20.4.2025 | 08:04
Klögumálin ganga á víxl
Boðað vopnahlé gengur ekki eftir a.m.k. ekki, að því leiti sem vonast var til.
Það má reyndar sýna því skilning að taugaþandir menn sem búnir eru að vera undir miklu álagi, hætti ekki baráttunni á slaginu klukkan eitthvað.
Og eins og við er að búast kenna hvorir öðrum um og engin leið er að dæma um hvor hefur rétt fyrir sér.
Ritari leit við á BBC.COM og fékk eina frásögn og síðan á Russya Today og fékk aðra.
Og eins og við var að búast bar mönnum ekki alveg saman.
Myndin af Zelensky er af vef Russya Today og er ein sú besta sem af Zelensky hefur birst um nokkurn tíma og spurning er hvort það sé verið að senda skilaboð með því myndvali.
Á BBC rákumst við á kunnuglega frásögn sem hófst nánast á ,,Selensky segir" og það sem hann sagði var vitanlega að rússneski herinn stæði ekki við vopnahléið.
Myndin af Putin, sem sést að er fengin frá Reuters, fylgir frásögn BBC og þar sem hún er ekki tekin í tilefni dagsins, svo við vitum, þá lesum við ekkert úr henni!
Á Russya Today var þetta dálítið öðruvísi en á BBC og þar var framgangi vopnahlésins lýst á þann veg að ekki hafi allt farið svo sem óskað var eftir og vonað.
Það er bæði gömul saga og ný að það taki tíma að koma boðun um stöðvun hernaðaraðgerða í framkvæmd; menn eru taugaspenntir og bregðast við minnsta áreiti svo sem von er.
,,Þegar vonin ein er eftir" er titill á bók sem hefur setið í minni og við skulum halda áfram að halda í vonina, treysta því að taugarnar slakni og að sæmilega tryggur friður komist á, a.m.k. yfir páskana og helst miklu lengur.
Við viljum flest varanlegan frið, að menn ræði sig til niðurstöðu, hætti manndrápum og eyðileggingum og að ástand sem búið er að vara með ýmsum afbrigðum í meira en áratug, breytist til batnaðar.
Vonandi er það ekki of stór ósk á þessari páskahátíð!
15.4.2025 | 07:33
Hörmungar eða samningar?
Russya Today birtir frétt um stöðu mála í átökunum milli Rússlands og Úkraínu og verður ekki annað séð en að margt sem þar kemur fram, sé í svipuðum dúr og lesa má í vestrænum miðlum.
Orð eru til alls fyrst, en vilji menn ekki ræða málin, þá er ekki von á góðu.
Við sjáum á Rúvinu okkar, að árásir hafa verið gerðar af Rússum og að ,,Margir leiðtogar Evrópu og helstu bandamenn Úkraínu fordæmdu árás Rússa á borgina Sumy í gærmorgun.
34 voru drepin í árásinni og um 120 særðust. 2 börn eru meðal hinna látnu." Og þar kemur fram að ,,Hann [þ.e. Zelensky] óttaðist að rússnesk sjónarmið væru að ná fótfestu í Bandaríkjunum.
Trump yrði að vera með Úkraínumönnum í liði, því hann væri sterkur forseti yfir sterku ríki. Mér þykir það rangt að Bandaríkin vilji vera hlutlaus."
Við hin segjum sem svo, að ef úkraínsk sjónarmið eru að ná fótfestu í Bandaríkjunum, þá eru fulltrúar þaðan ekki æskilegir málamiðlarar.
Og þar með er málið komið í hina úkraínsku(?) sjálfheldu.
Ekki hefur ritari á reiðum höndum tölur yfir hve marga, t.d. Úkraínar drápu og særðu í ,,innrásinni í Kúrsk" og hefur satt að segja ekki áhuga á að grafa það upp.
Sannleikurinn er eitt það fyrsta sem ,,fellur" í stríði og ásakanirnar ganga á víxl og varasamt er að treysta því sem haldið er fram af þeim sem takast á. Það er bæði gömul saga og ný og ,,upplýsingar" eru í boði vilji maður eitthvað hafa með þær að gera.
Verið getur að Úkraínar hafi slampast á að gefa upp réttar tölur en full ástæða er til að efast.
Það sem við vitum er, að verið er að drepa og meiða fólk - hermenn eru líka menn, munum það - og þeir eru særðir og drepnir af miklu kappi af beggja hálfu og út á það ganga átökin að stórum hluta.
Samkvæmt því sem segir, í miðlinum sem hér var vitnað til í upphafi, hefur Zelensky lítinn áhuga á að semja við andstæðinginn, segir að honum sé ekki treystandi o.s.frv.
Gera má ráð fyrir að viðhorfið sé svipað hinu megin en ekki hefur samt komið annað fram en að menn vilji a.m.k. reyna.
Það er nöturlegt til þess að vita að við séum ekki komin lengra eftir þúsundir ára og að við höfum ekkert lært og það sem verra er, að það er sem enginn vilji sé til að læra af reynslunni.
Því má svo við bæta að fréttir hafa borist af því að sendiherra Bandaríkjanna hafi verið kallaður heim frá Úkraínu vegna sjálfstæðra skoðana, bæði gagnvart þeim sem með völdin fara í Úkraínu og líka vegna þeirra sem stjórna í Bandaríkjunum.
Af því má draga þá ályktun að ekki sé hægt að notast við fólk með sjálfstæða hugsun í utanríkisþjónustunni í fyrrnefndum ríkjum og ef til vill víðar.
6.4.2025 | 05:48
Varanleg lausn?
Í vefriti rekumst við á umfjöllun um hugmyndir um hvernig ljúka megi styrjöldinni sem er milli Rússlands og Úkraínu.
Forseti Bandaríkjanna hefur haft ýmislegt á prjónunum varðandi átökin og haft uppi stórar yfirlýsingar um hvernig hann myndi koma á friði austur þar.
Hægt hefur gengið í því efni en við höldum í vonina um að hinn trompaði forseti nái sínu fram í þessu og að úr því verði friður.
Stjórnvöldum í Úkraínu líst mátulega vel á þessar hugmyndir forsetans og fram kemur í miðli sem ritari þekkir lítið, að því er haldið fram að hugmyndir séu uppi um að Bandaríkjamenn taki yfir rekstur kjarnorkuveranna sem eru innan Úkraínu.
Í fyrrnefndum miðli, vefritinu Remix, sem vitnað er til í grein Þjóðólfs er sagt frá hugmyndum Bandaríkjamanna um yfirtöku kjarnorkuveranna í Úkraínu.
Allt er þetta áhugavert og í hugann kemur það sem gengið hefur á, varðandi verið í Zaporizhia en eins og kunnugt er, þá hefur ýmislegt verið þar um að vera og ritara er minnistætt þegar sagt var frá því í fréttum að kjarnorkuverið lægi undir sprengjuárásum Úkraína.
Sagt var síðan frá því að eftirlitsaðilar frá Sameinuðu þjóðunum hefðu komið til eftirlits á aðstæðum í og við verið og að þeim hefði blöskrað að sjá skemmdirnar eftir sprengjur sem Úkraínar höfðu varpað á varnarhjúp þess.
Hjúpurinn hafði þrátt fyrir allt þolað álagið en vandamálið á þeim tíma var að Úkraínar gátu ekki hugsað sér að þiggja orku frá verinu þó svo hún væri gefin en ekki seld.
Nauðsynlegt var að losna við orku frá verinu, til að kjarnaofnarnir ofhitnuðu ekki.
Úkraínuleiðtogar gátu ekki hugsað sér að notast við orku sem menguð væri af rússnesku þjónustuliði og því fór svo, að Rússar fundu leið til að draga úr framleiðslunni án aðstoðar þeirra úkraínsku, enda ýmsu vanir í þeirri tækni sem þarna er notuð.
Í frásögninni, sem vitnað er til hér í upphafi, er sagt frá því að Bandaríkjamenn vilji yfirtaka rekstur kjarnorkuveranna í Úkraínu og eflaust er það ekki fráleit lausn, þó spurningar vakni um hversu vel þeir séu að sér um rússneska hönnun slíkra vera.
Ritari þessa pistils er ekki fær um að dæma í því efni en finnst þó líklegt að rússneskir tæknimenn þekki betur til búnaðar sem er rússneskur að uppruna, en þeir sem bandarískir eru.
Báðar þjóðirnar hafa orðið fyrir óhöppum í rekstri kjarnorkuvera sinna. Til dæmis á Þriggjamílna eyju og í Chernobyl.
Rétt er samt að bæta því við, að þegar óhappið mikla varð í Chernobyl kjarnorkuverinu, þá var það vegna afskipta þeirra sem vissu frekar lítið um kjarnorkuver og því fór sem fór.
Mannleg mistök var það kallað og sýnir að menn eiga ekki að vera að skipta sér af því sem þeir þekkja ekki nægjanlega til og það er væntanlega hægt að gera athuganir á virkni neyðarrafstöðva, án þess að stefna rekstri kjarnorkuveranna í hættu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2025 | 06:36
Til heiðurs þeim sem björguðu heiminum
Menn ætla að koma saman og minnast þeirra sem fórnuðu sér fyrir þá sem síðan nutu sigursins.
Það er ekki laust við að farið sé að fenna yfir í hugum sumra en þó kann það að vera á misskilningi byggt.
Hvað sem því líður þá ætla forystumenn sumra þeirra þjóða sem sigruðu nasismann og fasismann, að minnast sigursins. Frá því er sagt á Russya Today og víst er að oft hefur verið komið saman af minna tilefni.
Xi Jinping mun mæta og gera má ráð fyrir að það geri fleiri.
Skemmst er frá því að segja að Rússar (Sovétríkin), færðu einhverjar mestu fórnir sem um getur til að hrinda af sér innrásarher þýskra nasista og fylgiríkja þeirra og það tókst og við megum vera þakklát fyrir það.
En hvað situr eftir og hvernig er staðan núna? Hún er í stuttu máli skelfileg, þjóðin sem nasistar lögðu mikla áherslu á að útrýma er í hryllilegu stríði á Gasa og víðar og stefnan er að flæma þjóðina sem fyrir er á landsvæðinu á brott og svo er að sjá sem forseti Bandaríkjanna styðji þau áform.
Þeim áformum er fylgt eftir af miklum krafti og eyðileggingin á Gasa er slík að flestum hryllir við og það svo að teikn eru um, að yfirvöldum í Bandaríkjunum sé farið að þykja nóg um.
Við höfum lesið um og séð myndir frá Dresden, Hirosima, Nagasaki, Vietnam, Írak og fleiri stöðum og flestum finnst sem löngu sé komið nóg.
Það er sem sífellt sé hægt að finna siðlaus stjórnvöld sem einskis svífast og sem finnst tilgangurinn helga meðalið.
Eitt sinn vorum við í hópi ,,hinna viljugu þjóða" og sú skömm hefur aldrei og verður trúlega aldrei, hreinsuð af okkur.
Við tókum ekki sérlega vel á móti landflótta fólki sem til okkar leitaði í seinni heimstyrjöldinni.
Tíminn leiddi hins vegar í ljós að margt af því fólki skilaði miklu til þjóðarinnar, sem var rétt að byrja að fóta sig í þeirri sjálfstæðu tilveru sem var rétt handan hornsins.
1.4.2025 | 07:19
Skotin og urðuð með jarðýtum
Þau voru að reyna að hjálpa, voru í búningum sjúkraliða, óvopnuð og ógnuðu engum en voru skotin og urðuð eins og um úrgang væri að ræða.
Frá þessu er sagt í The Guardian og frásögnin er ekki fögur.
Miðillinn segir frá því að 15 palestínskir björgunarsveitamenn hafi verið drepnir af Ísraelum og hafa frásögnina eftir fulltrúum frá Sameinuðu Þjóðunum.
Fréttin er ekki fyrir viðkvæma en sagt er frá því að hjálparsveitafólkið hafi verið að sinna sínum störfum, þegar það var skotið og líkunum síðan komið í holu sem búin var til með jarðýtu og að því loknu jarðvegi ýtt yfir.
Eða eins og segir í umfjöllun miðilsins í vélrænni þýðingu:
,,Að sögn mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (Ocha) voru palestínskir Rauði hálfmánar og almannavarnastarfsmenn í leiðangri til að bjarga samstarfsmönnum sem skotið hafði verið á fyrr um daginn, þegar greinilega merkt ökutæki þeirra urðu fyrir mikilli skothríð Ísraela í Tel al-Sultan-hverfinu í Rafah- borg. Embættismaður Rauða hálfmánans á Gaza sagði að vísbendingar væru um að að minnsta kosti einn hefði verið handtekinn og drepinn, þar sem lík eins hinna látnu hefði fundist með hendur hans bundnar."
Það verður seint á mannskepnuna logið og dapurlegt er að hugsa til þess að þjóðin sem þurfti að þola einhverjar mestu hörmungar sem um getur í heimsstyrjöldinni síðari, sé síðan gerandi í að því er best verður séð, útrýmingu þjóðar sem búið hefur á svæðinu um aldir.
Ekki er það til uppörvunar að á bakvið er einn helsti fulltrúi lýðræðis, sem svo telur sig vera.
Og eftir að hafa breytt búsvæði Palestínumanna í rústum þakta auðn, þá leggur forseti þess ,,lýðræðisríkis" til að palestínska þjóðin verði flutt burt af svæðinu og eitthvað annað.
Nema að sjálfsögðu ekki til Bandaríkjanna, heldur til ríkjanna sem eru í grennd við Ísrael!
Myndirnar eru úr frásögn The Guardian.
31.3.2025 | 07:31
Reiður maður stjórnar?
Í Hvíta húsinu í Washington situr ,,voða reiður maður og enginn veit hvað honum dettur í hug að segja eða gera næst.
Frá þeim reiða er sagt á BBC.COM og við höfum getað fylgst með gönuhlaupum hans víða á yfirlýsingavellinum um nokkurn tíma.
Hann er reiður út í Zelensky og nú er hann reiður út í Putin og eins og áður sagði, höfum við geta fylgst með reiðiköstum hans í garð ýmissa minni(?) spámanna um nokkurt skeið.
Og hann er fullur af græðgi líka: Landagræðgi og auðlindagræðgi og áreiðanlega allskyns annarri græðgi einnig.
Klippa úr Morgunblaði dagsins 31/3/2025
Bandaríkjamenn kusu sér forseta fyrir nokkrum mánuðum og uppskeran er líkt og spáð var og því situr heimsbyggðin uppi með stjórnmálatrúð sem enginn veit með vissu hvert er að fara né hvaðan er að koma, ef hann veit það þá sjálfur.
Kamella tapaði og við vitum ekki einu sinni hvort það var gott eða vont!
Ísland er með varnarsamning við Bandaríkin og þó ekki væri nema vegna þess, þá skiptir það okkur máli hver fer með völdin í því ágæta ríkjasambandi.
Á undan Trump var það Biden sem vissi sjálfur lítið orðið um hvort hann var að koma eða fara, en honum tókst þó að losna við hundinn!
Á okkar ísa kalda landi hefur líka verið ýmislegt að gerast í pólitíkinni og svo dæmi sé tekið, var skipt um ríkisstjórn eftir að sú sem setið hafði við lítinn orðstír, flosnaði upp og sofnaði svefni sínum.
Svo er að sjá sem Sjálfstæðismenn séu að byrja að jafna sig á niðurstöðu kosninganna, enda væri það sérstakt ef svo gróinn og reynslumikill flokkur gæti ekki komist yfir lýðræðislega niðurstöðu kosninga!
Við sjáum merki þess í Morgunblaði dagsins, að það sé að komast upp úr hjólfarinu sem það hefur skrönglast í síðan úrslitin og hin nýja stjórnarmyndun hratt þeim fram af brúninni.
Að Eyjólfur hressist er ágætt og ekki mun af því veita, að á íslenskum fjölmiðlamarkaði sé einn miðill sem sé sæmilega traustur og laus við fimbulfamb af bloggara- tagi og þ.á.m. þess sem þetta párar!
28.3.2025 | 07:35
Leitað að friði, eða er verið að skoða heiminn?
Á miðlinum Russya Today, sem birtur er á ensku, er sagt frá stöðu mála og farið lítillega yfir það sem verið hefur að gerast af hálfu forseta Bandaríkjanna til að koma á friði milli Rússlands og Úkraínu.
Það ætti að vera hverjum manni ljóst, að þegar Rússar vilja frið og Bandaríkjamenn vilja það sama, þá endist ófriðaröflum ekki lengi örendið í baráttunni fyrir ófriði.
En að öðru, Silfrið á Rúv var á dagskrá nýlega þar sem saman komu til skrafs og ráðagerða fulltrúar Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Pírata, en á undan þættinum var rætt við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra.
Það segir sína sögu um stöðuna í íslenskri pólitík, að ekki þótti taka því að hafa fulltrúa Framsóknar við borðið, enda flokkurinn búinn að klúðra sínum málum eftirminnilega svo sem sást af útkomunni í síðustu alþingiskosningum.
Svo Viðreisn sé ekki gleymt, þá má minna á, að í Heimildinni er viðtal við utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar en eins og kunnugt er þá er hún í miklum hervæðingarhug.
Fyrrverandi Framsóknarmaður og núverandi formaður Miðflokksins taldi sig flest vita, greip í hönd sessunautar til að koma honum (sem reyndar var hún!), í skilning um að nú þyrfti hann að koma sínum skoðunum að og það strax!
Samræðurnar voru að öðru leiti málefnalegar.
Því má svo við þetta bæta, að á BBC er frásögn af heimsókn Putin og félaga til Murmansk, frásögn sem vert er að lesa og hugleiða.
23.3.2025 | 07:14
Að tapa getur verið erfitt
Það var kosið til Alþingis og landslagið breyttist og við það þarf þjóðin að búa og pólitíkusarnir líka.
Við höfum séð teikn um, að það sé a.m.k. sumum erfitt.
Teiknari Morgunblaðsins tekur ýmislegt fyrir og hittir oft naglann á höfuðið.
Eitt og annað vekur athygli þessa dagana, bæði innlent og erlent en það innlenda hefur gripið ritara einna mest.
Kona sem var ráðherra varð skotinn í strák fyrir um hálfum fjórða áratug og eins og flestir vita hefur fátt annað verið meira í fréttum en það, eftir að málið opinberaðist.
Fátt er eðlilegra en að ástin grípi ungmennin og það er í raun ekki umræðuvert.
Ef það gerðist ekki, hvernig færi þá?
Knúsið og huggulegheitin urðu til þess að til varð barn sem vonandi hefur ekki beðið skaða af allri þeirri umræðu sem orðin er.
Að ástin hlaupi í unglingana ætti ekki að vera fréttaefni, en það væri sannarlega fréttaefni ef það gerðist ekki!
Hér verður ekki eytt fleiri orðum að þessu máli en við skulum vona að þeir sem lent hafa á milli tannanna á fólki beri ekki skaða af.
,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar og við skulum hafa það í huga og vona að þeir sem til umræðu hafa verið, hafi ekki beðið tjón á sálu sinni.
Vonum líka að hinir föllnu og særðu eftir síðustu kosningar til Alþingis fara að jafna sig, líta í eigin barm og finni að lokum skýringar á því hvers vegna kosningarnar fóru svo sem raun varð á.
Það var einfaldlega þannig að meirihluti þjóðarinnar var búinn að fá nóg af stjórnleysi og óreiðu og því var það, að kjósendur vörðu atkvæðum sínum svo sem sást eftir braskennda talningu atkvæða.
Að rjúka til og slíta stjórnarsamstarfi, sem ekkert samstarf var - utan frá séð - var rétt ákvörðun sem reyndar hefði þurft að taka miklu fyrr.
Við vitum hvað kemur út úr því að leggja saman tvær jafnar tölur þar sem eru önnur er plús og hin er mínus.
Ríkisstjórn sem ekki er annað en núll, á að pakka saman og víkja og leyfa þjóðinni að velja eitthvað nýtt.
Þjóðin gerði það og framsóknar- íhaldið sem sumir kalla svo, þurfti að taka pokann sinn og hverfa til innhverfrar íhugunar.
Þau er ekki enn komin þangað eða þaðan en það kemur vonandi að því, því það er engum hollt að sökkva sér í afneitun og leiðindi líkt og við höfum orðið vitni að síðan þjóðin kvað upp úrskurð sinn.
Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að endurnýja forustu sína en hinn hægvirki Framsóknarflokkur, tvístígur enn og japlar á niðurstöðunni og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.
Annar er vinstra megin og hinn hægra megin og það hefur alltaf vafist fyrir þeim.
Sem eru reyndar alls ekki ný tíðindi!
22.3.2025 | 08:03
Horfum hærra!
Eftir ársdvöl í þyngdarleysi eru þau komin aftur til Jarðar og í ljós kemur að breyting hefur orðið á líkömum þeirra.
Breyting, sem betur fer mun ganga til baka, eftir því sem talið er.
Sjónin er ekki eins og hún var, andlitin eru þrútin, fæturnir hafa lengst og mjókkað og þau hafa stækkað þ.e.a.s. hækkað!
Læknar eru við öllu búnir og það verður tekið vel á móti þeim en hvers vegna tók þetta svona langan tíma?
Eru samningarnir við Rússa um aðstoð varðandi áhafnarskipti í geimstöðinni runnir út?
Við vitum fátt um það og vel getur verið að svo sé en fundum þó mynd af því þegar verið er að taka á móti geimförum sem fluttir voru til Jarðar með Soyuz geimfari síðla árs 2016.
Það gerðist áður en menn fundu það út að Rússar væru ómögulegir og að engu hafandi og ekki einu sinni nothæfir til að bjarga fólki!
Þetta eru þjóðirnar sem við sum okkar vonuðum, að myndu starfa saman að geimrannsóknum.
Í stað þess að það yrði gert, rann upp Biden- tíminn með heimilishundinn ómögulega, endalausri gleymsku og misminni, fyrir utan stríðsrekstur af ýmsu tagi.
Að ógleymdu stríði við fljúgandi diska og loftbelgi ýmiskonar.
Ofsagt er að halda því fram, að skipt hafi verið á hvuttanum og fyrrum skemmtikrafti úr austri en lætur samt nærri.
Allt er gott sem endar vel og nú eru þau blessunarlega komin til baka úr geimferðinni löngu og vonandi gengur betur næst.
20.3.2025 | 08:13
Aðgát skal höfð í nærveru...
Myndin er úr Le Monde og textinn undir henni er eins og þýðingarvélin skilaði honum.
Vísað er í franska miðilinn Le Mond og í vélrænni þýðingu er fréttin svofelld, nema að hún er ítarlegri og lengri:
Franski rannsóknarráðherrann sagðist hafa áhyggjur á miðvikudaginn eftir þessa ákvörðun bandarískra yfirvalda. CNRS rannsakandinn er sagður hafa gengist undir handahófskennda skoðun við komu hans [til USA], áður en leitað var í tölvu hans og síma.
Þýðingarvélar eru orðnar það góðar að nú getum við lesið án verulegra vandræða hvaða miðla sem er, hvort sem þekking á tungumálinu er til staðar eða ekki.
Það er sem sagt af sem áður var þegar ritari, svo dæmi sé tekið, gerðist áskrifandi að bandarísku tímariti og glímdi svo við að stauta sig í gegnum greinar í því með aðstoð orðabókar, til viðbótar því sem hann hafði lært í ensku!
Gera má ráð fyrir að skilningurinn hafi ekki verið mikill og eflaust misskilningur talsverður; þetta var á tímum stríðsins í Vietnam og löngunin mikil til að sjá sem flest sjónarmið.
Þetta er sem sagt liðin tíð og gaman að sjá hve hin vélræna þýðing virkar vel.
Efni greinarinnar er að segja frá því að franskur vísindamaður ætlaði að heimsækja Bandaríkin.
Fögnuðurinn fyrir vestan varð ekki mikill, því hann hafði tjáð sig um trumpismann og muskismann og það má víst ekki í því ágæta landi!