsókn- og Sjálfstæðisflokkur hafa beygt sig undir vilja Vinstri grænna í stjórnarsamstarfinu.

Sem stendur er það Miðflokkurinn sem fitnar sem púkinn á fjósbitanum, því þangað fer fylgi Sjálfstæðisflokksins að miklum hluta og reyndar eru það stjórnarflokkarnir allir sem verða fyrir verulegu höggi, ef úrslit kosninganna verða nærri skoðanakönnunum.

Ætli ekki megi segja, svo haldið sé í máltækin, að ,,menn uppskeri eins og þeir sá“ og að í sumum tilfellum ,,leiti klárinn þangað sem hann er kvaldastur”?

Það eru líkast til ekki þung spor fyrir fólk að yfirgefa þau sem haldið hafa í ríkisstjórnartaumana undanfarin sjö ár.

Og það hefur gengið á ýmsu, uppákomurnar verið margar og undarlegar og hér verður aðeins nefnt hvalveiðibann, virkjanabann og almenn viðleitni til að banna flest sem horfir til framfara, auk takmarkalítils innflutnings á fólki, hundum og köttum!

Menn ætluðu að slá sér upp með ýmsu, eða allt frá engu og upp í eitthvað meira!

Hvers vegna er það sagt?

Það er vegna þess, að sé farið yfir feril þessarar ríkisstjórnar, stendur ekki steinn yfir steini í: strandveiðimálum, hvalveiðimálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum, innflytjendamálum, utanríkismálum…

Einn er þó sá ráðherra sem reynt hefur að vinna vinnuna sína með vönduðum og yfirveguðum hætti. Þar er um að ræða konu úr Hveragerði, sem alin er upp við það, að framsóknarmennsku eigi að varast og ekki taka til fyrirmyndar.

Þau sem fyrir voru er hún kom inn í ríkisstjórnina höfðu um annað að hugsa og reyndu að slá sér upp á ,,kófinu” og ófriðnum í austur- Evrópu svo dæmi sé tekið.

Það gerðu þau með því að segja Rússum stríð á hendur með barnalegum tilburðum eins og sendiráðslokunum og því að bjóða NATO- kjarnorkukafbáta velkomna í íslenskar hafnir.

Auk alskyns stuðningi við stjórnvöld sem efast má um að séu stjórn í merkingu þess orðs, í ríki sem sumir efast um rísi undir nafni og stjórnvöld sem enga stjórn höfðu á ríki sínu með alkunnum afleiðingum.

Það verður svo sannarlega ekki sagt að ekki hafi verið reynt en það hefur nær allt mistekist og nú eru meistarar fjassins meira að segja farnir að æsa sig yfir framkvæmdunum við Landspítalann og þéttingu byggðar í Reykjavík, sem þeir hamast síðan sjálfir við að framkvæma á Valhallarlóð sinni!

Og við bætist ,,Borgarlína“, auk takmarkalítillar ástar á flugvöll í miðbæ Reykjavíkur.

Flugvallarást sem er slík að hún yfirtekur flest og það ekki síst hjá framsóknarmönnum í Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki.

Verði samgöngur bættar í Reykjavík, byggingu spítalans lokið og flugvellinum fundinn annar og betri staður, verða viðhorfin önnur og þá verður það efalítið svo, að langflestir myndu vilja þær Liljur kveðið hafa.


Framboðsfundur í sjónvarpinu

Boðið var upp á framboðsfund í Sjónvarpi allra landsmanna í gærkvöldi 1/11/2024 og það var sjón að sjá og heyra.

Myndirnar eru fengnar af vefsíðum Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins. 2024-11-02 (12)Kjósandinn er með valkvíða sem von er þegar í boði eru tíu listar og það er Ívar teiknari Morgunblaðsins sem teiknar myndina.

Kristrún Frostadóttir er formaður Samfylkingarinnar, flokksins sem þjóðin bindur mestar vonir við skv. niðurstöðu skoðanakannana.

Fulltrúi Miðflokksins var í hlutverki trúðsins eða grínarans, lék á alls oddi og virtist vera kominn á fundinn til að skemmta sér og reyna að skemmta öðrum en þó aðallega sjálfum sér.

Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á hvernig til hafi tekist en óhætt er að segja að framkoma mannsins hafi frekar lífgað upp á stemminguna en hitt.

Ljóst er að íhaldsflokkarnir eru orðnir a.m.k. þrír, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og síðan Viðreisn sem er með rætur þaðan og ætli ekki megi segja að Vinstri græn séu líka í þeim hópi, þó þau telji sig til vinstri.

Hart var sótt að formanni Samfylkingarinnar sem vonlegt er, þar sem ógnin við flokkana fyrrnefndu kemur fyrst og fremst þaðan.

Kristrún Frostadóttir var í forsvari fyrir flokkinn sem hún leiðir og lét engan eiga neitt inni hjá sér og svaraði spurningum og skotum með beinskeyttum og málefnalegum hætti.

Segja verður það eins og er, að sjónvarpsefni af þessu tagi er almennt séð ekki sérlega aðlaðandi fyrir áhorfendur en þáttastjórnendur buðu upp á ágætar nýjungar eins og það, að bjóða fulltrúum framboða, að spyrja hvern annan spurninga og svörin komu yfirleitt greiðlega til baka.

Einbjörn spurði tvíbjörn, sem síðan spurði þríbjörn o.s.frv. eða alls upp í tíu, því svo mörg eru framboðin!

Þættinum lauk síðan með þeim óvanalega hætti að menn áttu að segja eitthvað gott við og um hvern annan.

Góð nýjung sem gera má ráð fyrir að muni festast í sessi!

Sumir þeirra sem í framboði voru, gerðu tilraun til að sauma að formanni Samfylkingarinnar en uppskáru ekki eins og þeir sáðu, því Kristrún svaraði greiðlega og málefnalega.

Það er von að menn skuli hafa beint spjótum sínum að henni, því flokkur hennar hefur skorað hátt í skoðanakönnunum og því er það, að þaðan kemur þeim ógnin.

Það sannaðist sem sagt, að gamlir refir vilja verja sitt og halda áfram að ráðskast með þjóðina og eigur hennar.

Að þessu sinni var ekki rifist um gjafasölu á lambakjöti til annarra landa, því önnur og erfiðari mál voru og eru efst á baugi, eins og t.d. óheftur innflutningur fólks frá útlöndum, fólks sem komið er flest til að leita sér að betri stað til að vera á í lífinu.

Skjámynd 2024-09-29 182448En það tekur í fyrir litla þjóð að fjárfesta í slíkum innflutningi og því er skiljanlegt að menn vilji ræða málin og skoða hvort farið sé of geyst.

Komið hafa fram tölur um að hvert gæludýr, sem inn er flutt með húsbændum sínum, kosti í slíkum innflutningi um þrjár milljónir króna og hver maður aðrar sjö slíkar.

Vonandi er það góð fjárfesting fyrir þjóðarbúið okkar en það mun koma í ljós með tímanum.


Úkraínufréttir á íslenskum miðli

Það er fjallað um stríðið í Úkraínu á vefmiðlinum visir.is og þar kemur ýmislegt fram sem lítið hefur borið á áður.

Sagt er t.d. frá því að sókn Rússa í stríðinu hafi gengið vel að undanförnu, einkum í Donetks héraði.

Ef ritari man rétt er það eitt að sjálfstjórnarhéruðunum svokölluðu á Donbassvæðinu.

Sagt er frá því að illa gangi að manna úkraínska herinn, sem hefur orðið til þess að komið hafa fram hugmyndir um, að lækka herskyldualdurinn, sem ekki fellur öllum vel í geð.

Sagt er frá ýmsu fleiru sem stingur í stúf við það sem við höfum fengið að heyra, s.s. frá Zelensky, sem var nýlega sérlegur gestur íslensku ríkisstjórnarinnar á einhverskonar norðurlanda- hittingi stórmenna.

Hvenær og hvernig það gerðist að Úkraína varð eitt af Norðurlöndunum hefur ekki ekki komið fram.

Ríkisstjórnin leysti mann þennan út með eins og hálfs milljarðs tékka á ríkissjóð Íslands, sem trúlega er gefinn út án mikillar innistæðu.  

Um er að ræða íslenskar krónur en eins og kunnugt er, fæst ekki mikið fyrir þær núorðið.

Sé litið á kort af svæðinu, þá er ljóst að mikið er eftir ef það er ætlun Rússa að leggja undir sig alla Úkraínu, sem reyndar hefur hvergi komið fram svo ritari muni eftir.

Fækki fólki í landinu eins mikið áfram og gerst hefur síðan Rússar hófu hernaðinn, er hætt við að styrjöldin lognist út af sjálfu sér.

Í grein Vísis er vitnað í og gefnir tenglar á ýmsa miðla eins og Kyiv Independent og Wall Streat Journal.

Allt stemmir þetta og styður við það sem sést hefur á öðrum bandarískum miðlum.

Hvernig andúkraínskur áróður af þessu tagi um hið nýtilkomna norræna land, hefur getað sloppið inn á síður íslensks fjölmiðils er óútskýrt og ef til vill óútskýranlegt. 

Sé horft á kort af svæðinu sést að mikið er eftir, ef það er ætlun Rússa að leggja undir sig alla Úkraínu.

Það hefur reyndar hvergi komið fram, svo ritari viti til, að það sé ætlunin en ætti að verða auðvelt, ef íbúar Úkraínu halda áfram að flýja land sitt í sama mæli og að undanförnu.

Þegar hver kona eignast ekki nema eitt barn að meðaltali, eins og fram kemur í fréttinni að sé staðan, þarf ekki miklar reikniskúnstir til að finna út, að þjóð sem þannig er komið fyrir, á sér ekki mjög langa framtíð.

Þau ættu að hafa það í huga, þau sem bjóða sig fram til Alþingis Íslendinga, að búa svo í haginn fyrir ungt fólk, að það geti haldi við stofninum og helst dálítið meira en það!


Heimsóknir, ferðalög og gjafmildi

Í fréttum hefur verið sagt frá því að kennarar séu í verkfalli og launakrafan er skýr, því komið hefur fram að hún er upp á eina milljón í mánaðarlaun.

En það eru fleiri sem þurfa sitt og sem dæmi má taka, að ríkissjóður mun standa undir stórum hluta kostnaðar við för 46 fulltrúa til Bakú til að ræða loftslagsmál.

Skjámynd 2024-10-30 065721Í Bakú mun vera margt að sjá og eflaust hefur verið kominn tími á að endurtaka Abú Dabí ferðalagið minnisstæða.

Í inngangi fréttar af flandrinu í Morgunblaðinu er sagt frá því að:

,,Íslenska sendi­nefnd­in sem fer á aðilda­ríkjaþing lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna í Bakú í Aser­baís­j­an, COP29, verður skipuð 46 full­trú­um. Í þeim hópi eru 10 manns úr op­in­berri sendi­nefnd auk full­trúa fé­laga­sam­taka á borð við unga um­hverf­issinna og nátt­úru­vernd­ar­sam­tök"

Það er oftast gaman að ferðast um og skoða heiminn og eflaust er ekki verra að gera það á kostnað ríkissjóðs.

Enginn átti von á að ríkisstjórnin væri í sérstöku sparnaðarkasti svona rétt fyrir kosningar og því kemur ekki á óvart að hún veitir líka nokkrum krónum í stríðsreksturinn í Úkraínu og mun það vera uppskera forseta þess lands eftir heimsóknina til Íslands sem nýlokið er.

Skjámynd 2024-10-30 070114Þeir hittust í hráslaganum nýlega og betra þykir að ferðir séu til fjár frekar en hitt og stóri maðurinn á myndinni hefur eflaust vilja vera rausnarlegur við þann sem er við hlið hans.

Einn og hálfur íslenskur milljarður er hvort eð er ekki stór upphæð í hugum hinna hugumstóru stjórnenda þjóðar okkar.

Á visir.is segir eftirfarandi:

,,Einn og hálfur milljarður króna í aukinn stuðning við Úkraínu í fjáraukalögum á að mæta kostnaði við auknar skuldbindingar Íslands sem samið var um á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í sumar. Stuðningurinn fer áfram í þjálfun, kaup á búnaði og hergögnum og framlögum í sjóði sem styðja varnir Úkraínu."

Það er gott að eiga góða að þegar á þarf að halda og það veit Zelensky og það veit Bjarni og þjóð veit þá tveir vita.

Ritara hefði þótt gæfulegra að peningaupphæð af þessari stærðargráðu hefði verið varið í að koma á friði austur þar, að mönnum hefði verið boðið að samningaborðinu t.d. í Höfða og fengnir til að ræða málin.

Trúlega er það ekki eins auðvelt og halda mætti en það hefði mátt reyna og það þó flumbra í ráðherrastóli hafi rekið rússneska sendiherrann heim í flumbrukasti.

En það hefði mátt, viðurkenna mistökin og biðjast diplomatískrar afsökunar og reyna síðan að stuðla að friði milli landanna í stað þess að blása upp ófriðinn, þ.e.a.s. ef það er viðkomandi ekki um megn.

Hér undir lok þess pistils er rétt að benda á frétt sem birtist í dag á CNN.COM og bera það síðan saman við það sem haldið er að íslenskri þjóð um málið.

Þar kemur ýmislegt upplýsandi fram um það sem er að gerast og hefur verið að gerast að undanförnu í málefnum Úkraínu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband