12.7.2009 | 14:24
Léttleiki fáránleikans
Margir muna eflaust eftir persónunni úr Spaugstofunni, sem var svo illa haldin og treg að af og til þurfti að slá hana í horfið. Hún átti til að þagna, t.d. í miðri setningu, og þá var brugðið á það ráð að gefa henni léttann kinnhest og við það hrökk hún í gang og ef vel tókst til þá lauk hún setningunni, en aldrei leið samt langur tími áður en hún fraus aftur.
Önnur ógleymanleg persóna er úr kvikmyndunum um Bleika pardusinn, mig minnir að persónan sú hafi verið látin heita Dreyfus, eða eitthvað í þá áttina og þannig var komið fyrir honum að hann var við það að ganga endanlega af vitinu og sá sem bar ábyrgð á því var Clausou (vafalaust vitlaust skrifað en kemur varla að sök) sem leikinn var af Peter Sellers.
Af einhverjum ástæðum koma þessar fígúrur í huga minn er ég fylgist með þingmönnum Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna þessa dagana. Sjálfstæðismenn eru svo fastir í aukaatriðunum að furðu sætir, sjá ekki skóginn fyrir trjám og rótast ekki frá þeirri firru sinni að kjósa skuli um hvort sækja eigi um aðild að ESB og sést greinilega yfir þann möguleika að kjósa fyrst um hvort kjósa skuli um að kjósa og kjósa síðan aftur um það..... Já, endaleysan í málflutningi þeirra er algjör. Þetta er fólkið sem hefur mestar áhyggjur hvað samningaferlið kosti, en man einhver eftir að þau hafi æmt yfir milljörðunum sem farið hafa í íhaldsfyrirtækin að undanförnu, til að geta haldið þeim gangandi eftir að allt fór til heljar, eftir einstaka hagstjórnarsnilli Sjálfstæðisflokksins.
Varðandi Vinstri Græna: Hefur einhverjum dottið í hug að þau að þau gætu staðið saman um nokkurn skapaðan hlut, annað en það að vera á móti, helst öllu alltaf og ævinlega. Það er að minnsta kosti augljóst að það tekur í hjá þeim sumum að þurfa allt í einu að vera ábyrg. Ábyrgt fólk lendir nefnilega oft í þeirri aðstöðu að þurfa að skipta um skoðun, horfast í augu við raunveruleikann og taka afstöðu eftir þvi sem hann segir, en ekki eftir tilfinningunum, hversu góðar sem þær annars eru.
Hjáseta kann að ráða úrslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.