Kvótasukk í sveitum?

„Bændablaðið” er gefið út af Bændasamtökum Íslands, dreift inn á öll bændabýli landsins og til fjölmargra annarra er tengjast landbúnaði. Blaðinu er dreift ókeypis til þeirra sem stunda búskap, en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur. Kostnaður af útgáfu blaðsins fellur sem sagt á Bændasamtökin og kostnaðurinn af Bændasamtökunum fellur á þjóðina með óbeinum hætti og því má með nokkrum rökum halda því fram að blaðið sé gefið út á kostnað hennar. Það munu á sínum tíma hafa verið svokallaðir „Bændasynir” með Bjarna Harðarson í broddi fylkingar sem komu útgáfunni af stað, gerðu það af miklum metnaði og lögðu sig fram um að blaðið væri hið vandaðasta.

 

Blaðið sem út kom síðastliðinn fimmtudag (11. júní 2009), er um margt athyglisvert. Í því kemur afar vel fram hvernig það hefur þróast frá því að vera faglegt og fræðandi, yfir í að vera málgagn ákveðinna sjónarmiða, sem vel að merkja, eiga nokkru fylgi að fagna innan bændahreyfingarinnar, en ekki er það þó þannig að allir bændur séu inn á þeirri línu sem blaðið fylgir. Hitt mun vera nær sanni að það séu einkum þeir sem fylgja stefnu Vinstri grænna ásamt „Heimssýn” og slíkum samtökum sem það gera.

 

Í blaðinu kemur fram ýmis fróðleikur að vanda, en  það sem hér verður fjallað um er nokkuð sem ekki er mikið rætt um  þessa dagana, þrátt fyrir mikla umræðu um kvótamál, því sú umræða hefur nær eingöngu snúið að því braski sem átt hefur sér stað með kvóta í sjávarútvegi og þá gleymist oft, að hliðstætt kerfi er í landbúnaði. Kerfi sem getið hefur af sér ójöfnuð og spillingu, þó í minna mæli sé.

 

Í því eintaki Bændablaðsins sem áður er getið, má finna um þetta skýr dæmi. Þar er, svo dæmi sé tekið í auglýsingu, boðið upp á að „hirða beingreiðslurnar fyrirhafnarlaust”, ef menn vilji selja kýrnar en eiga kvótann. Þá er einnig boðin staðgreiðsla fyrir mjólkurkvóta, óskað eftir 50 000 lítra mjólkurkvóta og greiðslumarki af bæði framleiddu og óframleiddu í mjólk. Þá hefur stundum áður verið auglýst eftir sauðfjárkvóta, ýmist til sölu eða kaups.

 

Auglýsingin um að „hirða beingreiðslurnar fyrirhafnarlaust” styður undir þær sögusagnir að til séu dæmi um fólk sem situr heima á búi sínu og tekur við svokölluðum beingreiðslum fyrir framleiðslu, sem engin er, en það fær greidda reglulega frá hinu opinbera. Ef rétt er, þá er að mörgu leiti um að ræða kerfi sem er hliðstætt því sem gerist í sjávarútveginum, þ.e. þegar kvótaeigandinn situr á sínum rassi og tekur við greiðslum frá þeim sem nýtir réttinn. Að því leitinu til öðruvísi samt, að þar koma opinberir sjóðir ekki með beinum hætti að málinu, því það er leigjandinn sem greiðir leiguna.

 

Þegar kvótakerfinu var komið á í landbúnaðinum var verið að mismuna landeigendum á grímulausan hátt; sumar jarðir gerðar verðmætar á kostnað hinna sem voru gerðar verðlausar eða verðlitlar og tónar það afar vel við kvótakerfið í sjávarútvegnum, kerfi sem býður upp á spillingu og er frá upphafi með öllu siðlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband