Draugur í flagi?

  Í Bændablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 8. apríl á blaðsíðu 8, er umræðuvettvangur sem í fljótu bragði virðist vera fyrir aðsendar greinar. Tvær þeirra eru merktar „Evrópumál” og eru allrar athygli verðar, en eins og mörgum er kunnugt hefur allnokkur umræða farið fram á vettvangi blaðsins um það málefni að undanförnu. Bændasamtökin hafa tekið þá afstöðu til ESB að vera alfarið á móti því að sótt sé um inngöngu, þar sem þau telja að hag bænda sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Um þetta má að sjálfsögðu deila, en niðurstaða samtakanna er þessi, Bændablaðið er gefið út af þeim og er í eigu Bændasamtaka Íslands.

  Önnur greinin sem ber yfirskriftina „Vill ESB landbúnaðinn burt?” er rituð af Önnu Margréti Guðjónsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og eins og yfirskriftin ber með sér, veltir hún spurningunni sem í henni felst fyrir sér og eftir að hafa farið yfir málið leggur hún áherslu á að Bændasamtökin komi að því að undirbúa samningsmarkmið Íslands, er þar að kemur.

  Fyrir einskæra tilviljun ber svo við að í sama blaði og á sömu blaðsíðu er grein eftir starfsmann Bændasamtakanna, Jón Viðar Jónmundsson, þar sem hann fer mikinn og leynir sér ekki að afstaða hans til málsins er sú sama og samtakanna.

  Jón dregur hvergi af sér og ræðir um „Drauga[r] um hábjartan dag”, en það munu vera að hans sögn, þeir sem vilja sækja um inngöngu í ESB. Þetta er fyrirsögn greinarinnar og gefur vísbendingu um hvað muni á eftir fylgja og ef hún er lesin rekst lesandinn á, svo dæmi séu tekin, fullyrðingar eins og að fylgjendur ESB aðildar telji að „þjóðarinnar bíði nánast tortíming” ef ekki verði gengið í Evrópusambandið. Skömmu síðar hnykkir Jón á því að Bændasamtökin telji íslenskan landbúnað hafa fátt þangað að sækja. Þá hefur hann áhyggjur af að „mikið skorti á lýðræðislega ákvarðanatöku” hjá sambandinu, sem hann telur einkennast af skrifræði og gríðarlegri miðstýringu og er ekki annað en gott eitt um það að segja að starfsmaður Bændasamtakanna hafi áhyggjur af því atriði.

  Í framhaldinu dregur Jón síðan þá ályktun, að ef Ísland gerðist aðili að sambandinu, þá yrði það „arðrændur og vanþróaður útkjálki”, sem hann greinilega telur að ekki sé í dag. Vitanlega má starfsfólk Bændasamtakanna hafa hverja þá skoðun á stöðu þjóðarinnar sem því sýnist, en draga má í efa að þeir séu margir sem taki undir með Jóni hvað þetta varðar. Að minnsta kosti er líklegt að þeir séu til sem telji að þjóðin hafi verið arðrænd og að það arðrán hafi gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að hún sé ekki inna Evrópusambandsins.

  Jón Viðar notar síðan tækifærið til að koma á framfæri aðdáun sinni á Einari Má Guðmundssyni, sem hann telur vera mikinn viskubrunn varðandi uppruna og tilveru sambandsins og upplýsir að þeir félagar telji það ekki vera „Lionsklúbb” og væri fróðlegt að fá að vita hvernig Lionshreyfingin  tengist þessu umræðuefni.

  Í niðurlagi greinarinnar kemst hann svo að þeirri niðurstöðu, að gamlir draugar þjóðarinnar, þau Þorgeirsboli, Skotta og Móri, séu horfin af sviðinu og að í stað þeirra séu komnir aðrir sem heiti Björgvin, Ólína og Árni Páll og verður ekki annað ráðið af textanum en að Jón sakni þeirra eldri og lítist ekki á þá nýju. Hann nefnir Bjarna Harðarson í þessu sambandi, en eins og mörgum er kunnugt er hann mikill fróðleiksbrunnur um verur af öðrum heimi. Ef það er tilfellið að Bjarni hafi komist að því að hinir fornu draugar séu horfnir, þá er ekki gott um það að deila, en víst er að margir landsmenn munu sakna þessara gömlu kunningja og ekki er öruggt að allir sætti sig við hvarf þeirra og er óskandi að Bændasamtökin eigi þar ekki hlut að máli.

  Að starfsmaður samtakanna noti aðstöðu sína til að líkja þjóðþekktum einstaklingum við drauga í blaði þeirra verður að teljast fremur smekklaust. Slíkur málflutningur getur varla talist samtökunum til sóma og er ekki víst að allir bændur kæri sig um að umræðuvettvangur þeirra sé misnotaður á þennan hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þennan pistil Ingimundur.

Þessi umfjöllun Bændablaðsins fór fram hjá mér, enda er blaðið hætt að berast hingarð vestur á firði, því miður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.4.2009 kl. 21:00

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þetta er pistill sem er skrifaður af vélfræðingi.Ég trúi því ekki að þú sert bóndi, ef þú vilt fara leið Samfylkingarinnar með óheftum innflutningi landbúnaðarvara. Samfylkingin er flokkur sem mun ganga af landsbyggðinni dauðri.Og landinu öllu.

Sigurgeir Jónsson, 12.4.2009 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband