12.7.2025 | 18:29
Átökin á Alþingi og umræðan endalausa
Það var gerð sú krafa undir lokin á samningum af hálfu minnihlutans að það væri ekki hægt að afgreiða nein önnur mál fyrir þinglok fyrr en það yrði samið um veiðigjaldið á forsendum sem við gátum ekki gengið að, segir Kristrún."
Textinn hér fyrir ofan er tekinn úr umfjöllun Ríkisútvarpsins og myndin er þaðan líka.
Það þarf ekki að orðlengja það, að ástandið í þinghúsinu við Austurvöll hefur verið meira en sérstakt að undanförnu og þjóðin hefur getað fylgst með og undrast.
Ekki virðist fara milli mála að núverandi stjórnarandstaða er í erfiðleikum og erfiðleikarnir felast í því að þurfa að sætta sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga.
Og til þess að ,,sanna" sig völdu þau ,,veiðigjaldafrumvarp" ríkisstjórnarinnar; frumvarp sem gengur út á að handhafar nýtingarréttar á auðlindinni, sem þjóðin lifir að stórum hluta á, verði nýtt í auknum mæli í þágu þjóðarinnar allrar.
Við erum rík þjóð og búum að auðlindum sem við getum nýtt þjóðinni til heilla og framfara en ágreiningur er um hvernig með arðinn af - í þessu tilfelli fiskveiðiauðlindinni - sé ráðstafað.
Sjálfstæðisflokknum finnst að best sé að veiðiréttarhafar ráðstafi arðinum eftir sínu höfði í trausti þess, að það skili sér best þannig til þjóðarinnar allrar og Framsóknarflokkurinn er á svipuðum slóðum.
Og Framsóknar-íhaldsflokkurinn sem kallar sig Miðflokk dinglar með, líklega vegna þess að þeir eru í stjórnarandstöðu og geta ekki verið annað; eiga sáralitla von um að komast í stjórnarmeirihluta, trúlega vegna þess að enginn virðist vita fyrir hvað þeir standa og síst af öllu þau sem í flokknum eru.
Þau eru einna best í því að standa fyrir allskonar uppákomum, sem birtast okkur í hráhakksáti og öðrum skrípalátum sem ekki verður reynt að telja upp, enda varla þess virði.
Þjóðin á þetta ekki skilið eftir að hafa gengið til vetrarkosninga, sem skiluðu þeim árangri að út af þingi hreinsaðist hinn alhreini vinstrigræningjaflokkur sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði borið á höndum sér árum saman og kannski var Framsóknarflokkurinn þar einhverstaðar en fáir tóku eftir né muna eftir honum.
Nú er hann að minna á sig með dæmalausu forneskjuþusi á þingi, tuði sem fáir nenna að hlusta á og þaðan af síður, taka sér til leiðsagnar.
Hvað sem öllu þessu líður er ríkisstjórnin sem nú situr búin að sanna sig hvað það varðar, að hún hefur bæði sýnt þolinmæði og þolgæði gagnvart málæðingum alþingis og síðan að höggva á hnútinn þegar komið var nóg af bulli ergelsi og firru.
Við treystum því að fárið sé gengið yfir í bili og að við taki aðrir tímar; að stjórnarandstaðan sem er vönust því að sitja í ráðherrastólum og stjórna málum þannig að allt fari vel fyrir vildarvini og stuðningsfólk nái áttum.
Sætti sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, sem þau sjálf efndu til.
Því má síðan við þetta bæta, að umræður um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu þar sem annar aðilinn (stjórnarandstaðan) talar út í eitt, aftur og aftur, segjandi hið sama dag eftir dag og viku eftir viku, er ekki umræða og nær væri að kalla hana innihaldslítið þus, því þau eru löngu búin að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Að lokum er rétt að benda á pistil eftir Indriða Þorláksson sem birtist í Heimildinni um málið.
Indriði fer yfir það og vitnar í aðrar greinar fyrir áhugasama til að kynna sér ef þeir vilja. Þau sem töpuðu kosningunum til Alþingis hafa ekki haft vilja eða getu til að una niðurstöðunni og átta sig á að svo uppsker hver sem sáir.
Og nú hefur bæst við ys og þys og mas og þras af þeirri gráðu, að efast má um að fólkið sem í því tók þátt, eigi nokkurt erindi í Alþingishúsið, nema þá ef til vill á áheyrendapallana.
30.6.2025 | 07:31
Eru viðhlæjendur vinir?
Við skoðum umfjöllun CNN.COM og sjáum að hægt er að lesa ýmislegt út úr myndum, sem teknar hafa verið að undanförnu af evrópskum forystumönnum.
Klappað er á bök, breiddur út faðmur, gónt er til himins og svo er að sjá sem það séu þeir Merz og Tusk sem helst reyni að halda uppi alvarlegum samræðum við hina þrjá.
Myndirnar eru nokkrar og það verður að segjast að svipur og bendingar þess franska eru dálítið sérstakar, að minnsta kosti í því vali sem miðillinn velur til birtingar.
Sumar hafa sést áður og ef til vill flestar þeirra mynda, sem orðið hafa fyrir vali greinarhöfundanna á CNN.
Tekist er í hendur, klappað er á bök (og handarbak), hlegið og þurrkusnifsið macronska, sést á einni myndanna en það hefur áður vakið athygli eins og kunnugt er.
Allt þetta og meira til er hægt að sækja á tengilinn sem vísað er til hér í upphafi, þ.e.a.s. ef menn hafa nennu til að velta þessum kumpánum fyrir sér og hugleiða hvað þeim fór svona skemmtilegt á milli!
Rétt er að geta þess að textinn sem fylgir myndunum er mun ítarlegri á CNN en hér er.
26.6.2025 | 08:08
Prósentan og tjáningarfrelsið
Forsætisráðherra mætti í viðtal í þættinum Kastljós í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og lýsti afstöðu sinni til málþófsins, sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi í umræðum á Alþingi síðustu vikur.
Gera má ráð fyrir að öll helstu sjónarmið séu löngu komin fram í veiðigjaldamálinu sem verið hefur til umræðu.
Svo er að skilja sem stjórnarandstaðan sé að reyna að halda því fram, að gjald það sem um ræðir, sé sem meitlað í stein og að þegar það var ákveðið á sínum tíma, hafi hin eina sanna prósenta hvað veiðigjöldin varðar verið fundin út, ákveðin og lögsett.
Menn hafi dottið niður á hina einu sönnu prósentu!
Vitanlega er það ekki þannig og málið snýst trúlega um, að hinir málglöðu vilji ekki slá á höndina sem nærir, eða vilji að minnsta kosti sýna fram á, að þeir hafi staðið í stykki sínu sem ,,varðmenn um prósentuna ,,heilögu.
Það er illa komið fyrir Alþingi þegar mál er tekin í gíslingu með þessum hætti og gildir þá einu hverjir það gera.
Við erum svo lánsöm að búa við lýðræði en ekki málræði.
Sagan sýnir að fólk hefur mótmælt af miklum krafti því sem ekki hefur fallið í kramið hjá þeim sem mótmælt hafa og má í því sambandi benda á mótmælin á Austurvelli 1949.
Þau skiluðu ekki öðru en því, að fólk gat komið á framfæri skoðunum sínum varðandi varnarsamninginn við Bandaríkin.
Mótmælendur komu sinni skoðun á framfæri og endurtóku það síðan hvað eftir annað m.a. með hressandi(?) göngutúrum frá Keflavík til Reykjavíkur.
Þannig er það og þannig mun það verða, að við höfum ýmsar skoðanir á því sem um er að ræða í lýðræðisríkinu okkar, en við skulum ekki gleyma því að lýðræðið er viðkvæmt og það þarf að fara vel með það.
Því er löngu komið að því, að hinir málglöðu tíni saman plögg sín, hvíli raddböndin og fara að hugsa málið upp á nýtt.
Vilji þeir hins vegar halda málflutningi sínum áfram, þá geta þeir það, en ættu að velja sér til þess annan vettvang en þann sem þeir hafa verið á undanfarnar vikur.
,,Mér finnst rigningin góð var eitt sinn sungið og þingmennirnir hugumstóru gætu kælt sig niður í henni til að byrja með og farið síðan í heitt bað.
Að búa í lýðræðisríki þar sem ríkir tjáningarfrelsi eru forréttindi sem ekki ætti að misnota.
24.6.2025 | 06:56
Friður eða vopnahlé
Newsweek greinir frá því að tekist hafi að koma á vopnahléi, í átökunum milli Íran og Ísraels.
Við getum vonandi leyft okkur að vona að um sé að ræða vopnahlé sem heldur en í niðurlagi umfjöllunar Newsweek er eftirfarandi fyrirvari settur:
Þar sem engin opinber staðfesting hefur komið fram um samkomulagið frá Íran eða Ísrael og möguleiki er fyrir átök, er friður langt frá því að vera tryggður.
Það er sem sagt ekki ástæða til að rjúka upp til handa og fóta til að fagna en svo er að sjá, sem a.m.k. einhver von sé að menn haldi aftur af sér.
Auðvitað vonum við öll að það muni ríkja friður vítt um veröld alla, því eins og sjá má á myndinni, sem fylgir frétt Newsweek, er fátt andstyggilegra en þegar átök brjótast út milli landa og þjóða.
Myndin sýnir reyk stíga upp frá því sem munu vera höfuðstöðvar íslamska byltingarvarðarins í Sarallah norður af Teheran í Íran, eftir að á þær var skotið þann 23/6.
Vonir um að Trump myndi reynast fær um að koma á friði milli Rússa og Úkraína hafa ekki ræst enn sem komið er og fátt sem bendir til að friður þar á milli sé í sjónmáli.
Við lifum í voninni um að stjórnmálamenn heimsins reynist færir um að ræða sig til niðurstöðu um deilumál í stað þess að beita vopnavaldi.
Séu þeir ekki færir um það, geta þeir alltaf tekið íslensku leiðina, malað úr ræðustól þar til enginn nennir lengur að hlusta, ekki flokkssystkini þeirra heldur!
Hvernig væri að senda framkvæmdastjóra hinna Sameinuðu þjóða til Íslands og bjóða honum á íslenska þingpalla til að hlusta á malið?
19.6.2025 | 11:50
Vont og verra en verst
Vont er það og verra verður það, er viðkvæðið þessa dagana og kveðskapurinn er sannarlega ekki fallegur.
Sakleysingjarnir eru í holum sínum á meðan vondir menn brugga vélráð sem enginn sér fyrir hver verði og ekki einu sinni teiknarinn góði.
Tveir taflmenn liggja fallnir á borðinu, klukkan er við það að falla á þá sem eru til vinstri og þar með talda holubúana og ef til vill er hún fallin á þá til hægri og það er hugsað djúpt, þ.e.a.s. ef þeim er það þá fært.
Hjá okkur er staðan önnur og Morgunblaðið kann vel að meta glæsilegan forsætisráðherra, sem ber sig vel og það þó hann komi úr öðrum flokki en þeim sem blaðið styður.
En allt er það vont og verra en verst að mati Miðflokksmanns sem er búinn að tala yfir sig líkt og félagar hans, um það sem hann telur sig hafa betra vit á en þeir sem hann talar til, en hvort sú skoðun og það álit, nær út fyrir flokksherbergið er frekar ólíklegt.
,,Skattbyrði er ekki sama og skattbyrði" segir maður nokkur sem ekki er prófessor í hagfræði, því hann hefur fundið ,,nokkrar breytur" sem skipta ,,höfuðmáli" og höfuðmál er ekki sama og höfuðmál eins og allir vita sem átt hafa höfuðföt!
Við leyfum Miðflokksmanninum að hafa orðið í lokin í þessari samantekt, enda hafa þeir sóst mjög mikið eftir því síðustu daga að ,,hafa orðið", því þeir vilja segja eitthvað um flest og líklega mest um það sem þeir vita minnst um.
Svona er íslensk pólitík þessa dagana og enginn geltir að þeirri tík, er það?
Allar klippurnar eru fengnar úr Morgunblaðinu
11.6.2025 | 07:40
Vitskert veröld?
Að leysa deilur milli manna, hópa og/eða þjóða með ofbeldi, er slæmur kostur sem er samt ríkjandi við afgreiðslu deilumála t.d. milli einstaklinga, hópa, þjóða og þjóðabandalaga.
Geta Rússland og Þýskaland verið vinaþjóðir?
Úkraína og Rússland? Frakkland og Rússland?
Í sögulegu tilliti er hægt að halda upptalningu af þessu tagi lengi áfram því mannkynssagan geymir margar frásagnir af átökum milli þjóða og tilraunum þjóða til að sigra hvorar aðra og í þessum dæmum Rússland.
Og stundum hefur það tekist næstum því en aldrei alveg, því björninn er stór, víðátturnar miklar og þjóðin kann að standa saman þegar að henni er sótt.
Það vekur upp daprar minningar þegar t.d. Þjóðverjar styðja Úkraína í árásum á Rússland, því eitt sinn voru það Úkraínar sem studdu Þjóðverja í sama tilgangi.
Sagt er að sagan endurtaki sig með einhverjum hætti og nokkuð er til í því.
En stundum snýst allt við og núna eru það t.d. Bandaríkjamenn sem styðja Úkraína en við munum úr sögunni að áður voru það Bandaríkin sem studdu Rússa í baráttu við Þjóðverja og stuðningsríki þeirra.
Ruglar það okkur ef til vill í ríminu að rifja þetta upp?
Því verður ekki svarað hér, enda þessar línur einungis settar á skjá sem hugleiðingar.
Við vitum það eitt með vissu að það er sem allt sé á hverfanda hveli og t.d. allt að því borgarastyrjöld í Bandaríkjunum, sem stjórnað er að forseta, sem framkvæmir fyrst og hugsar svo, þ.e.a.s. ef honum er það fært.
Gyðingaþjóðin sem sætti svo miklu og ógeðslegu ofbeldi beitir nú aðra þjóð ofbeldi sem er lítið sem ekkert betra og tókst með frekar lítilli fyrirhöfn að góma sænskt stelpuskott og senda til síns heima.
Þeir drápu hana ekki og það er afrek út af fyrir sig miðað við hvernig þeir afgreiða sína næstu granna!
Á BBC.COM er sagt frá því að Rússar séu með dróna í bandi, ljósleiðara ,,bandi, og noti þá til að gera það sem gert er í styrjöldum þ.e. til að skemma, eyðileggja og drepa og sjá má eitt slíkt flugtól á myndinni hér fyrir ofan.
Því verður ekki neitað að mannskepnan er á sífelldri þróunarbraut og finnur alltaf upp á einhverju nýju til að gera sjálfri sér bölvun!
7.6.2025 | 07:11
Klögumálin ganga á víxl og Bandaríkjamenn horfa inn á við
Þannig gengur þetta að því er virðist út í hið óendanlega og engu skiptir þó samninganefndir ríkjanna hittist í Tyrklandi og þykist vera að semja um frið milli landanna.
Kannski eru þær að starfa í góðri trú en svo mikið er víst að lítið kemur út úr því sem þær gera, annað er eftir á og fyrirfram þras um keisarans skegg, þ.e. hvort Putin kemur til að hitta Zelensky o.s.frv.
Það þarf engan að undra þótt fljóthuga og grunnhugsandi maður eins og Trump sé við það að missa þolinmæðina, ef hann hefur þá nokkurn tíma haft þolinmæði til að bera.
Fréttir hafa borist af, að Úkraínar hafi reynt að sprengja brúna langþráðu yfir til Krímskaga, sem var byggð á undra skömmum tíma með nútíma tæknibúnaði og þekkingu; gekk svo fljótt og vel að Pétur mikli hefur örugglega brosað, hafi hann fylgst með framkvæmdunum.
Geti Pétur eitthvað gert þaðan sem hann er núna, mun hann örugglega gera skemmdarvörgunum skráveifu!
Við getum hins vegar fylgst með því sem gengur á í Kænugarði með því að skoða myndband sem The Guardian birtir á vef sínum.
Úkraínar voru víst afar ánægðir með afrek sín þegar þeir sprengdu stórar flugvélar með drónum; Rússum þótti það dónalegt, þótt sumar þeirra véla væru í niðurrifi.
Flugvélar eru eins og önnur tæki og tól, að þær eru góðar fyrst en versna með tímanum og að lokum eru þær rifnar niður og aðrar og fullkomnari taka við.
Bandaríkjamenn veittu þessu athygli sem vonlegt er og niðurstaða þeirra er, að margt þurfi að gera eigi þeirra vélar að vera óhultar á drónaöld.
Við sjáum og höfum séð áður, að Rússar eiga líka árásardróna og nú beita þeir þeim líkt og áður gegn Úkraínu.
Rússar segja að drónaárásir þeirra séu hefnd fyrir árásir Úkraína og þannig er það og þannig mun það verða, þar til menn komast að þeirri niðurstöðu að best sé að snúa sér að öðru.
3.6.2025 | 08:21
Friðarvilji?
Haldinn var fundur varðandi friðarsamninga milli Rússlands og Úkraínu í Tyrklandi og áhugavert er að bera saman rússneskar og bandarískar fréttir af viðræðunum.
Í Russya Today er sagt frá skilyrðunum sem Rússar setja fyrir friði milli landanna, skilyrði sem í mörgu virðast eðlileg sé horft á málin frá rússneskum sjónarhóli.
Komdu að semja góði, því við erum í góðu samningaskapi!
Á CNN.COM er farið yfir málin og svo sem við er að búast er niðurstaðan ólík því sem er á RT, svo ekki sé meira sagt.
Sjónarhólarnir eru sem sagt á ólíkum stöðum og útsýnið eftir því.
Viðræðurnar standa yfir í skugga dónaárása sem Úkraínar gerðu örstuttu áður en viðræðurnar áttu að hefjast; árásir sem eru vel lukkaðar, séð frá úkraínskum sjónarhóli.
Það má með sanni halda því fram, að það sé ótrúlega ósvífið að gera árásir af þessu tagi, nánast degi fyrir samningafund um frið milli þjóða.
Mat Úkraína hefur vafalaust verið það, að vel lukkuð árás af þessu tagi myndi styrkja stöðu þeirra í viðræðunum en ólíklegt er annað en að fréttir af árásunum, hafi hert frekar en hitt, afstöðu Rússa til samninga.
Hvað sem samningum líður sýna árásirnar, að Rússar verða að gæta sín enn betur en áður, því ef árásin sannar eitthvað, þá sannar hún, að Rússland er alls ekki nægjanlega vel varið í ýmsu tilliti.
Niðurstaðan blasir við öllum sem fylgjast með og ekki síst rússneskum ríkisborgurum sem sjá að landið er illa varið fyrir ,,smygli af þessu tagi.
Það er ekki einfalt að gæta þess mikla landflæmis sem Rússland er og því þarf að vanda til verka og ef hægt er að smygla hertólum með þessum hætti, þá er væntanlega hægt að smygla enn varasamari skaðræðistólum inn í landið, sé vilji fyrir hendi.
Atburðarrásin sýnir og sannar að Úkraínar eru alls ekki tilbúnir til samninga og þar með ekki komnir á þann stað, að þeir vilji ljúka ófriðnum sem verið hefur milli landanna um langan tíma.
Það er því nær engin ástæða til mikillar bjartsýni, eins og reyndar segir á einum stað í umfjöllun CNN.COM.
2.6.2025 | 11:14
Ofbeldi í nútíð og fortíð
Nýnasismi er að ná sér að flug í vestur- Evrópu að sögn RT.COM og makalausi Macron (sem er reyndar ekki alveg laus við maka sem á það reyndar til að slá á vanga!) virðist langa til að feta í fótspor Napóleons og þýskir ráðamenn eru ekki alveg frábitnir gömlum draumum.
Moskva var dálítið öðruvísi þegar Naflajón var á ferðinni með sinn söfnuð en sá lufsaðist að lokum heim til sín og endað ferilinn á eyju í Karabíska hafinu.
Hitler reyndi líka og komst langt en flestir vita hvernig sú för endaði og þegar hann sá fram á að stríðið var tapað, lógaði hann sjálfum sér og sínum; var ekki tilbúinn til að standa fyrir svörum um gerðir sínar og yfirgaf því sviðið.
Nú eru sprottin upp mikilmenni í vestrinu sem langar austur en komast ekki sökum anna og ætla þess vegna að senda alþýðustúlkur og pilta í leiðangurinn, því það er minna tjón í þeim, að þeirra áliti.
Maður gerir náttúrulega ekki hvað sem er, ef maður er í forystunni fyrir landið sitt og því er betra að tefla fram minni spámönnum og svo er það væntanlega þannig, að í þeim sé minna tjón að mati þeirra sem skákina tefla.
Við sjáum hvað setur með þetta en þeir og þær eru líka til, sem vilja koma á friði milli landa og við setjum traust okkar á þau.
Annars hefur það verið svo að styrjöld Ísraels á Gaza og ,,Vesturbakkann" er flestu ofar í umræðunni sem vonlegt er, því önnur eins fjöldamorð hafa varla sést síðan í annarri heimstyrjöldinni.
Þá voru það nasistar og handbendi þeirra - m.a. úkraínskir - sem drápu saklausa gyðinga en nú er dæminu snúið við að því leitinu til, að það eru gyðingar sem standa að fjöldamorðunum á almennum borgurum.
Og þegar hugsað er til þess hvað gyðingar hafa þurft að líða áður fyrr, er ótrúlega sárt til þess að hugsa, að forystumenn þeirra skuli fara fyrir aðför að almennum borgurum líkt og sjá má á í fréttum frá Gaza.
25.5.2025 | 21:32
Gæti hlutlaust svæði verið lausnin?
Samkvæmt því sem fram kemur í rússneska miðlinum Russya Today, vinna Rússar nú að því að koma upp hlutlausu belti milli Úkraínu og Rússlands, sem við vitum að er ekki hin endanlega lausn en samt skárri en engin.
Hugsum til þess að inni í þessum búningum eru menn á besta aldri sem skaðast geta á líkama og sál í þeirri ,,vinnu" sem þeir eru nauðugir viljugir að sinna.
Vitna Rússar til þess að það hafi verið gert áður s.s. á milli Norður og Suður Kóreu og víðar.
Spurning er hvort ekki megi líta svo á að þetta hafi verið reynt áður á þessu svæði, þó það hafi verið á talsvert annan hátt.
Donbas svæðið átti að vera hlutlaust en þó ekki, því það átti að vera svokallað ,,sjálfstjórnarsvæði", þ.e. svæði sem bæði Úkraína og Rússland myndu virða sem hlutlaus.
Það gekk ekki vel að fylgja því eftir að svo væri og oft brutust út bardagar milli manna frá Úkraínu sem fóru með ófriði, yfirgangi og þegar lengst gekk manndrápum á svæðinu.
Rússar reyndu að styðja sitt fólk og útveguðu því loftvarnarbúnað sömu gerðar og Tyrkir keyptu, en varnarliðar á Donbas svæðinu urðu til þess að skjóta niður farþegaþotu (hollenska ef rétt er munað), sem sannaði að þeir kunnu ekki að fara með búnaðinn.
Þetta var mikið hörmungarmál sem von var og ef rétt er munað, reyndu menn sem best þeir gátu, að koma sér undan ábyrgð af verknaðinum.
Rússar leggja til og vinna nú að því að koma á hlutlausu belti á milli landanna samkvæmt því sem segir í R.T. í sömu grein og vitnað var til hér í upphafi.
Hvort það verður lausnin er ekki gott að segja en vonandi fara menn að sjá til sólar í því ófriðarástandi sem þarna hefur verið um áratuga skeið.
Á sama tíma og þessi frásögn er í RT er greint frá því í The Guardian að miklar loftárásir hafi verið gerðar af Rússum á Úkraínu og tekið er fram í fréttinni að það sé á sama tíma og verið sé að skiptast á stríðsföngum, en eins og við munum var samið um veruleg skipti á föngum á fundinum umtalaða í Tyrklandi.
Fangaskipti eru reyndar ekki ný af nálinni í þessum átökum en vera kann að þau hafi legið niðri eftir að Úkraínar skutu niður fangaflutningavél sem var að koma með úkraínska stríðsfanga frá Rússlandi til Úkraínu.
Það er löngu kominn tími til að hætta þessu stríði, sem best af öllu væri að hefði aldrei byrjað, eins og við á um öll stríð.
En það er víst ekki mikil von til þess að mannskepnan læri að hegða sér í samskiptum hver við aðra, hvort heldur um er að ræða samskipti á milli þjóða eða einstaklinga, því svo er að sjá sem reynslan kenni okkur að það er auðveldara a deila en að koma sér saman.