25.5.2025 | 21:32
Gæti hlutlaust svæði verið lausnin?
Samkvæmt því sem fram kemur í rússneska miðlinum Russya Today, vinna Rússar nú að því að koma upp hlutlausu belti milli Úkraínu og Rússlands, sem við vitum að er ekki hin endanlega lausn en samt skárri en engin.
Hugsum til þess að inni í þessum búningum eru menn á besta aldri sem skaðast geta á líkama og sál í þeirri ,,vinnu" sem þeir eru nauðugir viljugir að sinna.
Vitna Rússar til þess að það hafi verið gert áður s.s. á milli Norður og Suður Kóreu og víðar.
Spurning er hvort ekki megi líta svo á að þetta hafi verið reynt áður á þessu svæði, þó það hafi verið á talsvert annan hátt.
Donbas svæðið átti að vera hlutlaust en þó ekki, því það átti að vera svokallað ,,sjálfstjórnarsvæði", þ.e. svæði sem bæði Úkraína og Rússland myndu virða sem hlutlaus.
Það gekk ekki vel að fylgja því eftir að svo væri og oft brutust út bardagar milli manna frá Úkraínu sem fóru með ófriði, yfirgangi og þegar lengst gekk manndrápum á svæðinu.
Rússar reyndu að styðja sitt fólk og útveguðu því loftvarnarbúnað sömu gerðar og Tyrkir keyptu, en varnarliðar á Donbas svæðinu urðu til þess að skjóta niður farþegaþotu (hollenska ef rétt er munað), sem sannaði að þeir kunnu ekki að fara með búnaðinn.
Þetta var mikið hörmungarmál sem von var og ef rétt er munað, reyndu menn sem best þeir gátu, að koma sér undan ábyrgð af verknaðinum.
Rússar leggja til og vinna nú að því að koma á hlutlausu belti á milli landanna samkvæmt því sem segir í R.T. í sömu grein og vitnað var til hér í upphafi.
Hvort það verður lausnin er ekki gott að segja en vonandi fara menn að sjá til sólar í því ófriðarástandi sem þarna hefur verið um áratuga skeið.
Á sama tíma og þessi frásögn er í RT er greint frá því í The Guardian að miklar loftárásir hafi verið gerðar af Rússum á Úkraínu og tekið er fram í fréttinni að það sé á sama tíma og verið sé að skiptast á stríðsföngum, en eins og við munum var samið um veruleg skipti á föngum á fundinum umtalaða í Tyrklandi.
Fangaskipti eru reyndar ekki ný af nálinni í þessum átökum en vera kann að þau hafi legið niðri eftir að Úkraínar skutu niður fangaflutningavél sem var að koma með úkraínska stríðsfanga frá Rússlandi til Úkraínu.
Það er löngu kominn tími til að hætta þessu stríði, sem best af öllu væri að hefði aldrei byrjað, eins og við á um öll stríð.
En það er víst ekki mikil von til þess að mannskepnan læri að hegða sér í samskiptum hver við aðra, hvort heldur um er að ræða samskipti á milli þjóða eða einstaklinga, því svo er að sjá sem reynslan kenni okkur að það er auðveldara a deila en að koma sér saman.
23.5.2025 | 07:38
Stríð og trúmál
Lavrov utanríkisráðherra Rússlands ræddi um stöðu trúmála á tímum ófriðar á dögunum en eins og við vitum, þá er hægt að deila um trúmál eins og flest annað.
Hann lofaði því, að Rússar myndu ekki yfirgefa trúbræður sína í Úkraínu.
Ræðuna mun hann hafa flutt í rússneska utanríkisráðuneytinu s.l. þriðjudag og tileinkað hana þessu máli, þar sem hann fordæmdi Kív- verja fyrir að berjast gegn þeim sem tilheyrðu hinni úkraínsku rétttrúnaðarkirkju og sagði m.a.:
"Yfirvöld í Kænugarði hafa komið kirkjudeildinni á barm glötunar, kirkjur hennar eru haldlagðar, skemmdar og á þær ráðist, ásamt prestum og sóknarbörnum" og tilgreindi sérstaklega tilraunir Úkraínu til að ná stjórn á ,,Kiev Pechersk Lavra", sem hann sagði vera elsta klaustur landsins.
"Þessar aðgerðir eru framkvæmdar með samþykki og jafnvel stuðningi sumra Evrópulanda, þar sem draugar nýnasisma hafa skotið upp kollinum," sagði Lavrov. Og bætti við, að Rússar myndu ekki gleyma kirkjudeildinni fyrrnefndu og ekki heldur trúbræðrum sínum.
Á síðasta ári mun Zelensky hafa undirritað lög, sem heimila að bönnuð séu trúfélög tengd ríkisstjórnum, sem Kænugarður telur til "árásaraðila".
Zelensky mun hafa varið aðgerðirnar og haldið því fram að þær séu nauðsynlegar til að vernda ,,andlegt sjálfstæði" landsins í átökunum við Rússland!
Neðar verður tæplega komist og ritara rámar í gamlar fréttir af þessu.
Sameinuðu Þjóðirnar munu hafa lýst áhyggjum af stöðu trúfrelsis í Úkraínu, sérstaklega varðandi löggjöf, sem gerir þarlendum stjórnvöldum kleyft að beina spjótum sínum að kirkjudeildum.
Ljótt er ef satt er og stutt er í forneskjuna, ef trúmálin eru farin að ráða för!
22.5.2025 | 07:29
Stúlkan sem sækir vatnið
CNN segir frá því í grein með mörgum myndum og myndskeiðum, hvernig m.a. ung stúlka berst fyrir lífi sínu og sinna.
Hún er 12 ára og tókst að komast yfir vatn.
Hörmungunum á Gaza verður vart með orðum lýst en í þessari átakanlegu frásögn getum við færst nær því, að sjá og skilja veruleikann sem við fólkinu blasir.
Það vaknar að morgni og lifir(?) af daginn, við einhver þau ömurlegustu lífsskilyrði sem hægt er að hugsa sér.
Útrýmingarherferðin er hlífðarlaus og gengur út á að eyða byggðinni og flæma fólkið á brott og ef það tekst ekki að drepa það.
Karlar konur og börn, allt skal það á brott eða drepið til að Ísrael geti eignast landið og þeir eru ekki einir um þá hugmynd, því sjálfur forseti Bandaríkjanna stakk upp á henni, því honum sýndist sem svo, að hægt yrði að búa þarna til sælureit fyrir ríka og sólþyrsta.
Það er dálítið síðan hann stakk upp á þessu en ekkert bendir til þess, að hann hafi skipt um skoðun en hann er búinn að vera upptekinn í öðru eins og við vitum.
Ritari hvetur lesendur til að skoða frásögnina sem hægt er að nálgast á tenglinum sem er bæði hér og í upphafi þessara skrifa.
Við sjáum alla vega hvernig litla gyðingaríkið hrindir í framkvæmd hugmyndum húsbóndans í ríkinu stóra, ríka og volduga.
Og við munum að þar eru þeir og þær, sem segja frá því sem er að gerast og þökk sé öllu því fólki sem leggur sig í hættu til að heimurinn fái að vita hvað er að gerast, m.a. í boði bandarískra stjórnvalda.
20.5.2025 | 07:07
Hrunið og hrunmálin
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram og talað fyrir tillögu um að fram fari rannsókn á ,,hrunmálunum" og að til þess verði stofnuð sérstök nefnd.
Frá þessu er sagt á Vísi undir fyrirsögninni: Vill rannsóknarnefnd um rannsókn hrunmálanna, Guðrún Hafsteinsdóttir talaði fyrir málinu á Alþingi.
Þeir sem fylgst hafa með fréttum hafa tekið eftir því, að ýmislegt hefur verið að koma í ljós í þeim málum og sérstaka athygli hefur vakið, að fyrirbæri sem kallað er PPP stóð fyrir persónunjósnum.
Bókin ,,Hrunið" eftir Guðna Th. Jóhannesson fyrrverandi forseta er ágæt heimild um þau mál og fleira mætti tína til, en njósnamálið er nýlega upplýst og þarfnast sannarlega skoðunar af til þess bærum yfirvöldum.
Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera áhugasamur um að upplýst verði og kafað enn betur ofan í það sem gerðist í aðdraganda Hrunsins og eftirmála þess.
Óhætt er að segja að flest hafi brugðist sem brugðist gat í aðdraganda Hrunsins, hruninu sjálfu og eftirköstum þess en að því sögðu, þá brást sannarlega ekki allt.
Seðlabankinn brást og fjöldi ,,athafnamanna" fór út af sporinu þ.e.a.s. hafi þeir einhvertíma verið á því og brugðust sjálfum sér og öðrum og endalaust má deila um hvort hrunmálin hafi verið gerð endanlega upp.
Þegar heilt samfélag fer á ,,hausinn" þá hriktir í mörgu og margir þurftu að horfast í augu við sjálfa sig og aðra og spyrja sig þeirrar spurningar, hver þeirra ábyrgð væri.
Það gerðu sumir en ekki allir og segja má að þjóðin hafi komið ótrúlega vel standandi í lappirnar út úr þessum hremmingum.
Í þessum pistli verður ekki kveðið upp úr með hver eða hverjir hafi borið mesta ábyrgð, en víst er, að það voru æði margir sem fóru út að sporinu og það þó í háum ábyrgðarstöðum væru.
Að málið verði rannsakað enn frekar en búið er að gera verður eflaust ágætt, en einhvertíma kemur að því að komið er nóg og ætli ekki megi treysta því að sagnfræðingar nútíðar og framtíðar muni afgreiða málið svo að nægjanlegt teljist?
Við vitum að ráðamenn, viðskiptajöfrar og embættismenn ásamt fjölda annarra fór út af sporinu og sé vilji til að skoða það betur, þá er hægt að gera það með ,,hinu frjálsa framtaki", líkt og gert hefur verið og engin ástæða til að amast við því.
Persónunjósnir sem komið hafa fram fyrir sjónir almennings á síðustu vikum, eru enn einn dökkur blettur á þessari sögu og hann má sannarlega skoða betur og ef það er tilgangurinn með hugmynd Guðrúnar, þá hljóta flestir að taka undir að þau má megi taka til skoðunar.
19.5.2025 | 06:08
Hver er sannleikurinn?
Sannleikurinn er vandfundinn varðandi átökin milli Úkraínu og Rússlands nema hvað, að íslenska Rúvið hefur fyrir nokkru fundið sér hernaðarsérfræðing til björgunar í óreiðunni.
Mennirnir sem í raun ráða því hvernig málin þróast og hvernig þeim lýkur.
Hér eru þeir í íslenskri útgáfu Ívars teiknara Heimildarinnar og við sjáum að lítill ,,íslandsvinur er fremstur í þessum þriggja manna flokki og tökum eftir fingramerkjunum!
Hvort gagn verður af liðsaukanum (sem ekki er alveg nýr af nálinni) er ekki gott að segja; við höfum séð og heyrt hann fyrr í þessari atburðarrás og ekki er auðvelt að koma auga á að upplýsingin hafi aukist fyrir vikið.
Nóg er til af sérfræðingum af þessu tagi vítt um veröld alla og gott til þess að vita að litla Ísland búi nú að einum slíkum sér til halds og trausts, en ef til vill er það einungis litla Rúvið okkar sem byggist upp og eflist við liðsaukann.
Það sem við vitum á þessari stundu, samkvæmt því sem fram kemur í miðlum, er að fyrirskipað vopnahlé, sem átti að vara í 30 klukkustundir og var fyrirskipað af Rússum, virkaði ekki svo sem vonast var eftir.
Við þurfum ekki vangaveltur sérfræðinga til að segja okkur það sem flestir vita og ljóst er, að vopnahléið svokallaða hélt illa, en þó pínu eins og krakkarnir segja.
Fyrirmæli annars aðilans í stríði sem þessu, virka ekki nema gagnaðilinn geri hið sama en svo fór ekki, auk þess sem gikkbráðir rússneskir hermenn hafa eflaust ekki getað setið á sér, a.m.k. ekki ef þeim hefur fundist sem ógn stafaði af hinum úkraínsku byssuberum.
Það getur orðið erfitt að stilla til friðar í þessu stríði og flestum er ljóst að til þess að það geti orðið, þurfa báðir aðilar að vilja það.
Úkraínar réðust óvænt(?!) inn í Kúrsk fyrir skömmu og Rússar hafa síðan streðað við að koma þeim þaðan og sem tókst að lokum, m.a. með snilldarlegu herbragði, sem sagt hefur verið frá áður á þessum vettvangi.
Þeir eru sem sagt nánast búnir að koma þeim frá Kúrsk og þá er eftir að gera það sem til stóð í upphafi þ.e.a.s. að hreinsa Donbass af úkraínskum óþjóðalýð, sem ekki verður hér slegið föstu að hafi verið á vegum úkraínskra stjórnvalda, hver sem þau nú eru í raun.
Draumur íbúans á svæðinu sem nú er búið að bjarga til vesturlanda, um að vonandi gangi bæði fljótt og vel að taka til í Úkraínu hefur ekki breyst í veruleika en vonandi fer þessu stríðsbrölti senn að ljúka.
Upp komast svik um síðir og nú snúum við okkur að öðru ófriðarsvæði og öðru stríðsbrölti sem rekið er af hinu friðstillandi stórveldi Bandaríkjunum.
Þar er baráttan dálítið öðruvísi, því hún gengur út á að gjöreyða arabísku þjóðinni sem býr á Gaza og þannig er gengið fram að engum er hlíft sem er af röngu þjóðerni.
Búið er að rústa byggðinni og nú er keppast Ísraelar við að drepa sem flesta og helst alla, með sprengju- og skotárásum.
Engum er hlíft, karlar konur og börn, allt skal það drepið og yfirlýst er af leiðtoga þeirra ísraelsku, að komið skuli í veg fyrir, að hjálpargögn komist til þeirra sem hírast og líða í tjalddruslum og bíða þar eftir dauða sínum og/eða limlestingum.
16.5.2025 | 07:05
Glötun mennskunnar
Eitt það fyrsta sem tapast í vopnaskaki er mennskan. BBC.COM segir frá því hvernig hermenn töpuðu mennskunni, gæskunni og sjálfum sér í hernaðinum í Afganistan.
Við höfum fengið að fylgjast með framferði Ísraelshers á Gaza og víðar.
Átök eru auk þess á milli Rússa og Úkraína, Indverja og Pakistana og er þá ugglaust ekki allt upp talið.
Að þessu sinni verðan engar myndir í greininni en menn geta fengið nóg af myndum annarsstaðar standi vilji til.
Hvað er það sem rekur okkur mennina til að haga okkur svona?
Sagna greinir frá endalausum hernaði með manndrápum svo langt aftur sem hún nær og eflaust segir það okkur ekkert um það hvenær var byrjað.
Vel getur verið að ,,seinni heimstyrjöldin, sem vonandi verður sú síðasta, hafi náð lengst í drápum og óhugnaði.
Hve margir féllu er ekki nákvæmlega vitað en fjöldinn var mikill og það þurfti beitingu kjarnorkusprengna til að slökkva eldinn sem logaði innra með mönnum og rak þá áfram til voðaverka hernaðar.
Sagt er að tekist sé á um hagsmuni en er það ekki eitthvað meira sem að baki býr?
Ritari hefur ekki svör við því en óskandi er að sú stund komi að við lærum að beita skynsemi mannskepnunnar til að vinna úr ágreiningi í stað þess að efla hann með hatri og öðrum neikvæðum tilfinningum.
Góðu fréttirnar í dag eru að menn eru sestir niður til að ræða ágreining, til að leita lausna í deilunum milli Úkraína og Rússa.
Að það geti ekki gengið vegna þess að rússnesku sendifulltrúarnir séu ekki nógu háttsettir er fáránleg rökleysa á samskiptaöld.
Jón getur samið fyrir Gunnu; hann ber bara málin undir hana áður en gengið er frá samningunum.
Málið er ekki flóknara en það, hvað sem herra Zelensky og félagar hans segja.
11.5.2025 | 08:54
Samningaviðræður án skilyrða
Rússnesk stjórnvöld leggja til að samninganefndir Rússlands og Úkraínu komi saman og ræði um frið milli landanna.
Hvort af verður ræðst væntanlega af viðbrögðum úkraínskra stjórnvalda og þeirra sem að baki þeim eru.
Niðurlag fréttarinnar á Russya Today er svohljóðandi í lauslegri þýðingu:
,,Pútín sagði að stjórnvöld í Moskvu væru reiðubúin til viðræðna, sem miðuðu að því að ráðist yrði að rót átakanna og sagðist hafa beðið Ankara um að hýsa viðræðurnar. Til upprifjunar: Árið 2022 náðu stjórnvöld í Moskvu og í Kænugarði saman drögum að friðarsamningi í viðræðum sem fram fóru í Istanbúl. Þar samþykkti Úkraína hlutleysi og hernaðarlegar takmarkanir, en á móti buðu Rússar brotthvarf herliðs og öryggistryggingar. Kænugarður gekk ekki að þeim samningnum vegna þrýstings frá London og Zelensky gaf síðar út tilskipun um að banna sjálfan sig frá öllum samningaviðræðum við Pútín!"
Það kann ekki góðri lukku að stýra ef menn banna sjálfa sig frá viðræðum í deilum, hvort sem er milli þjóða eða einstaklinga, en miðað við það sem heyrst hefur og sést hjá Zelensky, getur vel verið að þetta sé rétt.
Sé tekið mið af því sem ritari hefur séð frá fyrri tíð þess ágæta manns, þá er honum flest tamara en að taka lífinu og tilverunni alvarlega.
Að þessu sögðu er óskandi að hann bregði sér úr hlutverkinu og yfir í alvöruna og gefi sér tíma til að hugleiða málið.
Það er að segja, ef þeir sem að baki honum standa, gefa honum heimild til að fara úr hlutverkinu.
Við þetta er því að bæta að samkvæmt rússneskum fréttum fagnar Trump þessari hugmynd og segir á samskiptavef sínum:
,,...a potentially great day for Russia and Ukraine! Think of the hundreds of thousands of lives that will be saved as this never ending bloodbath hopefully comes to an end."
Komi þessir menn sér saman um að forða frekara blóðbaði, þá er fyllsta ástæða til að fagna því.
9.5.2025 | 14:51
Ríkisstjórn á ferð og flugi
Niðurstaðan eftir síðustu kosningar til Alþingis, varð að mynduð var ný ríkisstjórn með nýju fólki sem hefur að mörgu leiti aðra sýn á þjóðfélagsmálin en fyrri ríkisstjórn hafði.
Stjórnina leiða þrjár konur frá jafnmörgum flokkum og a.m.k. sumum, þykir sem nýir og ferskir vindar leiki um í stjórnmálunum.
Fyrri ríkisstjórn var löngu sprungin á limminu, enda gekk hún aldrei á öllum ef svo má segja.
Að henni stóðu þrír stjórnmálaflokkar sem segja má að hafi spannað nokkuð breitt svið, eða allt frá Sjálfstæðisflokknum og yfir í Vinstri græna og Framsóknarflokknum var stungið þar inn á milli.
Sjálfstæðisflokkinn þekkjum við flest og Framsóknarflokkinn líka, enda hafa þeir flokkar verið til lengur en elstu menn muna, en fráleitt er að nöfn flokkanna standi fyrir það sem þeir eru í raun, enda ná nöfnin yfir breitt svið.
Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið neitt sérstaklega framsækinn svo elstu menn muni, sem er í sjálfu sér ágætt m.v. hve gamaldags hann er í viðhorfi sínu til atvinnuvega og byggðamála.
Öll viljum við sjálfstæði fyrir okkur sjálf og annað fólk og þjóðina okkar að sjálfsögðu og því segir nafn Sjálfstæðisflokksins okkur ekkert og hafi það einhvertíma verið svo, þá er það löngu liðið.
Með þessum tveimur flokkum var síðan í ríkisstjórn flokksundur sem kallað er Vinstri- græn, sem er ekki til vinstri en vel getur verið að hann sé ,,grænn" en eins og við vitum eru margir grænir án þess að það teljist vera eitthvað til að hælast yfir.
Stjórnin var sem sagt sett saman úr ólíkum öflum þ.e. frá hægri (Sjálfstæðisflokknum) og til vinstri (Vinstri grænum) þ.e. hagsmunagæsluflokki hinna ríku og flokki hinna vinstrisinnuðu græningja sem voru með óljósa stöðu í tilverunni, en kenna sig við vinstri til að gefa í skin að um ,,félagshyggjuflokk sé að ræða.
Síðan er ,,græn hnýtt aftan við, í þeim tilgangi væntanlega, að höfða til fólks sem telur sig hafa jákvæðari afstöðu til náttúrunnar en aðrir.
Grænna getur það varla verið!
Framsóknarflokkurinn fékk að vera með hinum tveimur en fyrir hvað hann stendur er afar óljóst, en þó má svo skilja sem hann vilji sækja fram en hvert og fyrir hverja vitum við ekki og flokksmenn líklega ekki heldur.
Niðurstaðan af þessari samsuðu varð eins og vænta mátti, að það var fyrst og fremst gaman að vera í ríkisstjórn sem gerði sem allra minnst og ætli ferðalag með flugvélarfarm af ,,umhverfisáhuga- fólki, til Abu Dabi til að sækja þangað hreina og tæra náttúru lýsi ekki einna best ríkisstjórn sem bæði var búin að missa veruleikaskinið og gleyma því til hvers hún átti að vera.
Framsóknarflokkurinn er trúlega til þess að gera góður í samstarfi, þ.e.a.s. ef þeir sem með honum eru vilja hugsa um kýr og kindur og bregða sér á hestbak á haustin og kannski á vorin líka en tæplega er það meira.
Við er tekin stjórn hinna þriggja kvenna sem ætla að gera stóra hluti og eru a.m.k. duglegar að ferðast.
Við vonum hið besta og að þær gleymi ekki þjóð sinni og auki veru sína með fólkinu sem valdi þær til forystu í von að nú myndu blása nýir og ferskir vindar.
Það má greina það af því hve fúl núverandi stjórnarandstaðan er, að það var kominn tími til stjórnarskipta og við vonum því að þær muni eftir þjóð sinni og skilji hvers vegna hún valdi þær til þess að veita henni forystu og leiðsögn.
Að sú leiðsögn verði sótt til annarra landa kemur í ljós en er hreint ekki víst. Hitt er ljóst að það er heilmikið sem laga þarf eftir sjö ára setu fyrrverandi stjórnarflokka og að því þarf að snúa sér.
6.5.2025 | 06:53
Góður staður til að vera á?
Geimfar sem átti að fara til Venusar vill fara heim!
Þótt ég langförull legði
Allt er það vont og verra en verst sagði karlinn, Zelensky er í fýlu og hafnar þriggja daga vopnahléi, geimfar sem átti að fara til Venusar fyrir langa löngu er á leiðinni til Jarðar en enginn veit nákvæmlega hvar eða hvenær það mun lenda.
Heimildin sagði frá þessu fyrir skömmu og líklega er best að halda sig a.m.k. í grennd við loftvarnarbirgi til að vera öruggur!
Myndin tengist efninu ekki á nokkurn hátt en fær að fylgja með vegna persónunnar til hægri, sem er allt í öllu þessa dagana.
Sú til vinstri er frá liðnum tíma, sem við skulum vona að aldrei verði endurvakinn.
Verst af öllu er þó, að veðurfræðingar eru farnir til annarra starfa í USA, eða í langþráða hvíld og ætli það sé ekki Trump að kenna, eins og flest þar vestur frá þessa dagana.
Hvers vegna úkraínski Zele fór í óstuð er ekki gott að segja en á honum er svo að skilja, sem þriggja daga hlé á manndrápum sé ekki nógu markviss aðgerð á óvissutímum!
Fer þá að verða vandséð hvernig koma á mönnum að samningaborði ef ekki má taka sér eins og svo sem helgarpásu í manndrápum, til að reyna að þoka málunum í skárri farveg.
Auk alls þessa er víst veðrið að angra þá fyrir vestan sem vonlegt er, þegar enginn er til að hafa stjórn á því; veðurfræðingar vestur þar munu vera komnir í einhverskonar verkfall en það gerir veðrið ekki svo vitað sé.
Varðandi geimfarið heimakæra og heimfúsa, sem átti að fara til Venusar fyrir löngu síðan er það að segja, að minningar lifna frá fyrri tíma (geimfarið er frá fyrri tíma), um geimfar sem sent var til ástarplánetunnar, sveif niður á yfirborðið í fallhlífum og sendi upplýsingar til Jarðar.
Það mun hafa verið Sovéskt eins og það hét þá, en þetta geimfar sem nú er til umræðu, vildi ekki lúta ráðstjórn og er á heimleið en samt ekki endilega þangað sem því var skotið frá í upphafi.
Það ætlar sér til Jarðar og gerir ekki mun á bláu og rauðu, né öðrum litum þar á milli, þegar það velur sér lendingarstað.
Það mun bara lenda einhverstaðar!
Ástarstjarnan reyndist ekki spennandi staður til að vera á, af ýmsum ástæðum sem ekki verða taldar upp að öðru leiti en því, að útsýnið reyndist ekki vera upp á það besta og andrúmsloftið ekki heldur.
2.5.2025 | 11:40
Sigurhátíð og nýsmíði
Rússar misstu rúman hálfan þriðja tug milljóna karla og kvenna í seinni heimstyrjöldinni.
Þeir minnast þess og hafa fulla ástæðu til og þeir þakka Bandaríkjunum framlag þeirra til að sigra þýska nasista og bandamenn þeirra.
Rússar munu halda sigurhátíð þann 9. maí næstkomandi, til að minnast sigursins yfir nasismanum.
Leiðtogum margra þjóða hefur verið boðið til hátíðarhaldanna.
Það er ekki undarlegt að þjóð sem fórnaði um 26 milljón manns til að knýja fram sigur á helstefnunni haldi minningunni til haga.
Það kann að vera, að til séu þeir sem láta sér fátt um finnast, er þeir heimsækja t.d. minningarsafnið í Pétursborg um seinni heimstyrjöldina en varla eru þeir margir.
Heimsstyrjöldin seinni sem knúin var áfram að þýskum vitfirringi og dindilmannskap hans og formuð í stjórnmálastefnufyrirbrigði sem kallað var ,,nazismi lék margar þjóðir grátt.
Við þekkjum hvernig unnið var að útrýmingu gyðinga samkvæmt þeirri stefnu og ekki er ofmælt að mannslíf, hvort heldur þau voru þýsk eða annarra þjóða, voru lítils metin.
Um þetta hafa verið ritaðar margar bækur sem ekki verður reynt að telja hér upp.
Það vekur athygli að ýmsir leiðtogar hafa ekki í sér burði, til að þiggja boðið um að mæta á hátíðarhöldin.
Gera má ráð fyrir að það sé vegna Úkraínu- málsins, sem eflaust vekur upp ýmsar minningar meðal Rússa.
Það ætti að vera þekktara en svo, að þörf sé að rifja upp, að Úkraínumenn unnu með Þjóðverjum og þóttu síst minni böðlar en Þjóðverjarnir sjálfir.
Um það má fræðast ef vilji er til, t.d. í bókinni ,,Ég lifi þar sem sagt er frá lífsreynslu ungs pilts sem fékk að kynnast böðlunum og vinnubrögðum þeirra.
Honum þóttu Úkraínarnir síst betri en þeir þýsku en tókst með ótrúlegri þrautseigju að komast lifandi úr útrýmingarbúðum nasistanna.
Þegar þetta er haft í huga er ekki undarlegt að rússneska þjóðin sé á verði þegar hún verður vör við ný- nasista.
Ætli það geti ekki verið að minnsta kosti hluti af ástæðunni fyrir því, að tekist er á um rússnesku héruðin á mörkum ríkjanna Rússlands og Úkraínu?
Og vegna þess að Krímskagi er stundum nefndur í því sambandi, þá má minnast þess að hann hefur tilheyrt Rússlandi um aldir þó með hléum sé og þrátt fyrir afskipti og hernað úr vestri og suðri til að komast yfir skagann.
Pétur mikla dreymdi um að brúa Kerssundið.
Nú er búið að gera það og afar litlar líkur eru á að Rússar fáist til að afhenda Úkraínum skagann.
Við þetta má síðan bæta, að Rússneskur miðill hefur greint frá þróun skotflaugar sem knúin er kjarnorku, sem vonandi verður ekki að veruleika, þó svo sé að sjá sem að skammt sé í, að hún verði að raunveruleika.