5.10.2009 | 13:25
Misjafnt þeir hafast að...
Það er fundað myrkranna á milli í Istanbul. Steingrímur J. sem fram til þessa hefur verið kallaður ,,á móti" af sumum hér á Fróni einhendir sér nú í það að vinna þjóð sinni gagn og reyna að ná fram hagstæðri niðurstöðu í deilumálin sem flest má rekja til icesave málsins. Það er dálítið annað en segja má um mörg af flokkssystkinum hans, þau eru ekkert sérstaklega í því að leggja sig fram við að vinna að lausn þessarar ömurlegu deilu. Þau eru, að því er þau telja, í stríði og vegna þess hve þeim þykir gaman að berjast þá er ekki bara ein þjóð undir í stríðinu því, nei það dugar ekkert minna en nær allur heimurinn. Dugnaðarfólk og hugumstórt, sést ekki fyrir, en það gerir ekkert til því þau telja sig hafa hugsjónir að verja.
Að þau hafi hugsjónir að verja er hins vegar á misskilningi byggt því í raun eru þau bara og einfaldlega föst í gamla farinu: Andstöðuergelsinu. Steingrímur hefur hins vegar áttað sig á því að nú er annað og meira í húfi, nefnilega ekkert minna en líf og sjálfstæði þjóðarinnar í þeirri mynd sem við viljum flest upplifa þau hugtök. Því er hann maður að meiri að geta fleygt kreddunum aftur fyrir sig og einhent sér í það að vinna þjóð sinni gagn og ekki er laust við að hægt sé að finna til með honum að hann skuli ekki fá þann stuðning, sem hann þarfnast svo sárlega, frá fólkinu sem hann hefur verið í forystu fyrir.
Enginn þarf að undrast þó hrunflokkarnir láti öllum illum látum og geri sem þeir geta til að vinna núverandi stjórnarsamstarfi tjón. Þeir eru einfaldlega þannig settir núna að þeir finna sig ekki á hinum pólitíska leikvangi. Þeirra tilgangur hefur árum og áratugum saman verið sá einn að stunda hermang, Kanaþjónkun og helmingaskipti; hugsjónir eiga þeir engar aðrar en þær að gramsa til sín sem mest af auði þjóðarinnar. Nægir að nefna kvótakerfið og einkavinavæðinguna í nútíð og hermangið í fortíð í því til sönnunar.
Óskandi er að hinum ráðvilltu, svo ekki sé sagt trylltu, stjórnmálamönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks takist ekki að eyðileggja það sem nú er verið að reyna að byggja upp eftir hrunið sem þeir leiddu yfir íslensku þjóðina.
Stíf fundahöld í Istanbúl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.