Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.3.2025 | 07:58
Það eru lausir endar sem þarf að hnýta
Tekist hefur að fá Úkraínumenn að samningaborðinu en ýmislegt er ófrágengið sem von er.
Á Russya Today er farið yfir málið og greinilegt er, að rússnesk stjórnvöld vilja ganga betur frá ýmsum atriðum og frá því er reyndar sagt á fleiri miðlum.
Myndin sem hér fylgir er fengin af Russya Today.
Svo dæmi sé tekið, þarf að ræða og komast a niðurstöðu um hvernig fara muni með þá úkraínsku hermenn sem umkringdir eru í Kúrsk.
Það getur ekki verið góð hugmynd að fyrirskipa vopnahlé án þess að ræða atriði eins og það og varla hægt að ímynda sér þá stöðu sem þeir eru í.
Eiga þeir að hætta að berjast í því feigðarfeni sem innrásin í Kúrsk var og ef þeir hætta að berjast - sem þeir myndu vitanlega neyðast til - hvað verður þá um þá, fyrir nú utan það að þeim berast ekki vopn né vistir ef þannig verður gengið frá málunum.
Geta Úkraínar hugsað sér, að þeir verði allir að stríðsföngum Rússa, sem samið yrði síðan um lausn á ,,einhvertíma í framtíðinni"?
Gleymdust þeir, eða er ætlunin að þeir verði ,,skiptimynt" í samningum framtíðarinnar?
Hvernig líður aðstandendum þeirra á meðan ekkert er vitað um hvernig mál þeirra verða afgreidd?
Það er sannarlega mikils virði að reynt sé að koma á friði og vonandi tekst það en augljóst er, að eins og málin standa núna, þá yrði friðurinn afar ótryggur.
Zelensky gasprar að vanda og best væri að menn færu að átta sig á því, að þeir sem segja mest og nota flest orð, leysa ekki endilega stór þrætumál.
Það gildir um hann og það gildir líka um utanríkisráðherra íslenska eyríkisins, sem veður um með þusi sem gengur út á að nota sem flest orð til að koma því frá, sem liggur henni á hjarta þá og þá stundina.
Viðleitni Trump og félaga er virðingarverð en betur má ef duga skal og gera má ráð fyrir að menn Hvíta hússins geri sér grein fyrir því.
Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig málin þróast næstu daga og við leyfum okkur að vona hið besta, því hver ferð byrjar með einu skrefi og vonandi verða þau fleiri i þessu tilfelli.
12.3.2025 | 14:34
Sóknin í Kúrsk
Russya Today segir frá því hvernig notuð var gasleiðsla til að koma úkraníska hernum á óvart í Kúrsk.
,,Ég ætla bara að vona að þeir verði fljótir að koma þessum óþjóðalýð á brott", sagði maðurinn og í frásögn RT, sjáum við dæmi um, að ýmsum brögðum er beitt til að ósk hans geti orðið að veruleika.
Lögnin var tæmd af gasi að svo miklu leiti sem hægt var og eftir langa göngu og marga ,,snafsa" af súrefni komust mennirnir á leiðarenda, komu óvininum á óvörum og nú er hinn íslenski vildarvinur opinn fyrir vopnahléi samkvæmt fréttum frá Saudi Arabiu.
Úkraínar lokuðu fyrir streymi gass eftir leiðslum sem liggja um land þeirra og þaðan áfram til Evrópulanda.
Það virtist þá engu skipta þótt ,,vinir" þeirra í hernaðinum fengju að sitja í kuldanum; biðu ekki einu sinni eftir að almennilega voraði áður en þeir skrúfuðu fyrir!
Voru ekki heldur að hugsa um sjálfa sig, en eins og mörgum er kunnugt hafa þeir stundað það um margra ára skeið að stela gasi úr lögnunum með því að bora á þær göt til aftöppunar.
Yfir þessu hefur verið kvartað af eigendum gassins þ.e. Rússum og löndunum sem gasið ætluðu sér að kaupa.
Nú er þetta að koma sem bjúgverpill í bakið á Úkraínum, því hinir úrræðagóðu Rússar, beittu króki á móti bragði og notuðu leiðslurnar til að komast að baki úkraínska hersins sem enn þraukaði í Kúrsk.
Íslenskar ráðherrar, bæði núverandi og fyrrverandi telja sjóðum íslensku þjóðarinnar best varið í vopnakaup í stríði, sem þeir skilja sínum skilningi.
Rússar hljóta að vera vondir, samkvæmt því sem boðað hefur verið í NATO samfélaginu og þá þarf ekki lengur vitnanna við hjá konunum og körlunum góðu.
Það skiptir engu máli þó skipt hafi verið um ríkisstjórn, sami söngurinn er kveðinn og sönglaður og lokatónninn sleginn með því að ausa enn meiru úr íslenskum ríkissjóði í ,,ríkisstjórnina" í Úkraínu.
Nú er ekki lengur sönglað ,,Ísland úr NATO og herinn burt" og svo er komið, að svokölluð vinsti og/eða valkyrjustjórn, sönglar:
Íslandi í NATO og herinn til baka!
Þær og karlarnir sem með þeim sitja, finna á endanum ráð til að bæta úr því.
NATO vinir þjóðarinnar vita hins vegar ekki hvernig þeir eiga að bregðast við hinum óvænta liðsauka og rífa hár sitt og skegg.
11.3.2025 | 08:00
Tollar og minningar
Það er ekki djúpt í árinni tekið að segja sem svo, að Trump hafi ruggað bátnum frá því hann tók við embætti.
Í Wall Streat Journal er fjallað aðeins um stöðu efnahagsmálanna í Bandaríkjunum í grein, þar sem lagt er út frá aðgerðum hins nýja forseta í þeim málum.
Eins og við vitum flest, hafa tollar verið hækkaðir í Bandaríkjunum og það hefur kallað á viðbrögð þeirra ríkja sem fyrir hækkunum hafa orðið.
Svo við höldum okkur við sjómannamálið, þá er sjaldan ein báran stök, og við sem staðið höfum í fjöruborðinu vitum líka að sjórinn í öldunni sem fellur á ströndina, sogast aftur út.
Ríkin sem orðið hafa fyrir tollahækkununum svara til baka með sínum aðgerðum og þannig koll af kolli.
Trump telur sig vera að berjast fyrir efnahag Bandaríkjanna og vel getur verið að það sem hann er að gera, hafi áhrif í þá átt til skamms tíma litið.
Það er margt gott sem kemur frá Bandaríkjunum en í seinni tíð hefur ritari snúið sér annað.
Sú var tíð að fátt þótti betra, glæsilegra og meira heillandi en stórir bandarískir bílflekar sem komu hingað til lands útjaskaðir og útlifaðir leigubílar frá USA, sem voru löngu búnir að skila sínu og máttu illa við því að ljúka ferlinum á íslenskum vegleysum.
Bandaríkjamenn voru alls ekki búnir að gefast upp og settu á markað diesel fólksbíla t.d. Oldsmobil, sem reyndust þannig á íslenskum vegum að sorglegt er frá að segja.
Seinna kom í ljós að fleiri höfðu orðið fyrir alvarlegum skaða af kaupum á þessum flekum og t.d. hitti ritari eitt sinn leigubílstjóra í Rotterdam sem sagði hryllingssögur af útreið þarlendra af þessari ,,eðal" framleiðslu.
Allt er þetta liðið og ef til vill hefur ,,Eyjólfur hressts", en undirritaður hefur haldið sig við evrópsk og japönsk fjórhjóla- farartæki eftir þessa reynslu.
Það skal tekið fram að þegar talað er um evrópska framleiðslu, þá er ekki átt við breska, því reynslan af henni var ekki ósvipuð þeirri fyrrtöldu, auk þess sem breskur ,,glæsileiki" er ekki fyrir alla!
Að þessu sögðu, þá er gott að koma til Bretlands og Skotlands og reyndar Bandaríkjanna líka.
Hjá þeim síðarnefndu var það fólkið á götunni sem reyndist vel á þeim litla landskika sem sóttur var heim af undirrituðum.
8.3.2025 | 07:57
Bréfið og Silfrið
Zelensky mun hafa ritað bréf til Trumps og á CNN er myndskeið þar sem Trump segir frá bréfinu.
Þegar ljótleikinn er hafinn upp og orðbragðið milli ráðamanna heimsbyggðarinnar er ekki sem huggulegast, er gott að virða fyrir sér eitthvað fallegt, þó það komi innihaldi þessa pistils ekkert við.
Hið ill- leysanlega Úkraínumál er eftir því sem best verður séð, komið í hendur Trump hins nýja forseta Bandaríkjanna.
Ekki eru allir ánægðir með hvernig hann hefur tekið á því máli og frægastur er fundurinn í ,,Oval office, þar sem Zelensky var veginn metinn og léttvægur fundinn.
Vilji menn frið verða menn að segja það og meina það en á það hefur skort hjá hinum úkraínska forseta.
Gera má ráð fyrir að hann reyni að tala eins og honum er uppálagt að gera en vindar breytast hratt í ríkinu sem fáir hugsuðu mikið um þar til nýlega þ.e.a.s. áður en Rússar misstu þolinmæðina með alkunnum afleiðingum.
Hvað sem segja má um Trump, þá verður því seint haldið fram að hann geti ekki hrist upp í mönnum með sinni framgöngu.
Hann er óhefðbundinn stjórnmálamaður og svo er að sjá, sem hann vilji rusla hlutunum af, afgreiða málin með snöggum hætti og í þessu tilfelli, til að koma á friðið milli ríkja sem staðið hafa í blóðugri baráttu.
Styrjaldir eru viðbjóður og eitt ömurlegasta sýnishorn af því sem mannskepnan hefur fundið upp til að leysa(!) deilur milli landa, eða réttara sagt milli leiðtoga landa.
Það þarf ekki að kafa djúpt í söguna til að finna frásagir af styrjöldum milli þjóða og svo er að sjá, sem seint muni koma sá tími að menn muni finna aðra lausn til að leysa úr deilum en hún er þó til.
Ef við gætum tekið upp þann sið að ræða málin af yfirvegun og sanngirni þegar ágreiningur kemur upp, væri staðan öðruvísi.
Við þurfum siðbreytingu og það í stórum stíl; siðbreytingu sem gengur svo langt að gerbreyta hugsunarhætti og framkomu milli manna og þjóða.
Við sáum í Silfrinu á Rúv fyrir skömmu, samskipti milli ólíkra pólitískra afla og þau gengu að flestu leiti ágætlega fyrir sig, nema að formaður Miðflokksins taldi sig þurfa að hafa orðið, þótt hann hefði nánast ekkert að segja!
Fulltrúinn skar sig í því úr hópnum, því hann taldi sig hafa meira að segja en innistæða var fyrir, á meðan aðrir sátu á strák sínum, nú eða stelpum, ef menn vilja hafa það þannig, á tímum hins mikla jafnréttis!
5.3.2025 | 06:20
Fuglar og menn
Tveir fuglar stinga saman nefjum og velta fyrir sér tilverunni. Mannlífið er þeim talsvert hugleikið og þeir sjá margskonar samsvörun milli manna og dýra.
Heyrðu félagi, hefurðu fylgst með Morgunblaðinu frá því fyrir og eftir kosningarnar?
Nei, kannski ekki nógu vel til þess að ég geti haft eitthvað sem máli skiptir eftir, en þú?
Jú, jú, blessaður vertu, nú eru þeir orðnir svo róttækir að gamli Þjóðviljinn sem var, er sem hreinn hégómi í þeim samanburði.
Rétt hjá þér og vilja allt bæta, betra og laga, er það ekki?
Jú, nú má t.d. ekki taka við peningum úr ríkissjóði nema vera til þess sérstaklega skráður, veginn og réttmætur metinn.
Rétt er það og batnandi mönnum er best að lifa er það ekki?
Jú, jú og nú skal allt vera rétt gert, en ég hef áhyggjur af einu.
Hvað er það gamli, góði vinur? Þú ert ekki vanur að láta áhyggjurnar þjaka þig, hvað er að?
Það er þetta með vináttuna sem ég er að hugsa um þ.e.a.s. af hverju eru bestu vinir allt í einu orðnir verstu vinir og öfugt?
Hvað áttu við með því?
Nú eru Bandaríkjamenn ekki lengur vinir okkar og það þykir mér dálítið leitt.
Blessaður vertu ekki að láta það þjaka þig og þyngja hugann, Úkraínar eru komnir í staðinn og þeir eru miklu betri!
Er það af því að þeir eru í stríði við Rússa?
Já, þannig er það nú, að maður skiptir um föt þegar hentar.
En vinir eru ekki föt!
Rétt hjá þér, þeir eru ekki föt en sé maður sjálfstæðis, þá skiptir maður um vini til að vera ferskur.
Er það eins með hina flokkana?
Já, já, þú sérð t.d. Samfylkinguna, hún er núna komin í lið með Úkraínum og nýnasistunum þar og kann sér ekki læti og það svo, að gamli utanríkisráðherrann er sem hreinræktaður kommi í þeim samanburði.
Satt segirðu, hún er skrýtin tík þessi pólitík!
3.3.2025 | 11:26
Samskipti þjóða og manna
Rússar hafa farið fram á að opnað verði að nýju fyrir beint flug milli Rússlands og Bandaríkjanna.
Frá þessu er sagt á vef CNN og svo virðist sem að óskin sé sett fram í beinu framhaldi af sneypuför Zelensky á fund með forseta Bandaríkjanna.
Hvort það er þannig verður ekki fullyrt af ritara en tímasetningin gæti bent til þess.
Flestum mun vera kunnugt hvernig þeim gekk að ræða málin á fundi sem fram fór fyrir stuttu, þar sem Trump skammaði Zelensky fyrir óraunsæi og heimtufrekju.
Sá veldur miklu sem upphafinu veldur, segir í íslensku máltæki en eins og kunnugt er þá er sannleikurinn afstæður og því er því hafnað af þeim sem styðja úkraínsk ,,stjórnvöld", að þau eigi nokkra sök á því hvernig komið er og því ástandi sem við fylgjumst með í fréttum.
Þó eru þeir til sem muna eftir viðvörunum Rússa sem birtust í formi vopnaskaks við ,,landamærin" milli ríkjanna og við munum líka að enginn friður ríkti í sjálfstjórnarhéruðunum eins og samið hafði verið um.
Það er í þessu eins og fleiru, að hver upphafinu veldur getur verið valkvætt og þar með líka í þessu tilfelli, hver ber ábyrgð á átökunum milli þjóðanna.
Við munum hollenska farþegaþotu sem skotin var niður af varnarliðum í Donbass fyrir herfileg mistök manna sem ekki kunnu með loftvarnarbúnað að fara.
Munum líka eftir fjöldagröfum sem árásarliðar frá Úkraínu höfðu grafið til að hylja óhæfuverk og líka óhugarlegar misþyrmingar á rússneskum hermönnum sem fengið höfðu það hlutverk að æða inn í Úkraínu í að því sem virðist hafa verið algjörlega vanhugsaður gjörningur.
Misþyrmingarnar enduðu með drápum en upptaka birtist á netmiðlum, þar sem fram kom hvernig staðið var að drápunum en eins og kunnugt er þá þykir það ekki boðlegt að myrða handtekna hermenn sem eru einungis að gera það sem þeim hefur verið skipað að gera.
Endalaust er hægt að þusa um þessa hluti en ef það reynist svo að forseta Bandaríkjanna takist að stöðva átökin, þá er það af hinu góða.
Þar er hins vegar við ramman reip að draga. því vilji er ekki fyrir að friður komist á og ófriðurinn er studdur dyggilega af stjórnvöldum í vestur- Evrópu og þar á meðal á Íslandi, þar sem ný ríkisstjórn eys af auknum krafti peningum úr ríkissjóði í stríðsrekstur Úkraína.
Ritari vonar að Trump nái því að trompa þetta lið og koma á friði, friði sem augljóslega verður ekki komið á með því að skaka kjarnorkuvopn framan í ,,andstæðinginn" sem eitt sinn þótti góður bandamaður þegar ,,vinirnir" vildu hreinsa upp auðlind hinnar litlu þjóðar norður í Atlantshafi.
Þá var gott að leita til Sovétríkjanna eftir stuðningi og viðskiptasamböndum og þeir sem fyrir því stóðu voru Sjálfstæðismenn!
2.3.2025 | 09:40
Fundurinn og eftirköstin
Þeir komu saman til spjalls og ráðagerða í Washington, Trump og Zelensky og af því er orðinn mikill hvellur, sem er til umræðu í ýmsum miðlum og þ.á.m. á BBC, fyrir nú utan það, að íslenskir ráðherrar hafa séð ástæðu til að eyða íslenskum milljörðum í hergögn.
Umfjöllun BBC fylgir myndin hér að ofan og eins og sjá má eru karlarnir ekki alveg á eitt sáttir.
Trump segist ekki vilja stefna heimsfriðnum í hættu en Zelensky segir þjóð sína vera að berjast fyrir lífi sínu og sjálfstæði.
Gera má ráð fyrir að sannleikurinn liggi einhverstaðar þarna á milli og úr því þarf að vinna, til að úr verði friður, í stað þess að hætta á víðtækari átök.
Gera má ráð fyrir að innst inni sé vilji fyrir friði hjá hinum úkraínska forseta en við vitum það ekki með vissu, hann hefur ekki talað þannig og ekki er víst, að honum leyfist að tala þannig.
Forseti Úkraínu hefur sitt ,,bakland eins og það er kallað og í því baklandi eru ekki allir einlægir friðarsinnar og því verður forsetinn að haga orðum sínum í samræmi við þann veruleika.
Hvað sem segja má um skemmtikraftinn fyrrverandi, þá verður að viðurkenna að honum hefur gengið ágætlega að fá á sitt band fjöldann allan af vestrænum stjórnmálamönnum, álitsgjöfum og almenningi.
Við sjáum stundum fréttaflutning ýmislegt sem ekki stenst skoðun, fullyrðingar sem ekki standast o.s.frv. og flest er þetta sett fram á þann hátt, að Úkraína sé að berjast fyrir frelsi sínu en það er með frelsið eins og svo margt annað að það er teygjanlegt hugtak.
Samkvæmt því sem ritari veit best er verið að berjast um svæði sem kallað er Donbas og inniheldur Lughansk og Donesk.
Um það mun hafa verið samið árið 2014, að þessi svæði væru svokölluð ,,sjálfstjórnarsvæði, sem ekki væru undir stjórn Úkraínu né Rússlands.
Það gekk misjafnlega eins og mörgum er kunnugt og ástæðan var ágengni úkraínskra manna inn á svæðið, manna sem frömdu þar ýmsa glæpi og jafnvel fjöldamorð sé tekið mið af því sem fundist hefur þar grafið í jörðu.
Maður nokkur sem ritari þekkir vel, hafði það eftir fyrrverandi tengdaföður sínum sem bjó austur þar, að hann vonaði það heitast að Rússar kláruðu dæmið fljótt og vel, þegar hann varð var við að þeir voru búnir að missa þolinmæðina og voru komnir inn á svæðið með her sinn.
Hvað sem þessu líður skulum við öll vona að friður komist á; Rússar eru búnir að setja fram sínar kröfur fyrir friði og þær eru einfaldlega að svæðið fái frið fyrir Úkraínum Því er spurt:
Hvers vegna er ekki hægt að ræða frið á þeim forsendum?
1.3.2025 | 13:52
Upphaf enn meiri hörmunga?
BBC segir frá niðurstöðu rannsókna á upphafi þess sem við könnumst við sem stríð Ísraels á Gaza.
Ekki sá ritari að undirliggjandi ástæður þess mikla haturs sem ríkir milli Araba og Ísraels hefði verið skoðað í þessu samhengi en það má rekja langt aftur í sögulegu tilliti.
Ísrael var ,,vakið upp" eftir heimstyrjöldina síðari eftir að mönnum varð ljóst, hvað hafði gerst í Þýskalandi og víðar undir stjórn og með hernaði Nasista.
Heimsbyggðin var í losti eftir að dregið hafði verið fram í dagsljósið hvernig Þjóðverjar og dindilmenni þeirra höfðu hegðað sér á stríðstímanum.
Um þetta má fæðast eftir ýmsum leiðum og t.d. er bókin ,,Ég lifi" þar sem sögð er saga Martin Grey sem er ágæt heimild, þó hún sé ekki nema einn nagli ef svo má segja, í sögu sem aldrei má gleymast.
Það sem vakti athygli ritara þegar hann las sögu Martins og það sem kom honum einna mest á óvart, var hve illa hann bar úkraínskum handbendum Nasista söguna en þar fram kom, að þeir voru jafnvel enn verri en hinir þýsku nasistar sem yfir þá voru settir, t.d í fangabúðunum.
Stríðið milli Rússa og Úkraína að undanförnu hefur vakið ýmislegt upp og gera má ráð fyrir að Rússar muni söguna.
Rússar gleyma ekki því sem gerðist þegar Þjóðverjar og handbendi þeirra og þar á meðal voru Úkraínar réðust inn í Sovétríkin og vísa má til stríðsminjasafnsins í Pétursborg sem dæmi um hvernig sögunni og minningunum er haldið til haga.
Það var hljóður hópur sem skoðaði safnið ásamt ritara fyrir nokkrum árum og auðfundið var að mönnum var brugðið við að virða fyrir sér raunveruleikann.
Íbúar borgarinnar þurftu að líða ómælanlegar hörmungar af hálfu nasista í umsátrinu langa en sögunni tókst að bjarga sem betur fer, þó svo virðist sem nóg sé til að fólki sem sé tilbúið til að gleyma og jafnvel leggur sig fram um að gleyma.
Og enn er barist og sér ekki fyrir endann á og þar eru m.a. íslenskir fjármunir látnir streyma til stuðnings þeim öflum sem vilja halda ófriðnum við og skiptir þá engu máli þó búið sé að skipta um ríkisstjórn í landinu okkar góða og tiltölulega friðsamlega, þó það hafi ekki alltaf verið svo í sögulegu tilliti.
Fyrrverandi ríkisstjórn með vinstrigrænan forsætisráðherra og ,,grænan" utanríkisráðherra, ruddi slóðina fyrir íslenskan stuðning við ,,heiðursmanna" samfélagið sem ,,stjórnar" Úkraínu.
Við spyrjum hvort til standi að eyða aflafé lítillar þjóðar í fjármögnun stríðsátaka víðar um heiminn?
Það er af nógu að taka, standi vilji íslenskra stjórnmálamanna til þess að styðja og hjálpa til við rekstur drápsliða hverskonar og sé vilji til, geta þeir flengst vítt um heiminn til að sanna ágæti sitt.
16.2.2025 | 07:37
,,Allt er það vont og verra en verst", sagði karlinn
Svo virðist sem lítið hafi breyst og við séum á svipuðum slóðum og áður var en maðurinn sem hér var vitnað til, er ekki lengur ofar moldu og þarf því væntanlega ekki lengur að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í alþjóðamálunum.
Þar er fyrst til að taka, að ,,vinirnir" tveir sem við sjáum hér að ofan eru ekki vinir í raun og við höfum séð mörg dæmi þar um.
Kínverjar eru með seiglu sinni að skjóta Bandaríkjunum ref fyrir rass á mörgum sviðum og bandarískir ráðamenn, vaxa ekki af stolti yfir seiglu sinni og hæfni vísindamanna sinna, heldur hafa áhyggjur af fjandvinum sínum í Asíu.
Það hefur löngum verið svo að Bandaríkin hafa viljað ríkja og drottna yfir heimsbyggðinni en það hefur tekist misjafnlega hjá þeim að ná því fram.
Það er Panamaskurðurinn og meint útþensla Kínverja á því svæði, sem er að trufla, ergja og pirra hina vestrænu vini okkar þessa dagana, vikurnar og mánuðina.
Það eru ekki lengur fljúgandi furðuhlutir sem eru vandamálið og vel getur verið, að það sé vegna þess að Kínverjar hafi orðið betra vald á veðurbelgjum sínum!
Biden lét skjóta slíkar blöðrur niður og þegar þær voru horfnar af himni tók annað og ekki betra við, því bandarísk ungmenni léku sér með dróna og það var, eða gat verið kínversk hætta!
Trump ætlar að stilla til friðar í Úkraínu og mun vafalaust gera, því eins og við vitum standa menn alltaf við kosningaloforð sín en þegar hann verður búinn að því, þarf hann að snúa sér að öðru.
Það hefur nefnilega komið í ljós að Putin hefur tekið upp bandaríska siði, þ.e. útþenslustefnu og vill koma sér upp herstöð í Súdan.
Hvernig honum hefur dottið þessi firra í hug er ekki fyllilega vitað en við gerum ráð fyrir að útvaldir kremlologar finni út úr þessu en vel getur verið, að Putin sé að stefna að því að leggja undir sig heiminn að bandarískum hætti og þeir ættu því að kannast við einkennin.
Þegar svona er komið í heimspólitíkinni er komið að því að íslenskar utanríkisfígúrur taki höndum saman (enda voru þær einu sinni í sama flokki) og búi til íslenska utanríkispólitík sem miði að því að breyta landinu okkar góða í heimsveldi.
Þær gætu t.d. fengið vin sinn Zelensky í félag við sig og í til þess gert uppistand, sem öllu öðru yrði betra og þá myndi Eyjólfur þ.e. Zelensky, hressast kætast og eflast.
Það hefur sýnt sig að þegar Mörlandar taka upp á arma sína fólk sem líður mátulega vel heima hjá sér og er t.d. þjakað af hlandspennu, þá jafnar það sig snarlega, samanber rússnesku dömurnar sem K.K.R.G. flutti inn en sem þornuðu snarlega upp eftir hingaðkomu sína.
Við getum svo sannarlega látið gott af okkur leiða!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2025 | 21:47
Vitskert veröld...?
Við lifum á undarlegum tímum þar sem því er líkast, sem vitstola menn ráði ríkjum. Setninguna hér á undan er því miður hægt að yfirfæra til ýmsra tíma í mannkynssögunni en það er eitthvað í því sem er að gerast núna sem keyrir um þverbak og gerir bloggara næstum orðlausan. Yfir eitt slíkt dæmi er farið í nokkuð langri grein í miðlinum CNN.COM þar sem farið er yfir stöðu mála gagnvart fólkinu, sem hrakið hefur verið af landi sínu allt frá árinu 1948.
Óreiðukenndur fréttaflutningur hefur borist okkur til eyrna og fyrir augu og staða mála er sú, að framið hefur verið þjóðarmorð á íbúum í Gaza og það er forseti ,,lýðræðisríkisins" Bandaríkjanna sem grípur boltann á lofti og lýsir því yfir, að halda skuli eyðingunni áfram og breyta landinu í einhverskonar sólarströnd fyrir ríkt vesturlandafólk.
Það fólk á samkvæmt mati þess ágæta manns, að njóta ávaxtannna af yfirgangi Ísraels með því að liggja þar í makindum og sóla sig á ströndinni, dreypandi á ljúfum drykkjum og veltandi sér í leti.
Íbúarnir sem þar eru, eiga einfaldlega að fara burtu og koma sér annað og ef einhver hefur haldið að forsetinn sé að bjóða því til Bandaríkjanna, þá veður sá í villu, því höfðingsskapurinn nær ekki svo langt, það eru aðrir sem eiga að sitja uppi með vandann.
Svo uppsker hver sem hann sáir, segir í íslensku orðtaki og Ísraelar eru búnir að sá hatri af miklum móð að undanförnu og svo er að sjá sem þeir séu ekki mjög móðir orðnir, enda vel studdir af gyðingaríkinu stóra og öfluga í Ameríku.
Það er einmitt það ríki, sem ætlar að breyta auðninni sem nú er þakin rústum, í sólarströnd og við gerum ráð fyrir að forsetinn trompaði, hugsi sér að vígja herlegheitin þegar búið er að hreinsa til og byggja upp að nýju.
Það er ekki ofsagt að veröldin sé skrítin þessa dagana.
Trump tók við af manni sem ráfaði um af veikum mætti og var augljóslega orðinn hrumur og lúinn.
Fram fóru kosningar og enginn álitlegur kostur blasti við kjósendum til að kjósa í kosningunum, en ef til vill í von um að Trump stæði við stóru orðin og kæmi á friði í stríði vesturlanda við Rússa, vann hann kosningarnar.
Lítið hefur gerst í því máli a.m.k. enn sem komið er.
Við bíðum og vonum að Eyjólfur hressist og að Trump hinn trompaði, snúi sé að því, að gera það góða sem hann lofaði, varðandi það að stilla til friðar milli fyrrnefndra landa og láti af því, að upplýsa okkur um aðrar undarlegar draumfarir sínar.
,,Ætli ekki sé hægt að fá pillur við þessu", sagði aldraður maður við ritara og fleiri, þegar honum blöskraði á öldinni sem leið.
Miklar framfarir hafa orðið í lyfjagerð síðan þá og ef til vill getur Trump fengið eitthvað við þessu!