Þegar vonin ein er eftir

Þau okkar sem áhuga hafa á stjórnmálum og stjórnmálaumræðu hafa undanfarin missiri getað fylgst með hvernig formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt sig í líma við að niðurlægja bæði sjálfa sig og ekki síður flokka sína. Engu er líkara en þeim finnist alls ekki nægjanlegt að hafa náð þeim árangri sem við öllum blasir varðandi þjóðina, heldur skal nú áfram haldið og flokkar þeirra niðurlægðir sem mest má verða líka.

 

Vonbrigði flokkssystkina vegna þessa háttalags eru auðvitað mikil sem vonlegt er og auðfundið á þeim, að ekki er ánægjunni fyrir að fara yfir hvernig þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Benidiktsson ganga fram. Einkanlega er þetta hinum almennu flokksmönnum erfitt þar sem þeir eru ekki í mjög sterkum tengslum við hina, að því er virðist, veruleikafirrtu elítu í kringum formennina.

 

Ýmis teikn eru á lofti sem benda til að almennum flokksmönnum og kannski einkum hinum sómakærari hluta þeirra finnist nóg komið af upphlaupum og rugli. Þorsteinn Pálsson skrifar til að mynda grein í Fréttablaðið sem varla verður skilin öðru vísi en svo að um ákall og brýningu sé að ræða, að Sjálfstæðisflokkurinn fari nú að finna sig og hætta strákslegum upphlaupum sem engu þjóna, nema þá ólund öfgaarms flokksins sem nú um stundir virðist fá sína innspýtingu frá Hádegismóum. En segja má að hrunleiðangur sá sem lagt var upp í með hina íslensku þjóð hafi hafist er sjálfstæðismenn skiptu Þorsteini Pálssyni út fyrir þann sem þar er kominn út í móa, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Þeir voru hins vegar ekki einir í þeim leiðangri og eins og allir vita þá dinglaði Framsóknarflokkurinn trúr og dyggur með og gætti þess eins, að nægir molar féllu af nægtaborðinu til sinna eigin flokksgæðinga.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er eins engan veginn einn flokkur og sagan sýnir að hann getur átt það til að skiptast upp í frumparta sína ef fólk þar á bæ kemur sér ekki saman um hina einu sönnu pólitísku línu. Þá hefur það einnig blasað við hve hjarðhegðunin og foringjadýrkunin hefur ætíð verið rík hjá þeim. Enda er flokkurinn er vitanlega ekki stjórnmálaflokkur í neinum venjulegum skilningi, heldur hagsmunaklíka sem heldur oftast saman vegna þess að elítan í flokknum veit hvað er í húfi ef það gerist ekki. Því er það, að þó hann hafi af og til klofnað þá hefur það ekki enst nema tiltölulega stutt, því það sem límir saman er sterkara en hitt og því miður fyrir þjóðina þá er ekki um að ræða hugsjónabaráttu né einlægan áhuga á bættum þjóðarhag. Hagurinn er annar og flokknum er fyrst og fremst haldið uppi til að gæta hagsmuna hins skammsýna og spillta íslenska auðvalds og í bland, flaðra upp um erlenda stórkapítallista og nægir þar að nefna undirlægjuháttinn gagnvart Bandaríkjunum.

 

Framsóknarflokkurinn er af sama toga spunninn, þó rótin sé að ýmsu leiti önnur. Flokkurinn hefur þróast í að verða hagsmunagæslubandalag ákveðinna peningaafla sem hér áður fyrr voru kennd við smokkfisk þegar þau öfl sem Sjálfstæðisflokkurinn studdi lengst af voru kennd við kolkrabba.

 

Fylgi þessara flokka hefur verið furðu mikið enda áróðursmaskínur þeirra fremur öflugar og nægir í því sambandi að nefna bull  eins og ,,báknið burt” og „Ísland án eiturlyfja  árið 2000”. Hið fyrra er gamalt slagorð Sjálfstæðisflokksins, en hið síðara frá framsóknarapparatinu komið. Þetta hefur gengið furðu vel í þjóðina en nú er útlit fyrir að það geti breyst, því svo er að sjá sem formennirnir þeir Bjarni og Sigmundur, hafi tekið þá ákvörðun að ganga endanlega frá flokkunum og nægir í því sambandi að minna á furðulega framkomu Sigmundar í Noregsdellunni sem hann og Höskuldur félagi hans sviðsettu á dögunum.

 

Það er vitanlega bara gott og ánægjulegt ef þeim tekst að sýna þjóðinni fram á hve holir að innan flokkarnir tveir eru og hve illa þeir yngdust upp í síðustu kosningum og mun það væntanlega leiða til þess að þeir veslist í framhaldinu upp og verði þeir aumu smáflokkar sem þeir ættu með réttu að vera ef haft er í huga fyrir hvað þeir standa og ekki síður fyrir hvað þeir standa ekki.

 

Flokkarnir og þó einkum Sjálfstæðisflokkurinn hafa ætíð látið sem að þeir séu þjóðin og allt sé í hers höndum ef þeir halda ekki um valdataumana. Það er regin misskilningur og þvert á móti er það þannig að þegar þeir sitja að völdum þá er allt í hers höndum, eins og dæmin sanna. Hagsmunir flokkanna tveggja og íslensku þjóðarinnar fara nefnilega ekki saman.

 

Hermangið þjónaði ekki hagsmunum þjóðarinnar og ekki heldur kvótaúthlutunin í sjávarútvegi og landbúnaði, sem færð hafa verið rök fyrir að markað hafi upphafið að því sem að lokum endaði með hruninu. Einkavinavæðingin gerði það ekki heldur og helmingaskiptin þaðan af síður. Úthlutanir embætta til flokksgæðinga flokkanna tveggja þjónuðu ekki þjóðarhag, það hefur vitanlega alltaf verið dagljóst og íslensk þjóð sýpur nú m.a. seyðið af þeim gjörningum.

 

En hvers er ábyrgðin á að þessi ólánsöfl hafa svo lengi farið með völdin í samfélaginu? Íslensku þjóðarinnar? Varla, svo einfalt getur það ekki verið. Ábyrgðin hlýtur að verða að skrifast á reikning þeirra sem þráðinn spunnu, áróðursmeistara flokkanna sem með blekkingum, ósannindum og fláræði hafa haldið því að fólkinu í landinu að allt færi á verri veg ef ekki væri tryggt að þeir héldu völdum. Hver kannast ekki við kenninguna um glundroðann til vinstri, sem því miður er ekki bara kenning, heldur staðreynd. En hvers vegna?  Ætli a.m.k. hluti skýringarinnar sé ekki að íslenskir vinstri menn eru alltaf að leita. Leita að hinu eina sanna ljósi, sem vitanlega verður aldrei fundið, einfaldlega vegna þess að það er ekki til og það er það sem vinstri menn verða að fara að horfast í augu við, leitin sú tekur engan enda og mun vara að eilífu og þannig á það að vera. Það er það sem er frjótt og nærandi í stjórnmálunum, að ekkert sé gefið, lokaniðurstaðan sé rétt handan við hornið og er fyrir það er komið tekur bara við ný leit, því verkefnin hætta aldrei að verða til.

 

Eigi stjórnmálaumræðan að vera einhvers virði, verður hún að vera skautuð og að í því felist að tekist sé á, á grundvelli hugsjóna og þá er komið aftur að því ástandi sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum. Eins og málum er komið núna þá er hverjum manni ljóst að umræðan er ekki á þeim grunni byggð, nema þá á vinstri kantinum að svo miklu leiti sem hún getur blómstrað þar, þegar ekkert eða a.m.k. afar lítið mótvægi er hinum megin frá. Því er það svo nauðsynlegt að upp rísi stjórnmálaafl til hægri sem vinstri menn geta rætt við og tekist á við. Það skortir tilfinnanlega núna vegna þess hvernig komið er fyrir hægri flokkunum. Þar með er alls ekki verið að segja að innan þeirra hafi ekki verið og jafnvel séu sannir hugsjónamenn með framtíðarsýn, en þeim er haldið niðri, þeir njóta sín ekki og sjónarmið þeirra eiga erfitt uppdráttar. Væntanlega gerist það samt sem áður innan tíðar að það breytist, enda brýn nauðsyn ef eðlilegt og heilbrigt stjórnmálalíf á að ná því að þróast.

 

Það ástand að tveir hagsmunagæsluflokkar, öðrum stjórnað frá Hádegismóum og hinum að því er virðist alls ekki stjórnað séu einir um að veita stjórnarandstöðu, ómálefnalega og niðurrífandi er óþolandi. Íslenska þjóðin á, þrátt fyrir allt, annað og betra skilið og neyðarlegt er það að í raun voru það sjálfstæðismenn sem leiddu VG til valda. Sá Sjálfstæðisflokkur sem í boði er í dag er reyndar alls ekki eins langt frá VG og þeir láta í veðri vaka, því flest öll afturhaldssjónarmiðin eru þau sömu í báðum flokkum. Minnimáttar- kenndar- knúin þjóðernisrembingur sem ekki felur eitt eða neitt í sér annað en afturhald, íhaldssemi og heimóttarskap, allt það sem íslensk þjóð þarf síst á að halda í núverandi ástandi.

 

Báðir hafa flokkarnir líst yfir einarðri andstöðu við að gengið sé til samstarfs við ESB þrátt fyrir að hugsandi fólk innan þeirra raða viti sem er að hjá því verður ekki komist ef búa á nýjum kynslóðum sambærileg lífskjör og gerast í nágrannalöndunum. Það er allt að því tilræði við það fólk sem á eftir kemur að því sé ekki búið í haginn með inngöngu í ESB, það er að segja ef viðunandi samningar nást þar um. Samt berja bæði VG og Sjálfstæðisflokkurinn höfðinu við steininn og gera sem þeir geta til að hindra eðlilegan framgang þess máls og þar eru þeir að reyna hið vonlausa: að róa og spekja öfgaöflin innan sinna raða, fólkið sem engum rökum tekur, hvorki núna né í fyrirsjáanlegri framtíð.

 

Þorsteinn Pálsson heldur því fram í grein sinni að nú ríði á að þjóðin standi saman um að koma brýnustu málum í höfn. Undir það hlýtur allt sæmilega þenkjandi fólk að geta tekið og því er svo nauðsynlegt að stjórnarandstaðan láti af innantómum málflutningi og horfist í augu við að það vorum við sjálf sem komum okkur í þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það voru ekki útlendingar, heldur íslenskir einkavinir sem fyrir útrásinni stóðu, ráni á erlendu sparifé og kaupum hver í öðrum með loftbólufé og bókhaldsblekkingum. Íslenskt eftirlit brást bræði af hálfu stjórnvalda og til þess gerðra eftirlitsstofnana.

 

Við héldum að við værum rík, glöð og snjöll og dönsuðum hrunadansinn í kringum gullkálfinn þar til yfir lauk og verðum nú að súpa af því seyðið. Ekki væri nú verra ef við gætum lært eitthvað af þessu öllu saman, vonin um það er þó alltaf eftir og rétt að halda í hana meðan hægt er.

P.S.

Ágætu lesendur og bloggvinir, ég hef ákveðið að flytja mig um set a.m.k. að sinni og er sestur að á http://blogg.visir.is/ingimundur/ . Ég þakka ykkur ánægjuleg samskipti og mun eftir sem áður reyna að fylgjast með skrifum ykkar, en sem sagt ef þið hafið áhuga á að lesa mínar hugrenningar þá verð ég þarna með þær.

Kærar kveðjur og gangi ykkur allt í haginn.

Ingimundur Bergmann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Ingimundur, æfinlega !

Þú gast nú látið vera; að vitna í þöngulinn Þorstein Pálsson, búhöldur góður.

Hygg; að flestir þingmanna Sunnlendinga, hafi verið líflegri, á sínum ferli, en sá andskotans drabbari - og; er þá mikið sagt.

Um leið; og þér skal þökkuð viðkynningin hér - þó; hún eigi vonandi eftir að verða lengi enn, í rauntíma okkar Ingimundur (er enn, á leiðinni, að Vatns enda), vil ég árna þér allra heilla, á þínum nýja verustað, í vefheimum.

Sjálfur; mun ég þrjóskast eitthvað enn, hér á Mbl. vefnum. Þeir fleygja mér þá bara út fyrir, Hádegis móa menn (Mbl./Rauðvetningar), blöskri þeim frekar, hreinskilni mín.

Þeir náðu jú, að aftengja frétta gluggann, við mig, í Maí 2008 - en,.... urðu skömmustulegir, þegar ég benti þeim á Kringvarp Færeyja (www.uf.fo), ásamt fjölda annarra miðla - hverra; ég gæti til vitnað, þá mér hentaði.     

Með beztu kveðjum; austur yfir fljót /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband