Staðan er tæp, en vonin er eftir

Á CNN.COM sjáum við að það er gott að eiga góða að, þegar á þarf að halda.

Skjámynd 2024-02-03 080707Fjarlægar stjörnuþokur heilla og þegar rætt er um heimsmálin þessa dagana, getur komið upp sú hugdetta, hvort ekki væri betra að sumir leikaranna á stjórnmálasviði heimsbyggðarinnar eins og við þekkjum hana, væru staddir á annarri vetrarbraut!

Slagurinn um forsetaembættið er hafinn í Bandaríkjunum og eins og flestir munu vita, eru það tveir karlar sem berjast um embættið, en báðir eru búnir að máta sig talsvert áður við stólinn sem barist er um.

Báðir eiga þeir sér sögu sem oft hefur verið rakin og það væri einungis til að æra óstöðugan, að draga hana upp einu sinni enn.

Það kostar sitt að berjast til embættis vestur þar og það eru fáir klárar svo illa tamdir að ekki sé hægt að notast við þá í baráttunni um peninga til að fjármagna slaginn.

_ _ _

Ritari fór á óborganlega leiksýningu síðastliðinn laugardag í Borgarleikhúsinu og sá Deleríum Búbonis eftir þá bræður Jón Múla og Jónas Árnasyni sem voru meistarar á sínu sviði.

Undir galsanum og gríninu leynist alvarlegur tónn, þar sem komið er inn á pólitíska spillingu, atkvæðakaup og sitthvað fleira í íslensku samfélagi og það merkilega er, að verkið hefur elst vel og á ekki síður við í dag en það gerði þegar það var samið.

Sumt breytist ekki svo neinu nemi og það gildir um spillinguna.

Hún lifir sínu lífi, ýmist á yfirborðinu og ef hún þrífst ekki þar, þá er hún undir því og ef til vill, er hún svo allt um kring þegar betur er að gáð!

Þannig er það, að spillingin finnur sér leiðir, nærist og blómstrar, hvort sem þjóðfélögin eru lítil eða stór.

Karlarnir tveir sem berjast um völdin í USA eru engir englar og eiga sér fortíð.

Báðir eru búnir að vera forsetar í þessu mikla ríki, þannig að þeir vita hvað það er, að fara fyrir því og hvað undir yfirborðinu leynist.

Annar ,,tamdi" Putin og Kim eða öfugt og hinn glímir við að temja hundinn sinn og gengur það svo illa að hann, þ.e.a.s. hundurinn, var komin í einhverskonar ,,fjarvist" þegar síðast fréttist.

Báðir vilja temja heiminn, en hvorugur vill temja sjálfan sig og það eru þessir kostir sem bandarískir kjósendur koma til með að standa frammi fyrir.

Verði þeim að góðu, allra hluta vegna og vonandi ber heimsbyggðin ekki skaða af, hvor sem fyrir valinu verður.

Staðan er tæp, en vonin er eftir.


Bloggfærslur 11. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband