23.4.2009 | 16:55
„...kátt í (bænda)höllinni...”
Í Bændablaðinu sem kom út 22. apríl er athyglisverð frétt, frétt sem fjallar um 250 milljónir króna. Telst ef til vill ekki stór upphæð, nú á dögum, þegar eingöngu virðist vera rætt um milljarða. Um er að ræða málefni sem upp kom á Búnaðarþingi, en einhverjum þar datt í hug sú snilldarlausn á vanda bænda varðandi kaup á áburði, að nota fjármuni Bjargráðasjóðs til þeirra kaupa. Nú er sem sagt komin niðurstaða í málið, það er komið í höfn og í lausninni felst, að nota sjóðinn til áburðarkaupa.
Talsmenn þessa gjörnings geta nú tekið gleði sína, þeim hefur orðið að ósk sinni, nú er sjóðurinn ekki notaður til að bæta tjón sem hefur orðið, heldur tjón sem ef til vill og kannski getur átt sér stað. Stundum er sagt: Þú tryggir ekki eftir á. Kjörorð Bjargráðasjóðs hér eftir gæti hljóðað eitthvað á þessa leið: Þú tryggir fyrirfram, samtímis og eftirá, því að þessu áburðarkaupa- framlagi viðbættu er komin alveg ný vídd í tryggingastarfsemi hans.
Tilgangur sjóðsins hefur fram til þessa verið sá að bæta tjón sem orðið er, en nú ber nýrra við, nú skal bætt tjón sem ekki er orðið og hlýtur það að teljast nokkur nýlunda í tryggingarstarfsemi og fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þessi nýjung verður almennt tekin upp á sviði trygginga. Það má til að mynda hugsa sér að er önnur aðföng hækka í verði, eins og nýleg dæmi eru um, þá kæmi sjóðurinn til hjálpar og tæki kúfinn ofanaf. Margt mætti til telja í því sambandi s.s. hækkun vaxta af lánsfé, olíu, rafmagni, vélum, fóðri, launum og þannig mætti áfram telja, nánast út í hið óendanlega.
Samkvæmt frétt blaðsins eru þessar framvirku tryggingabætur háðar því að væntanlegur tjónþoli hafi greitt til sjóðsins, ákvæði sem ekki hefur alltaf þótt nauðsynlegt að hafa í heiðri er bætur hafa komið til greiðslu úr honum og er ekki annað en gott um það að segja að ætlunin sé að sú regla verði framvegis í heiðri höfð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.