20.1.2025 | 07:29
Framkvæmd kosninga
Það var kosið til Alþingis og við okkur blasir að ekki fór allt eins og það átti að fara, bæði hvað framkvæmdina varðar og niðurstöðuna!
Það hefur verið sagt frá þessu í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu, Vísir og Heimildinni
Það virðist sem það sé erfiðleikum bundið að fá atkvæði sem greidd hafa verið í alþingiskosningum rétt talin.
Við munum eftir Borgarnesævintýrinu fyrir nokkrum árum og nú er, sem um pínlega endurtekningu á því sé að ræða, þó með dálítið öðru sniði sé.
Og það sem meira er, það er ekki hægt að kenna um sleifarlagi og vondum vinnubrögðum, eins og í Borgarnesi.
Og ekki heldur ófærð og vondu veðri, eins og búast mátti við í þeim kosningum sem fram fóru fyrir nokkrum vikum.
Vissulega má segja sem svo, að það sé dálítið galið að halda kosningar á þessum árstíma, þegar allra veðra er von og sem síðan veldur því, að búast má við ófærð sem orðið getur þess að ekki verði komist með atkvæði á talningarstað.
Ekkert af þessu mun þó hafa valdið vandræðum í þetta sinn, þó tæpt stæði í sumum tilfellum.
Eins og fram hefur komið í umfjöllun ýmissa miðla, þá sitja nú á þingi, þeir sem ekki hefðu komist inn, ef rétt hefði verið farið með kjörgögn og aðrir eru utan þingsins.
Enginn efast um að þau gögn sem bárust hafi verið rétt talin, en það liggur í hlutarins eðli að gögn sem ekki berast á talningarstað eru ekki meðhöndluð til talningar og síðan talin!
Á Alþingi sitja nú þingfulltrúar, sem ekki myndu sitja þar ef allt hafði farið rétt fram.
Það hlýtur að vera óþægilegt að sitja sem þingmaður undir þeim aðstæðum!
Það má hverjum manni vera ljóst, að ekki verður við þetta búið hjá þjóð sem stærir sig að því að búa við gamalt og þroskað lýðræði.
Því gerum við ráð fyrir, að búið verði svo um hnútana að talningarmistök líkt og í Borgarnesi eigi sér ekki stað, en einnig þarf að tryggja að öll atkvæði berist á talningarstaði!
Við hljótum að reikna með því að hið nýja Alþingi rísi undir því, að bæta svo úr að þetta endurtaki sig ekki.
Þó það geti verið pínlegt fyrir þingmenn sem sitja á þingi núna að þurfa að bæta regluverkið, þá þeir verða bara að láta sig hafa það!
18.1.2025 | 07:17
Mikill vill meira og fær aldrei nóg...
Það hefur vekið athygli hve mikill áhugi Trump- feðga er á Grænlandi.
Halldór, sem teiknar fyrir Vísi, sér það og við sjáum það flest og það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart, að ,mikill vilji meira og svo er óvitlaust að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.
Við sem komin eru nokkuð til ára, munum eftir mörgu sem gerst hefur og þó vera kunni að ýmislegt sé farið að gleymast, þá situr sumt eftir!
Þeir vildu Vietnam og nágrenni og margt fleira, því mikill vill meira og fær trúlega aldrei nóg!
Auðvitað vilja þeir Rússland en treysta sér ekki í það.
Og þá er gott að snúa sér að einhverju viðráðanlegra og það hefur verið gert og það þó gasprarinn sé ekki búinn að taka við embættinu eftirsótta.
Hvort hann veldur því þegar til kemur verður tíminn að leiða í ljós, en dapurlegt er það sem ,,verndarar vorir bjóða upp á fyrir sjálfa sig og aðra.
Bandaríkin eru stórveldi- herveldi, um það þarf enginn að efast en valdi fylgir vandi og það er ekki sama hvernig farið er með það vald.
Það er svo dæmi sé tekið, æskilegt að þeir sem fara fyrir ,,veldi hafi burði til að fara með valdið sem þeir búa yfir.
Getur verið traustvekjandi að gasprið sé varðveitt í neðstu skúffu, helst læstri og að búið sé að henda lyklinum, því þá líður a.m.k. flestum betur.
Við á litla Íslandi ,,áttum eitt sinn trumpiskan gasprara og eigum enn en hann er vel geymdur þar sem hann er núna og okkur líður ágætlega með það að hafa hann þar.
Það er reyndar einn á alþinginu okkar, sem er að reyna að vera slíkur en gengur það frekar illa og satt að segja eru afar litlar líkur til að honum takist að ganga í spor þess sem áður var, því til þess þarf talsverða andlega fimi og af henni á hann ekki nóg.
9.1.2025 | 08:48
Nýr utanríkisráðherra bregður sér af bæ
Í ýmsum miðlum eru menn að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ljúka stríðinu í Úkraínu.
Um þetta nöturlega stríð er fjallað í mörgum miðlum og t.d. má benda á grein á BBC, þar sem farið er yfir stöðuna og ekki síst hvernig hægt verði að ljúka átökunum.
Nýútsprunginn íslenskur utanríkisráðherra lét það verða eitt sitt fyrsta verk í embætti, að feta í fótspor þeirrar sem verið hefur í hlutverkinu undanfarin ár.
Og á mbl.is, þar sem mynd er af frúnni með starfsbróður sínum austur þar segir:
,,Utanríkisráðherra Úkraínu, Andrí Sibíha, þakkaði Íslandi fyrir tveggja milljóna evra stuðning við hergagnaframleiðslu Úkraínu á fundi sínum með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í dag.
Þá segir: ,,Þorgerður er í Kænugarði í sinni fyrstu opinberu heimsókn sem utanríkisráðherra Íslands.
Nýr utanríkisráðherra, blautur á bakvið eyrun í embættinu, lætur það verða sitt fyrsta verk að feta í fótspor þess fyrri, enda af sama pólitíska uppruna.
Samkvæmt úkraínskum miðli sem vísað er til í frétt ruv.is er eftirfarandi sagt (skv. vélrænni þýðingu):
,,Við erum þakklát Íslandi fyrir nýlegt framlag upp á meira en 2 milljónir evra til framleiðslu úkraínskra vopna [ ]. segir ráðherrann.
Það þótti gott í upphafi stríðsins, að senda Úkraínum hlýjan íslenskan fatnað, auk þess sem bröskurum var boðið að flytja inn til Íslands kjötafurðir sem framleiddar voru með vafasömum hætti og eftir því sem síðar kom fram, var rekstur sem stundaður var af hollenskum bröskurum, sem fluttu síðan gróðann af framleiðslunni í hollenska banka.
Gróðinn af framleiðslunni varð sem sagt eftir í Hollandi!
Þessar afurðir hafa verið til sölu í sumum verslunum fram undir það síðasta og eru e.t.v. enn og eru væntanlega þeirrar náttúru að geta ekki runnið út á tíma, hugsanlega fyrir tilstuðlan hinna ,,fjölónæmu baktería sem fylgja með í kaupunum!
Það væri einnar messu virði, að einhver taki það nú saman, hve miklu fé frá íslensku þjóðinni hefur verið ráðstafað til ráðamanna í Úkraínu.
Gera má ráð fyrir að það sé óraunhæft að fá það upplýst með trúverðugum hætti, hvernig því fé hefur síðan verið varið, af þeim sem við því tóku.
8.1.2025 | 08:37
Eikin og eplið
Trump stígur fram með sínum sérstaka hætti þessa dagana og sonur hanns bætir um betur og svo er að sjá, sem Bandaríkjamenn hafi kosið yfir sig forseta ,,sem ekki gengur á öllum!
Frá sumu af þessu er sagt á BBC.COM en þar eru t.d. nefndar langanir Trumps til að komast yfir Grænland, Panamaskurðinn og Kanada!
Nái þetta allt fram að ganga og reynist ekki vera um venjulegt trumpískt blaður að ræða, þá mun heimurinn breytast talsvert í stjórnartíð hins nýja forseta Bandaríkjanna.
Eftir að hafa séð frásögnina af þessum hugrenningum, á sjálfum jóladeginum, leitar hugurinn til þess, hvernig komið sé fyrir hinu mikla ríkjasambandi vesturálfu, hvað varðar vitræna forystu manna í æðstu stöðum.
En að öðru.
Svo sem sjá má, vita Sjálfstæðismenn hvernig best er að fara með almannafé!
Maður líttu þér nær er stundum sagt og að því sögðu, sem sagt var hér um Bandaríkin, þá verður bloggara hugsað heim til litla Íslands.
Þannig er að ritara var gefin bók í jólagjöf, sem rituð er að af fyrrverandi forseta íslenska lýðveldisins Ólafi Ragnari Grímssyni og þó ekki sé komið lengra en það í bókinni en að að hún sé u.þ.b. hálfnuð, þá er lesara dálítið brugðið og átti hann samt á ýmsu von.
Hér er verið að vísa til hruntímans, sem ruggaði hinum pólitíska bát og það svo, að stundum gekk inn í fleyið!
Niðurstaða lesara er, að gott var að fá þessa bók í hendur og nú verður framhaldið lesið af athygli og kappi, en gott er að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í hvíld, ásamt Vinstri grænum og Framsókn en það voru Vinstri grænir, sem fengu enn meiri og verðskuldaðaðri hvíld eftir nýafstaðnar kosningar!
Búið er að mynda ríkisstjórn sem þegar er búin að taka við og hinir útpískuðu og úrvundnu framsóknar og íhaldsmenn fá nú verðaskuldaða hvíld; sleikja væntanlega sárin og hugsa sinn gang.
Að því sögðu er ekki annað að sjá sem hinn nýi utanríkisráðherra ætli að feta í fótspor þess fyrri, því eitt fyrsta ef ekki al- fyrsta embættisverkið var að fara til Úkraínu og gefa þarlendum ,,ráðamönnum tvær milljónir evra að gjöf til hergagnakaupa!
Þannig að þó eplið hafi fallið af trénu, þá er eðlið það sama.
7.1.2025 | 07:58
Hatrið og eftirmálarnir
Á CNN.COM er sagt frá því að ísraelskir hermenn geti staðið frammi fyrir lögsókn vegna hernaðar Ísraels á Gaza og hugsanlega víðar.
Í greininni sem hér er vísað til og sem nálgast má á tenglinum, er sagt frá því að almennur hermaður sem einungis gerði það sem honum var sagt að gera, hafi orðið að forða sér frá Brasilíu undan mögulegri málsókn, vegna þátttöku sinnar í hernaði Ísraels gegn íbúum landsins.
Ástandið í Ísrael og Palestínu rekur sig allt aftur til uppgjörs alþjóðasamfélagsins við seinni heimsstyrjöldina.
Heimsbyggðin var í áfalli eftir að framferði nasista var opinberað og viðhorfið var, að tryggja þyrfti Gyðingum land til að búa á og niðurstaðan varð, að þeir ættu rétt á landi þar sem þeir hefðu verið til forna og af því leiddi að stofnað var Ísrael.
Það þótti ekki taka því að taka inn í jöfnuna að á svæðinu bjó fólk, sem hafði búið þar um aldir.
Afleiðingarnar höfum við síðan verið að sjá allar götur síðan í stjórnlausum yfirgangi, og ofbeldi sem beitt hefur verið á báða bóga, en vert er að hafa í huga að aflsmunurinn er afar mikill s.s. sjá má af stuðningi bandarískra yfirvalda við stjórn Netanjahu.
Það hlýtur að vera erfitt að sætta sig við og skilja, að fólk birtist í nútímanum, sem segist eiga rétt á landinu sem forfeður þeirra bjuggu á í fornöld birtist og krefjist þess ,,réttar og að nú skuli menn koma sér á brott með sig og sína en megi (ó)vinsamlegast skilja eftir allt ,,sitt og ef þessu boði verði ekki hlítt, þá muni menn hafa verra af.
Frammi fyrir þessu er staðið og móðurríkið vestan Atlantshafsins sér um að tryggja, að ríkið sem þannig varð til, geti lifað og dafnað.
Og það hefur gengið nokkuð vel.
Að sama skapi hefur þjóðinni sem fyrir er á svæðinu gengið illa; hefur verið hrakin af landi sínu og skemmdarverk unnin á ræktun þeirra s.s. ólífutrjám, sem langan tíma tekur að rækta áður en þau skila afurðum.
Sagan segir að hin vel menntaða þjóð í Ísrael sé búin að koma sér upp kjarnavopnum, eða að minnsta kosti sé í fullum færum um að gera það og því er full ásæða til að óttast.
Reyndar hafa borist af því fregnir að fleiri hafi fiktað við slík vopn á þessu svæði og því er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála á svæðinu.
5.1.2025 | 06:02
Orkuöflun sem ekki hefur náðst óg pólitíkin
Í Heimildinni er grein um orkumálin, sem er hvatning til nýrrar ríkisstjórnar um að standa sig varðandi orkuöflun en eins og kunnugt er, þá er vikið að þeim þætti í samstarfssamningi hinna nýju ríkisstjórnarflokka.
Greinina skrifar Ketill Sigurjónsson og yfirskriftin er Orkutækifæri Íslands á góðu skriði eða í öngstræti.
Í inngangi að grein sinni segir Ketill, að margt [sé] óljóst varðandi útfærslu þeirra atriða sem fjalla um orkumál í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. „Þarna hræða sporin,“ skrifar hann og segir að mikilvægt [sé] að gerðar verði breytingar á laga- og stjórnsýsluumhverfinu til að flýta þróun nýrra orkuverkefna.
Ritari þessarar síðu hefur oft drepið á, að ekki fari saman að vilja skipta orkunotkun þjóðarinnar sem mest yfir í raforku en vilja á sama tíma ekki afla þeirrar orku og það hvorki með nýtingu vinds nér vatnsfalla, að ógleymdu því að óþarflega hægt gengur sumstaðar að afla hitaorku úr iðrum jarðar. Auk þess hve illa sú orka er nýtt og látin renna til sjávar án þess að ,,vinda“ úr henni afgangsorkuna svo sem unnt er, t.d. með varmadælum.
Varmadælur þurfa rafmagn og þess þarf að afla!
Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu efni sem fleirum, og því er rétt að hvetja áhugafólk um þessi mál til að lesa grein Ketils sem er bæði lipurlega skrifuð og skýr í framsetningu.
Við erum eftir síðustu kosningar laus úr helsi Vinstri grænna, sem þjóðin hafnaði svo skýrt sem verða mátti, því flokkurinn féll út af þingi, sjálfum sér til vansæmdar en þjóðinni vonandi til blessunar og því ætti að vera mögulegt að þoka málum áfram, þ.e.a.s., ef Sjálfstæðisflokkurinn og ekki síst Miðflokkurinn fást til að stunda málefnalega stjórnarandstöðu.
Ef við viljum verða betur sjálfbær varðandi orku þá þurfum við að afla hennar, svo einfalt er það!
Helsti hemillinn á stjórnmálasviðinu fékk verðuga lausn frá pólitíkinni eins og fyrr sagði og það fengu reyndar ýmsir fleiri af svipuðu tagi sem vermt hafa stóla á Alþingi undanfarin allt of mörg ár.
Eftir situr reyndar fyrrnefndur Miðflokkur, sem fáir vita hvaðan er að koma, eða hvert hann er að fara og trúlega allra síst flokksfélagarnir sjálfir.
Því er það, að nú blasa við tækifærin til að þoka málum áfram í stað þess að um þau sé japlað og jamlað og tuðað, þar til að þau lognast út af.
Við horfum því með björtum augum fram á veginn og vonumst eftir, að stjórnarandstaðan á þingi verði málefnaleg í gagnrýni sinni í stað þess sem stundum hefur verið að standa svo sem unnt er gegn því sem frá ríkisstjórninni kemur og það hvort sem það er þjóðinni til heilla eður ei.
Við vonum það besta en erum búin undir það versta, að fenginni reynslu undanfarinna áratuga!
3.1.2025 | 08:10
Flugslys?
Flugvél fer óvænt af leið og verður fyrir áfalli, sem veldur því að hún hrapar til jarðar.
Ýmist er því haldið fram að vélin hafi lent í fuglahópi og síðan hrapað, eða fullyrt er, að vélin hafi verið skotin niður fyrir mistök.
Hvort heldur sem er, þá er málið sorglegt en svo ótrúlegt sem það er, þá björguðust tveir áhafnarmeðlimir lifandi frá slysinu.
Úkraínumenn halda því fram að Rússar hafi skotið vélina niður, aðrir giska á að lítið þjálfaðir menn hafi orðið fyrir því óláni að skjóta hana niður vegna þess að þeir hafi talið hana vera úkraínskan árásardróna,
Á CNN.COM rekumst við á vandaða umfjöllun um málið og niðurstaðan er að best sé að hrapa ekki að ályktunum.
Eftir situr, burtséð frá því sem varð til þess að vélin hrapaði til jarðar, að hörmulegt slys hefur átt sér stað, hvort sem það er vegna ófriðarins sem geisar eða einhvers annars.
Það er sama hvað gerist í þessu ömurlega stríði, að það er sem engum til þess bærum detti í hug, að gott gæti verið að ræða málin; ræða sig til niðurstöðu, hætta manndrápum og eyðileggingu verðmæta.
Vilji menn leika sér að hergögnum, þá hlýtur að vera hægt að finna til þess einhverja mannlausa eyðimörk í stað þéttbýlis þar sem fjöldi fólks býr.
Þegar þetta er ritað, hefur komið fram í fréttum, að flugvélin hafi af einhverjum óutskýrðum ástæðum villtist af leið og það svo, að hún flaug þvert yfir Kaspíahafið, þangað sem menn voru að reyna að tortíma úkraínskum árásardrónum, sem gera má ráð fyrir að hafi verið fengnir hjá einkavinum Úkraínu.
Putin er búinn að biðjast afsökunar fyrir hönd sinna manna og þjóðar sinnar.
Hér er sem sé enn eitt dæmið um það, að það er alls ekki gefið, að þeir sem ófriði valda sem séu þeir einu sem verða fyrir áföllum þegar reynt er að leysa ágreining með stríðsrekstri.
Ef einhver getur rifjað upp afsökunarbeiðni af svipuðu tilefni frá einkavinum vorum og verndurum í vestri, þá væri það vel þegið.
2.1.2025 | 13:57
Gas... og ekkert gas!
Það var stór áfangi í dreifingu orku, þegar teknar voru í notkun gaslagnirnar frá Rússlandi um Úkraínu og yfir til vestur- Evrópu.
Mynd úr The Guardian
Fljótlega fór samt að bera á því að ekki yrði um vandræðalausa miðlun að ræða, því gasið sem lagði af stað í lögnunum skilaði sér ekki allt þangað sem til stóð að það færi, þ. e. til vestur- Evrópulandanna sem greiddu fyrir það sem þau fengu…, en ekki fyrir það sem sent var af stað.
Það eru eðlilegir viðskiptahættir að greitt sé fyrir það sem afgreitt er.
Finnst flestum en ekki öllum.
Fljótlega fór að bera á því að það bar ekki saman mælingum á því sem sent var af stað og því sem tekið var út og þegar málið var kannað kom í ljós að boruð höfðu verið göt á lagnirnar og útbúinn aftöppunarbúnaður til að hægt væri að ná sér í gas án þess að borga þyrfti fyrir það.
Götin voru í Úkraínu og þar fór fram hin úkraínska miðlun á ódýrri orku.
Nú bregður nýrra við, því hinir orkuþurfandi Úkraínar hafa tekið upp á því að loka fyrir streymi á gasi til þjóðanna í vestri.
Og þeir gera það um hávetur þegar þörfin fyrir orku til hitunar er mest en þeim sást yfir að hægt er að loka fyrir á fleiri stöðum og nú fæst ekki lengur ókeypis gas úr lögnunum góðu í Úkraínu!
Frá þessu er sagt í ýmsum miðlum, s.s. The Guardian og CNN.COM, og þótt það hafi verið stór áfangi á sínum tíma að geta fengið streymandi gas til upphitunar o.fl. með þessum auðvelda hætti, þá er það ekki svo lengur.
Eftir að ófriðurinn milli landanna færðist í það horf sem verið hefur í seinni tíð, hafa gasflutningarnir með þessari leið verið ótryggir en við því hefur verið brugðist með ýmsum hætti.
Það hljóp svo dæmi sé tekið á snærið hjá bandarískum aðilum, sem sáu sér færi til að flytja út gas til Evrópu með gasflutningaskipum en eins og flestir munu átta sig á, þá er það ekki eins hagkvæmur kostur eins og að gasið streymi einfaldlega um leiðslur.
Og ekki má heldur gleyma því að vistvænskan fýkur út um strompinn á flutningaskipunum!
Úkraínar loka fyrir gasstreymið eftir lögnunum og þakka þannig fyrir hinn vestræna stuðning, sem verið hefur við þá í átökunum milli þjóðanna og sem hefur svo dæmi sé tekið, kostað íslenska þjóð milljarða ef ekki milljarðatugi ef allt er talið.
Fyrir Rússa er þetta trúlega ekki mjög mikið mál því þeir selja gas í margar áttir en fyrir íbúa Evrópu, a.m.k. suma, er þetta vont mál, því orkuverð hefur farið hækkandi og tekið æ meira í pyngjur allra sem gasið nota.
Og svo má ekki gleyma því að nú gera má ráð fyrir því að Rússar loki fyrir streymi á gasi til Úkraínu!
28.12.2024 | 10:35
Rusl til vandræða í geimnum
Á CNN.COM er sagt frá því sem er á sveimi umhverfis okkur og ruslinu sem hefur orðið til vegna athafna okkar.
Það verður samt að segja það eins og er, að geimurinn er ógnarstór og því sleppur þetta furðanlega enn, en í greininni er t.d. sagt frá því að eitt sinn hafi þurft að ræsa hreyfil rússneskrar geimflaugar sem tengd var stöðinni til að hnika henni til og forða henni frá árekstri.
Það er flestum kunnugt að umgengni okkar um Jörðina okkar er ekki til fyrirmyndar og má í því sambandi nefna sem dæmi fljótandi rusleyjar á úthöfunum, en að athafnasemi okkar utan Jarðarinnar sé slík að varasöm sé, er nýtt umhugsunarefni.
Tæknin með m.a. gervihnöttum hefur fært okkur margvísleg lífsgæði s.s. í fjarskiptum og til staðsetningar svo fátt eitt sé nefnt.
Allt getur þetta verið í uppnámi ef ekki er farið gætilega. ,,Lengi tekur sjórinn við, var eitt sinn viðkvæðið og þó hann sé stór og geti tekið við miklu af rusli, þá er geimurinn í segulsviði Jarðarinnar enn stærri og það er þar sem stefnir í vandræði.
Við höfum engin tæki né tól til að hreinsa geiminn en við getum vonað að með tíð og tíma fari eitthvað ef þessu rusli það nærri gufuhvolfinu að það brenni þar upp og ef það fer að gerast, má reikna með að hjartsláttur aukist meðal bandarískra áhrifamanna, sé tekið mið af því hve skelkaðir þeir eru þegar leikfangadrónar og loftbelgir bera þeim fyrir augu.
Við þurfum að gæta okkar og ganga sæmilega um, hvort heldur sem er á Jörðinni eða í nágrenni hennar.
Það er það sem við lærum af þessu og hefðum betur lært fyrr.
Ýmsar skemmtilegar og lifandi myndir fylgja greininni á CNN og þær má sjá með því að nýta sér tengilinn sem er í upphafi þessa pistils.
24.12.2024 | 09:07
Aðfangadagur og fréttir
Við lauslegt yfirlit á fréttum getum við lesið um ferðalög af mismunandi gerð.
Á CNN halda menn sig við Jörðina og farið er um ,,sundið" milli Suður Ameríku og Suðurskautslandsins, þar sem straumar mætast með tilheyrandi ólgu.
Þegar litið er aðeins til hægri á skjánum birtast kunnuglegar myndir þar sem verið er að auglýsa ferðalög til Íslands.
Á BBC er farið aðeins lengra, því þar er sagt frá geimfari sem er á leið til Sólarinnar.
Þegar við höfum lokið skoðun á þessum frásögnum, af ferðalögum af mismunandi tagi, getum við leitt hugann að því sem á gengur í samskiptum manna og þjóða, þar sem ekki hefur tekist að leysa ágreining með eðlilegum mannlegum samskiptum.
Það er barist um austurhéruð Úkraínu og það er barist í Ísrael og Palestínu og reyndar miklu víðar í heiminum.
Það er sem sagt ekki sérlega friðsamlegt í veröldinni, þó hátíð friðar sé að ganga í garð meðal kristinna þjóða og enn og aftur horfum við upp á það, að menn ná því ekki að greiða úr ágreiningi sínum með friðsamlegum hætti.
Maðurinn sem kosinn var til forseta í Bandaríkjunum sér þann kost vænstan að ,,kaupa" Grænland af Dönum og honum kemur það væntanlega ekkert við, að á Grænlandi býr þjóð og hefur búið um tíma sem mældur er í hundruðum og jafnvel þúsundum ára.
Hrokinn er ekki mældur í fingurbjörgum í ,,guðs eigin landi" og reyndar reiknum við með að guð hafi lítið komið nærri hugmyndasköpun af þessu tagi.
Það er nefnilega svo, að hrokinn verður ekki mældur í rúmmáli né með vigt, hvorki í því landi né öðrum.
Þá langar til að ,,kaupa" Grænland og þeir ætluðu að ráða því t.d. hvernig Vietnamar hegðuðu lífi sínu; fórnuðu þar sínum eigin mönnum og enn fleiri íbúum Vietnam, í tilraun til að komast yfir land sem þeim kom ekkert við.
Hunskuðust síðan burt við frekar lítinn orðstír, þreyttir og þjakaðir, auk þeirra sem komu heim og höfðu áður komið heim í pokum, þ.e.a.s. ef þeir þá fundust.
Og þeir eru ekki einir um hátterni af þessu tagi, því sagan greinir frá ámóta framferði svo langt aftur sem hægt er að kanna og þar koma margar þjóðir við sögu.
Við höldum samt í vonina um frið í heimi og reynum að láta þá von endast allt árið og árin en ekki aðeins yfir jólahátíðina.
Gleðilega hátíð!