Bragð er að...

Í dag er víst óhætt að segja að stund sé til að gleðjast. Stigið hefur verið eitt lítið skref fram á veginn, lítið skref, en samt svo erfitt fyrir marga. Ástæður þess eru margvíslegar, ein er að margir sjá í ESB skrifstofubákn, fjarlægt og fráhrindandi, sem voma muni yfir helstu og bestu auðlindum íslensku þjóðarinnar. Þá finnst þeim hinum sömu að inngöngu í bandalagið fylgi afsal á sjálfstæði þjóðarinnar og þeir sem lengst ganga segja sem svo að þar með afsölum við okkur fullveldinu. Þeir hinir sömu leiða örugglega sjaldan, ef þá nokkurn tíma hugann að því, er þeir eru á ferð um Evrópulöndin, að þau séu þjökuð af ófrelsi, enda ber ekki á því; svo er að sjá sem þar séu stoltar þjóðir sem uni glaðar við sitt. Lítið ef þá nokkuð ber á ófrelsi og ekki er svo að sjá að minnimáttarkenndin geri menn dapra á þeim slóðum, öðru nær.

 

Aðrir eru þeir sem hamast gegn öllum hugmyndum um inngöngu í Evrópusambandið er gera það af allt öðrum hvötum, hvötum sem ekkert eiga skylt við þær rómantísku tilfinningar sem hér áður var fjallað um. Hvatirnar sem þar um ræðir eru kenndar við eigingirni, græðgi og óbilgirni. Þar eru menn fyrst og fremst að hugsa um eigin hagsmuni, algjörlega fyrir utan og ofan raunverulega hagsmuni þjóðar sinnar. Þetta eru öflin sem fyrst og fremst ber að varast að taka mark á í umræðunni; sömu öflin og ráðið hafa ríkjum í íslensku samfélagi um áratugi, öflin sem sölsað hafa til undir sig auð þjóðarinnar bæði seint og snemma. Fulltrúar þessara aðila koma ýmist fram í eigin nafni eða þá félagasamtaka og veifa oftar en ekki röngu flaggi og tala fals eitt.  Þetta eru þeir hinir sömu og hafa tamið sér boðorðið: Borgum ekki; laun né annað, nema algjörlega tilneydd. Blaðagrein eftir einn slíkan mátti lesa í Morgunblaðinu nýlega. Þar lagði hann til að þjóðin tæki ekki á sig ábyrgð af gjörðum þeirra sem stofnuðu til margnefndra Icesave reikninga Landsbankans.

 

Í þessum flokki eru þeir sem hæst hafa nú um stundir varðandi það að nú vanti tilfinnanlega hinn sterka leiðtoga, einhvern sem geti talað kjark í þjóðina. Þeir hinir sömu forðast hins vegar eins og heitan eldinn að nefna dæmi um slíkar gersemar í mannflórunni, enda ekki nema von. Því vita má að þeir eru ekki með í huga svo dæmi sé tekið Gandhi né Mandela. Líklegra er að þeir séu með í huga ýmsa aðra fallna leiðtoga, leiðtoga sem mænt hefur verið til líkt og þegar trúir hundar horfa upp til húsbænda sinna með þeirri takmarkalausu aðdáun og trygglyndi sem þeim einum er lagið.

 

En lengra nær þessi samlíking ekki, því hundurinn er dýr en ekki maður.  Því er það, að gera verður meiri kröfur um gagnrýna hugsun til manna, nokkuð sem svo dæmi sé tekið, forstjóra N1 sést yfir og hann er alls ekki einn um það. Við Íslendingar höfum reynt á eigin skinni  hvernig slík trúfesta og leiðtogadýrkun getur leitt og horfum nú um stundir framan í afleiðingar slíkrar hegðunar. Óskandi er að þeir tímar séu liðnir að stór hluti þjóðarinnar hugsi á hinn hundslega hátt og að í hönd fari tímar þar sem fólk hugsar sitt og þorir að stíga fram með skoðanir sínar. Það er löngu komið nóg af hinu.

 

Tilefni þessa pistils, sem nú er rétt að koma að, er athugasemd í umsögn Seðlabanka Íslands þar sem ekki verður betur séð en að bankinn leggi eindregið til að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki verði haldið utan við hagstjórn samfélagsins okkar til a.m.k. ársins 2018. Bankinn leggur nefnilega til að beitt verði: skynsamlegri hagstjórn.

 

Bragð er að þá barnið finnur.


mbl.is Yfirlýsing forsætisráðherra um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Blöndal

Ofdekraðir ESB andstæðingar á moggablogginu
http://pallblondal.blog.is/blog/pallblondal/entry/918743/

Páll Blöndal, 23.7.2009 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband