12.5.2009 | 23:55
Fenið og afrekin
Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði landinu í 18 ár. Allan þann tíma fór hann með stjórn efnahagsmála og tíminn var notaður til að búa til það samfélag sem við horfumst núna í augu við. Ekki svo að skilja, að þau hafi ætlað sér að koma öllu norður og niður, nei öðru nær. Ætlunin var að skapa fjármálamiðstöð N- Atlantshafsins, ekkert minna en það og gera átti þetta með aumlegu afbrygði af frjálshyggjustefnu sem prufukeyrð hafði verið í ýmsum þeim ríkjum til dæmis í S- Ameríku, sem við flest viljum ekki láta líkja Íslandi við.
Stoltið var ekkert, hrokinn algjör og yfirgangurinn nánast ótakmarkaður. Búin var til umgjörð sem ævintýramenn gátu notað til að maka krókinn og flytja síðan auðinn úr landi. Fyrrverandi formanni Flokksins var plantað inn í innsta hreiðrið í Seðlabankanaum til að þar gæti hann verið eins og kónguló í vefnum miðjum; deilt og drottnað og ef einhver vogaði sér að segja frá því að keisarinn væri nakinn var hann annaðhvort rekinn eða stofnun sú sem hann vann hjá lögð niður.
Þetta, þennan óskapnað kaus þjóðin yfir sig hvað eftir annað í frjálsum kosningum og fróðlegt væri að fá upplýsingar um hve stór hluti þeirra, það er, sem hæst vælir, heimtar og krefst, sem krefst þess, svo dæmi sé tekið, að lán séu einfaldlega þurrkuð út, með því að velta skuldunum yfir á lífeyrissjóðina.
Vandinn sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir er ekki geðslegur og við erum æði mörg sem með einum eða öðrum hætti berum ábyrgð á því hvernig komið er og það er ekki að furða þótt hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins sé orðinn hátóna í viðtölum, enda skynsamur maður og áttar sig eflaust á því hvernig allt þetta hefur orðið til. Hvernig auvirðilegur undirlægjuháttur gerði forystu Flokksins kleyft að teyma þjóðina út í fenið, en þangað erum við komin og orðin stefnu Flokksins að bráð.
Vonandi er að hin nýja vinstristjórn reynist betur, raunar hæpið að hún geti reynst ver og auglýsingamennskan sem höfð var í frammi til Þjónkunar Steingrími í dag er hreinustu smámunir miðað við Sjálfstæðis- Framsóknar íhaldið sem áður ríkti.
Vítin eru til að varast þau, vonandi hafa menn það í huga.
Skuldir ríkisins langt yfir viðmiðunum ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.