Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Varanleg lausn?

Í vefriti rekumst við á umfjöllun um hugmyndir um hvernig ljúka megi styrjöldinni sem er milli Rússlands og Úkraínu.

Forseti Bandaríkjanna hefur haft ýmislegt á prjónunum varðandi átökin og haft uppi stórar yfirlýsingar um hvernig hann myndi koma á friði austur þar.

Hægt hefur gengið í því efni en við höldum í vonina um að hinn trompaði forseti nái sínu fram í þessu og að úr því verði friður.

Stjórnvöldum í Úkraínu líst mátulega vel á þessar hugmyndir forsetans og fram kemur í miðli sem ritari þekkir lítið, að því er haldið fram að hugmyndir séu uppi um að Bandaríkjamenn taki yfir rekstur kjarnorkuveranna sem eru innan Úkraínu.

Í fyrrnefndum miðli, vefritinu Remix, sem vitnað er til í grein Þjóðólfs er sagt frá hugmyndum Bandaríkjamanna um yfirtöku kjarnorkuveranna í Úkraínu.

Skjámynd 2025-04-05 105054Allt er þetta áhugavert og í hugann kemur það sem gengið hefur á, varðandi verið í Zaporizhia en eins og kunnugt er, þá hefur ýmislegt verið þar um að vera og ritara er minnistætt þegar sagt var frá því í fréttum að kjarnorkuverið lægi undir sprengjuárásum Úkraína.

Sagt var síðan frá því að eftirlitsaðilar frá Sameinuðu þjóðunum hefðu komið til eftirlits á aðstæðum í og við verið og að þeim hefði blöskrað að sjá skemmdirnar eftir sprengjur sem Úkraínar höfðu varpað á varnarhjúp þess.

Hjúpurinn hafði þrátt fyrir allt þolað álagið en vandamálið á þeim tíma var að Úkraínar gátu ekki hugsað sér að þiggja orku frá verinu þó svo hún væri gefin en ekki seld.

Nauðsynlegt var að losna við orku frá verinu, til að kjarnaofnarnir ofhitnuðu ekki.

Úkraínuleiðtogar gátu ekki hugsað sér að notast við orku sem menguð væri af rússnesku þjónustuliði og því fór svo, að Rússar fundu leið til að draga úr framleiðslunni án aðstoðar þeirra úkraínsku, enda ýmsu vanir í þeirri tækni sem þarna er notuð.

Í frásögninni, sem vitnað er til hér í upphafi, er sagt frá því að Bandaríkjamenn vilji yfirtaka rekstur kjarnorkuveranna í Úkraínu og eflaust er það ekki fráleit lausn, þó spurningar vakni um hversu vel þeir séu að sér um rússneska hönnun slíkra vera.

Ritari þessa pistils er ekki fær um að dæma í því efni en finnst þó líklegt að rússneskir tæknimenn þekki betur til búnaðar sem er rússneskur að uppruna, en þeir sem bandarískir eru.

Báðar þjóðirnar hafa orðið fyrir óhöppum í rekstri kjarnorkuvera sinna. Til dæmis á Þriggjamílna eyju og í Chernobyl. 

Rétt er samt að bæta því við, að þegar óhappið mikla varð í Chernobyl kjarnorkuverinu, þá var það vegna afskipta þeirra sem vissu frekar lítið um kjarnorkuver og því fór sem fór.

Mannleg mistök var það kallað og sýnir að menn eiga ekki að vera að skipta sér af því sem þeir þekkja ekki nægjanlega til og það er væntanlega hægt að gera athuganir á virkni neyðarrafstöðva, án þess að stefna rekstri kjarnorkuveranna í hættu.


Til heiðurs þeim sem björguðu heiminum

Menn ætla að koma saman og minnast þeirra sem fórnuðu sér fyrir þá sem síðan nutu sigursins.

Það er ekki laust við að farið sé að fenna yfir í hugum sumra en þó kann það að vera á misskilningi byggt.

Skjámynd 2025-04-05 063019Hvað sem því líður þá ætla forystumenn sumra þeirra þjóða sem sigruðu nasismann og fasismann, að minnast sigursins. Frá því er sagt á Russya Today og víst er að oft hefur verið komið saman af minna tilefni.

Xi Jinping mun mæta og gera má ráð fyrir að það geri fleiri.

Skemmst er frá því að segja að Rússar (Sovétríkin), færðu einhverjar mestu fórnir sem um getur til að hrinda af sér innrásarher þýskra nasista og fylgiríkja þeirra og það tókst og við megum vera þakklát fyrir það.

En hvað situr eftir og hvernig er staðan núna? Hún er í stuttu máli skelfileg, þjóðin sem nasistar lögðu mikla áherslu á að útrýma er í hryllilegu stríði á Gasa og víðar og stefnan er að flæma þjóðina sem fyrir er á landsvæðinu á brott og svo er að sjá sem forseti Bandaríkjanna styðji þau áform.

Þeim áformum er fylgt eftir af miklum krafti og eyðileggingin á Gasa er slík að flestum hryllir við og það svo að teikn eru um, að yfirvöldum í Bandaríkjunum sé farið að þykja nóg um.

Við höfum lesið um og séð myndir frá Dresden, Hirosima, Nagasaki, Vietnam, Írak og fleiri stöðum og flestum finnst sem löngu sé komið nóg.

Það er sem sífellt sé hægt að finna siðlaus stjórnvöld sem einskis svífast og sem finnst tilgangurinn helga meðalið.

Eitt sinn vorum við í hópi ,,hinna viljugu þjóða" og sú skömm hefur aldrei og verður trúlega aldrei, hreinsuð af okkur.

Við tókum ekki sérlega vel á móti landflótta fólki sem til okkar leitaði í seinni heimstyrjöldinni.

Tíminn leiddi hins vegar í ljós að margt af því fólki skilaði miklu til þjóðarinnar, sem var rétt að byrja að fóta sig í þeirri sjálfstæðu tilveru sem var rétt handan hornsins.


Skotin og urðuð með jarðýtum

Þau voru að reyna að hjálpa, voru í búningum sjúkraliða, óvopnuð og ógnuðu engum en voru skotin og urðuð eins og um úrgang væri að ræða.

Frá þessu er sagt í The Guardian og frásögnin er ekki fögur.

Skjámynd 2025-04-01 062611Miðillinn segir frá því að 15 palestínskir björgunarsveitamenn hafi verið drepnir af Ísraelum og hafa frásögnina eftir fulltrúum frá Sameinuðu Þjóðunum.

Fréttin er ekki fyrir viðkvæma en sagt er frá því að hjálparsveitafólkið hafi verið að sinna sínum störfum, þegar það var skotið og líkunum síðan komið í holu sem búin var til með jarðýtu og að því loknu jarðvegi ýtt yfir.

Skjámynd 2025-04-01 062646Eða eins og segir í umfjöllun miðilsins í vélrænni þýðingu:

,,Að sögn mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (Ocha) voru palestínskir Rauði hálfmánar og almannavarnastarfsmenn í leiðangri til að bjarga samstarfsmönnum sem skotið hafði verið á fyrr um daginn, þegar greinilega merkt ökutæki þeirra urðu fyrir mikilli skothríð Ísraela í Tel al-Sultan-hverfinu í Rafah- borg. Embættismaður Rauða Skjámynd 2025-04-01 062717hálfmánans á Gaza sagði að vísbendingar væru um að að minnsta kosti einn hefði verið handtekinn og drepinn, þar sem lík eins hinna látnu hefði fundist með hendur hans bundnar."

Það verður seint á mannskepnuna logið og dapurlegt er að hugsa til þess að þjóðin sem þurfti að þola einhverjar mestu hörmungar sem um getur í heimsstyrjöldinni síðari, sé síðan gerandi í að því er best verður séð, útrýmingu þjóðar sem búið hefur á svæðinu um aldir.

Ekki er það til uppörvunar að á bakvið er einn helsti fulltrúi lýðræðis, sem svo telur sig vera.

Og eftir að hafa breytt búsvæði Palestínumanna í rústum þakta auðn, þá leggur forseti þess ,,lýðræðisríkis" til að palestínska þjóðin verði flutt burt af svæðinu og eitthvað annað.

Nema að sjálfsögðu ekki til Bandaríkjanna, heldur til ríkjanna sem eru í grennd við Ísrael!


Myndirnar eru úr frásögn The Guardian.


Reiður maður stjórnar?

Í Hvíta húsinu í Washington situr ,,voða reiður“ maður og enginn veit hvað honum dettur í hug að segja eða gera næst.

Frá þeim reiða er sagt á BBC.COM og við höfum getað fylgst með gönuhlaupum hans víða á yfirlýsingavellinum um nokkurn tíma.

Skjámynd 2025-03-31 070205Klippa úr BBC

Hann er reiður út í Zelensky og nú er hann reiður út í Putin og eins og áður sagði, höfum við geta fylgst með reiðiköstum hans í garð ýmissa minni(?) spámanna um nokkurt skeið.

Og hann er fullur af græðgi líka: Landagræðgi og auðlindagræðgi og áreiðanlega allskyns annarri græðgi einnig.

Skjámynd 2025-03-31 070604Klippa úr Morgunblaði dagsins 31/3/2025

Bandaríkjamenn kusu sér forseta fyrir nokkrum mánuðum og uppskeran er líkt og spáð var og því situr heimsbyggðin uppi með stjórnmálatrúð sem enginn veit með vissu hvert er að fara né hvaðan er að koma, ef hann veit það þá sjálfur.

Kamella tapaði og við vitum ekki einu sinni hvort það var gott eða vont!

Ísland er með varnarsamning við Bandaríkin og þó ekki væri nema vegna þess, þá skiptir það okkur máli hver fer með völdin í því ágæta ríkjasambandi.

Á undan Trump var það Biden sem vissi sjálfur lítið orðið um hvort hann var að koma eða fara, en honum tókst þó að losna við hundinn!

Á okkar ísa kalda landi hefur líka verið ýmislegt að gerast í pólitíkinni og svo dæmi sé tekið, var skipt um ríkisstjórn eftir að sú sem setið hafði við lítinn orðstír, flosnaði upp og sofnaði svefni sínum.

Svo er að sjá sem Sjálfstæðismenn séu að byrja að jafna sig á niðurstöðu kosninganna, enda væri það sérstakt ef svo gróinn og reynslumikill flokkur gæti ekki komist yfir lýðræðislega niðurstöðu kosninga!

Við sjáum merki þess í Morgunblaði dagsins, að það sé að komast upp úr hjólfarinu sem það hefur skrönglast í síðan úrslitin og hin nýja stjórnarmyndun hratt þeim fram af brúninni.

Að Eyjólfur hressist er ágætt og ekki mun af því veita, að á íslenskum fjölmiðlamarkaði sé einn miðill sem sé sæmilega traustur og laus við fimbulfamb af bloggara- tagi og þ.á.m. þess sem þetta párar!


Leitað að friði, eða er verið að skoða heiminn?

Á miðlinum Russya Today, sem birtur er á ensku, er sagt frá stöðu mála og farið lítillega yfir það sem verið hefur að gerast af hálfu forseta Bandaríkjanna til að koma á friði milli Rússlands og Úkraínu.

Það ætti að vera hverjum manni ljóst, að þegar Rússar vilja frið og Bandaríkjamenn vilja það sama, þá endist ófriðaröflum ekki lengi örendið í baráttunni fyrir ófriði.

En að öðru, Silfrið á Rúv var á dagskrá nýlega þar sem saman komu til skrafs og ráðagerða fulltrúar Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Pírata, en á undan þættinum var rætt við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra.

Það segir sína sögu um stöðuna í íslenskri pólitík, að ekki þótti taka því að hafa fulltrúa Framsóknar við borðið, enda flokkurinn búinn að klúðra sínum málum eftirminnilega svo sem sást af útkomunni í síðustu alþingiskosningum.

Svo Viðreisn sé ekki gleymt, þá má minna á, að í Heimildinni er viðtal við utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar en eins og kunnugt er þá er hún í miklum hervæðingarhug.

Fyrrverandi Framsóknarmaður og núverandi formaður Miðflokksins taldi sig flest vita, greip í hönd sessunautar til að koma honum (sem reyndar var hún!), í skilning um að nú þyrfti hann að koma sínum skoðunum að og það strax!

Samræðurnar voru að öðru leiti málefnalegar.

Því má svo við þetta bæta, að á BBC er frásögn af heimsókn Putin og félaga til Murmansk, frásögn sem vert er að lesa og hugleiða.


Að tapa getur verið erfitt

Það var kosið til Alþingis og landslagið breyttist og við það þarf þjóðin að búa og pólitíkusarnir líka.

Við höfum séð teikn um, að það sé a.m.k. sumum erfitt.

Skjámynd 2025-03-23 061335Teiknari Morgunblaðsins tekur ýmislegt fyrir og hittir oft naglann á höfuðið.

Eitt og annað vekur athygli þessa dagana, bæði innlent og erlent en það innlenda hefur gripið ritara einna mest. 

Kona sem var ráðherra varð skotinn í strák fyrir um hálfum fjórða áratug og eins og flestir vita hefur fátt annað verið meira í fréttum en það, eftir að málið opinberaðist. 

Fátt er eðlilegra en að ástin grípi ungmennin og það er í raun ekki umræðuvert. 

Ef það gerðist ekki, hvernig færi þá? 

Knúsið og huggulegheitin urðu til þess að til varð barn sem vonandi hefur ekki beðið skaða af allri þeirri umræðu sem orðin er. 

Að ástin hlaupi í unglingana ætti ekki að vera fréttaefni, en það væri sannarlega fréttaefni ef það gerðist ekki! 

Hér verður ekki eytt fleiri orðum að þessu máli en við skulum vona að þeir sem lent hafa á milli tannanna á fólki beri ekki skaða af.

,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar” og við skulum hafa það í huga og vona að þeir sem til umræðu hafa verið, hafi ekki beðið tjón á sálu sinni. 

Vonum líka að hinir föllnu og særðu eftir síðustu kosningar til Alþingis fara að jafna sig, líta í eigin barm og finni að lokum skýringar á því hvers vegna kosningarnar fóru svo sem raun varð á. 

Það var einfaldlega þannig að meirihluti þjóðarinnar var búinn að fá nóg af stjórnleysi og óreiðu og því var það, að kjósendur vörðu atkvæðum sínum svo sem sást eftir braskennda talningu atkvæða. 

Að rjúka til og slíta stjórnarsamstarfi, sem ekkert samstarf var - utan frá séð - var rétt ákvörðun sem reyndar hefði þurft að taka miklu fyrr. 

Við vitum hvað kemur út  úr því að leggja saman tvær jafnar tölur þar sem eru önnur er plús og hin er mínus. 

Ríkisstjórn sem ekki er annað en núll, á að pakka saman og víkja og leyfa þjóðinni að velja eitthvað nýtt. 

Þjóðin gerði það og framsóknar- íhaldið sem sumir kalla svo, þurfti að taka pokann sinn og hverfa til innhverfrar íhugunar. 

Þau er ekki enn komin þangað eða þaðan en það kemur vonandi að því, því það er engum hollt að sökkva sér í afneitun og leiðindi líkt  og við höfum orðið vitni að síðan þjóðin kvað upp úrskurð sinn. 

Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að endurnýja forustu sína en hinn hægvirki Framsóknarflokkur, tvístígur enn og japlar á niðurstöðunni og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.

Annar er vinstra megin og hinn hægra megin og það hefur alltaf vafist fyrir þeim.

Sem eru reyndar alls ekki ný tíðindi!


Horfum hærra!

Eftir ársdvöl í þyngdarleysi eru þau komin aftur til Jarðar og í ljós kemur að breyting hefur orðið á líkömum þeirra.

Breyting, sem betur fer mun ganga til baka, eftir því sem talið er.

Sjónin er ekki eins og hún var, andlitin eru þrútin, fæturnir hafa lengst og mjókkað og þau hafa stækkað þ.e.a.s. hækkað!

Læknar eru við öllu búnir og það verður tekið vel á móti þeim en hvers vegna tók þetta svona langan tíma?

Eru samningarnir við Rússa um aðstoð varðandi áhafnarskipti í geimstöðinni runnir út?

Skjámynd 2025-03-18 105442Við vitum fátt um það og vel getur verið að svo sé en fundum þó mynd af því þegar verið er að taka á móti geimförum sem fluttir voru til Jarðar með Soyuz geimfari síðla árs 2016.

Það gerðist áður en menn fundu það út að Rússar væru ómögulegir og að engu hafandi og ekki einu sinni nothæfir til að bjarga fólki!

Þetta eru þjóðirnar sem við sum okkar vonuðum, að myndu starfa saman að geimrannsóknum.

Í stað þess að það yrði gert, rann upp Biden- tíminn með heimilishundinn ómögulega, endalausri gleymsku og misminni, fyrir utan stríðsrekstur af ýmsu tagi.

Að ógleymdu stríði við fljúgandi diska og loftbelgi ýmiskonar.

Ofsagt er að halda því fram, að skipt hafi verið á hvuttanum og fyrrum skemmtikrafti úr austri en lætur samt nærri.

Allt er gott sem endar vel og nú eru þau blessunarlega komin til baka úr geimferðinni löngu og vonandi gengur betur næst.


Aðgát skal höfð í nærveru...

Myndin er úr Le Monde og textinn undir henni er eins og þýðingarvélin skilaði honum.

Skjámynd 2025-03-20 070511Vísað er í franska miðilinn Le Mond og í vélrænni þýðingu er fréttin svofelld, nema að hún er ítarlegri og lengri:

Franski rannsóknarráðherrann sagðist hafa „áhyggjur“ á miðvikudaginn eftir þessa ákvörðun bandarískra yfirvalda. CNRS rannsakandinn er sagður hafa gengist undir handahófskennda skoðun við komu hans [til USA], áður en leitað var í tölvu hans og síma.“

Þýðingarvélar eru orðnar það góðar að nú getum við lesið án verulegra vandræða hvaða miðla sem er, hvort sem þekking á tungumálinu er til staðar eða ekki.

Það er sem sagt af sem áður var þegar ritari, svo dæmi sé tekið, gerðist áskrifandi að bandarísku tímariti og glímdi svo við að stauta sig í gegnum greinar í því með aðstoð orðabókar, til viðbótar því sem hann hafði lært í ensku!

Gera má ráð fyrir að skilningurinn hafi ekki verið mikill og eflaust misskilningur talsverður; þetta var á tímum stríðsins í Vietnam og löngunin mikil til að sjá sem flest sjónarmið.

Þetta er sem sagt liðin tíð og gaman að sjá hve hin vélræna þýðing virkar vel.

Efni greinarinnar er að segja frá því að franskur vísindamaður ætlaði að heimsækja Bandaríkin.

Fögnuðurinn fyrir vestan varð ekki mikill, því hann hafði tjáð sig um trumpismann og muskismann og það má víst ekki í því ágæta landi!


Hver gerði hverjum hvað?

CNN.COM er á svipuðum stað og aðrir miðlar varðandi mögulegt friðarferli á átakasvæðunum milli Rússlands og Úkraínu. Í Heimildinni getum við lesið, að Trump telji fjölmiðla vera ólöglega þ.e.a.s. ef þeir segja ekki fréttir eins og honum finnst að þær eigi að vera og í Vísi er sagt frá því, að íslenskir sendiráðmenn í Moskvu hafi verið áréttir, í framhald af því hvernig komið var fram við sendiherra Rússa á Íslandi.

Skjámynd 2025-03-17 081616Það er sem sagt ýmislegt í fréttum þessa dagana og sumt er gamalt en annað nýtt eða nýlegt.

Vel getur verið að um áreiti hafi verið að ræða í Moskvu í framhaldi af framkomu íslenskra yfirvalda í garð sendiherra Rússa og segja má því, að þar hafi hitt ,,hundur hund", hafi svo verið.

Þegar Rússar brugðust við stöðugu ,,áreiti" Úkraína á sjálfstjórnarhéruðin milli landanna með innrás sem náði allar götur til Kív, sem við sáum síðan með ,,réttarhöldum", yfir m.a. ungum hermanni sem drepið hafði mann samkvæmt skipun og var svo aumur yfir verknaðinum að hann spurði konu mannsins:

,,heldurðu að þú getir nokkurntíma geta fyrirgefið mér"?

Hermaðurinn hefur væntanlega verið að gera það sem honum var skipað að gera eins og venja er að hermann geri og því er hér um að ræða enn eitt dæmið um þá ömurlegu villimennsku sem fylgir hernaði.

Þegar menn og þjóðir geta ekki leyst deilumál sín á milli með öðru en ofbeldi, þá verða afleiðingarnar, eins og við höfum margoft séð, tilgangslaus manndráp.

Þegar hingað er komið í hugleiðingum dagsins, þá leitar hugurinn til hermannanna sem króaðir eru af í Kúrsk.

Um hvað var samið varðandi þá? Gleymdust þeir í spjallinu í Saudi Arabiu?

Við spyrjum að gefnu tilefni, því Putin hefur spurt hins sama og því má vera ljóst að málefni þeirra þarf að leysa og það ætti að geta verið tiltölulega einfalt.

Það ætti að vera einfalt undir þessum kringumstæðum að afhenda vopn sín undir eftirliti hlutlausra fulltrúa; hermennirnir skilji þau eftir þar sem þeir eru og síðan verði skiptst á föngum, en þar gæti hnífurinn staðið í vorri kú eins og þar stendur, því hvernig á að ræða um fangaskipti þegar menn geta ekki rætt saman?

Það sem ætti að vera einfalt er ekki einfalt, nema fyrir þann sem er áhorfandi, stendur utan við og párar og óskar og vonar.

En það eru einmitt vonirnar sem sem hafa brostið að undanförnu.

Við getum endalaust rifist um hver gerði hverjum hvað og hver byrjaði, eins og krakkarnir segja.

Í þessu tilfelli eru það Sameinuðu þjóðirnar, sem ættu að grípa inn í, bera klæði á vopnin en í þessu tilfelli er það þess í stað, léttgeggjaður orðhákur á forsetastóli sem bendir á að keisarinn sé nakinn.

Sem tók við af forvera sínum, sem gat ekki einu sinni komið sé saman við besta vin mannsins, hundinn sinn og vísaði honum því á dyr!

Við tók furðugripur sem studdur er af öðrum furðugrip og saman stjórna þeir einu voldugasta ríki heimsins!

Það væri synd að segja að það sé bjart yfir í heimsmálunum!


Viðskipti milli Rússlands og Kína

Sagt er frá því á CNN.COM að viðskipti milli Rússlands og Kína hafi aukist til mikilla muna og að rússneskar vörur njóti mikilla vinsælda í Kína.

Skjámynd 2025-03-16 063406Rússneskar vörur þykja traustar og vandaðar samkvæmt því sem fram kemur í frásögninni og eftirspurnin er mikil.

Löndin er nágrannar og fátt er eðlilegra en að þau hafi með sér samstarf af ýmsu tagi og það gera þau en fyrir ritara, er það sem sagt er frá í greininni áhugavert.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að viðskipti milli Íslands og Rússlands - sem verið höfðu nokkur - féllu niður eftir að Rússar sprungu á limminu gagnvart Úkraínu.

Skjámynd 2025-03-16 063444Máltækið segir að svo megi brýna deigt járn að bíti og það var gert og eftir stóðu eyðilögð viðskiptasambönd sem búið var að eyða talsverðri vinnu og fé í að koma á.

Þar á meðal fór í súginn sala á heimild til framleiðslu á landbúnaðarafurð í Rússlandi þar sem viðskiptasamningi var sagt upp af hálfu hins íslenska framleiðslufyrirtækis.

Rússneskir framleiðendur létu sér það í léttu rúmi liggja og héldu framleiðslunni áfram eins og verið hafði en þurftu ekki lengur að borga hinum íslensku leyfisgjaldið.

Skjámynd 2025-03-16 063517Leyfið var dregið til baka eftir að búið var að kenna hvernig framleiða ætti afurðina og þar sem kunnáttan var orðin til staðar, þá þurfti ekki lengur neitt leyfi!

Og nú blómstra viðskipti milli Rússlands og Kína og þó það komi hinu íslenska viðskiptabrölti ekki neitt við, þá er áhugavert að sjá hvernig lönd geta unnið saman og það ekki síður, þegar ekki er tekið við fyrirskipunum frá stóra bróður aðal en ekki eðal.

Myndirnar eru úr grein CNN, en þar má sjá fleiri myndir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband