Bjargvættur þjóðar?

Guðfinna Harpa Árnadóttir formaður Landsambands sauðfjárbænda, ritar grein í Fréttablaðið til andsvara við grein sem Guðmundur Steingrímsson hafði áður ritað í sama blað.

Lesa má út úr grein Guðfinnu, að sauðfjárrækt er landbúnaður og að íslenskur landbúnaður er sauðfjárrækt og ætti það ekki að koma mörgum á óvart sem þekkja til.

Guðfinna segir sauðfjárræktina vera: ,,samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni" og virðast þau tengsl vera með einhverjum dularfullum hætti og þó ekki, því ferðamennirnir munu hafa smakkað lambakjöt samkvæmt könnun sem framkvæmd var af Icelandic Lamb og niðurstaðan varð sem vænta mátti: að það hefðu margir þeirra gert, þ.e. smakkað.

Nokkuð var fjallað um þessa merkilegu niðurstöðu í Bændablaðinu á sínum tíma og komst ritstjóri blaðsins m.a. að eftirfarandi niðurstöðu í umfjöllun sinni um málið: ,,Engin leið er að segja nákvæmlega til um hver neysla erlendra ferðamanna hefur verið á innlendu alifuglakjöti vegna þess að 11% af heildarsölunni er innflutt kjöt. Ekki frekar en hver neyslan hefur verið á innlendu nautakjöti eða svínakjöti."

Sem sagt ,,engin leið", að komast að því hver neyslan væri á þessum kjöttegundum vegna þess að þær væru líka fluttar inn. Rétt er í þessu sambandi að rifja upp að erlendu ferðamennirnir voru ekki spurðir um neyslu að öðru leyti en því hvort kjötið hefði verið smakkað.

Bændablaðið hélt síðan áfram umfjöllun sinni og upplýsti lesendur um eftirfarandi: ,,Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt."

Það er sem sagt ekki hægt, en er samt hægt! Og tökum nú eftir, að ekki var spurt um þá kjöttegund sem mest er neytt af, það er að segja alifuglakjöt. Líklegt er að í framtíðinni verði þessi könnun notuð sem skólabókardæmi um það hvernig ekki eigi að vinna könnun af þessu tagi.

Það er að segja, ef hún þá verður talin þess virði.

Sauðfjárræktin, sem er til umræðu í greinum Guðfinnu og Guðmundar er í miklum vandræðum. Vandræðum sem stafa af því að enginn markaður finnst sem greitt getur það verð sem þarf fyrir þann þriðjung framleiðslunnar sem er umfram innanlandsþörf og sem er haldið uppi með greiðslum úr ríkissjóði. Treyst er á að ríkissjóður greiði í fyrsta lagi það sem þarf til að varan seljist (beingreiðslur, gæðagreiðslur(!), ullartillegg o.fl.), en einnig það sem þarf til að eitthvað hafist fyrir útflutninginn sem um nokkur ár hefur numið um 1/3 af framleiðslunni.

Annar vandi er síðan undirliggjandi, þ.e.a.s. að framleiðendurnir neita að horfast í augu við vandamálið. Horfast ekki í augu við að of mikið sé framleitt, að erlendir markaðir skili ekki því verði sem þarf. Horfast ekki í augu við að búskaparhættirnir séu úreltir og ekki vænlegir til vinsælda. Að það sé t.d. ekki sjálfsagt, að aðrir girði sig af til að verjast fénaðinum sem þeir búa með en ekki öfugt, og að ekki sé eðlilegt að ríkissjóður sé að styrkja fólk sem stundar búgreinina sem sport en ekki sem atvinnuveg og fái síðan greiðslur úr ríkissjóði jafnt og þeir sem eru að reyna að skapa sér atvinnu af henni og síðast en ekki síst: Að kindum sé haldið til beitar á hálendi sem er að fjúka upp vegna skertrar gróðurþekju (og fleira mætti til telja).

Auðvitað þarf að vera matvælaframleiðsla í landinu, en það er af og frá að hana þurfi að stunda í stórum stíl sem gjafagjörning til útlanda og með dýrategund sem gefur af sér afar litlar afurðir á hverja framleiðslueiningu, fer illa með gróður og helst ekki innan girðinga nema að þær séu af dýrustu og vönduðustu gerð.

Formanns Landsambands sauðfjárbænda bíður það erfiða verkefni að finna farsæla leið til að leiða félaga sína út úr vandanum. En ekki að berjast í því, að halda þeim sem fastast inni í gildrunni sem þeir eru fastir í og vitanlega verða þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl, sem ábyrgð bera á að svo er komið sem komið er, að horfast í augu við stöðuna eins og hún blasir við.

Víst getur sú staða komið upp eins og dæmin sanna, að Ísland einangrist frá umheiminum að einhverju leiti. Sagan sýnir að það hefur gerst, en ef það gerist þá felst lausnin ekki í takmarkalítilli sauðfjárrækt. Málið er mun flóknara en svo.

_ _ _

Að lokum vil ég leyfa mér að birta þessa klippu úr grein Guðfinnu Hörpu til umhugsunar: ,,[...] skautað [er] framhjá flestum rökum fyrir því að styrkja innlenda landbúnaðarframleiðslu [í grein Guðmundar]. [...] rök eins og eflingu atvinnu á Íslandi og þá sérstaklega atvinnu í dreifbýli [...]. Um eða yfir 10 þúsund íslensk störf eru í landbúnaði eða tengd landbúnaði. Þessi störf skila ríki og sveitarfélögum tekjum eins og önnur störf. [...]."

Síðan segir: ,,[...]lambakjötsframleiðsla, er samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni í gegnum metnaðarfulla veitingaþjónustu [...] og er þar með verulega gjaldeyrisskapandi."

Gott væri að fá frekari útskýringu á þessu, þ.e.hvernig lambakjötsframleiðsla verður gjaldeyrisskapandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband