4.9.2025 | 09:11
Ástandið á Gasa
Nokkrir miðlar segja frá ástandinu sem er á Gasa svo sem The Guardian og NRK og hið íslenska Rúv og á myndunum sem fylgja fréttunum, sést að ekki er orðum aukið að ástandið sé skelfilegt.
Forseti Bandaríkjanna hefur tjáð sig á þann veg að hreinsa þurfi svæðið af íbúunum sem þar eru svo hægt verði að gera það að sólarparadís fyrir þá sem þess óska.
Hvort hernaður Ísraels gegn almennum borgurum svæðisins stjórnast af þeim orðum, verður ekki fullyrt hér, en sé það markmiðið þá er hvorttveggja óhugnanlegt þ.e. að firring hins ríka geti verið slík að honum þyki sjálfsagt að fórna heilli þjóð fyrir lúxus og letilíf hinna ríku og eins að þjóðin sem til stóð að útrýma í vitfirringu seinni heimstyrjaldar skuli sjálf standa fyrir því sama.
Líka að viðkomandi finnist svo sjálfsagt að vanvirða lifandi manneskjur fyrir ríka fólkið, að nánast öllu sé fórnandi fyrir fyrir lúxusinn; mannslífum og hverju sem er til að ná því fram sem hinn ríki óskar sér!
Á þessum vettvangi verður ekki farið í að upphefja Hamas og framferði þeirra en óhætt er að segja að líkur sæki líkan heim og hinar fólskulegu árásir á ísraelska tónleikagesti, sem munu vera hið yfirlýsta upphaf helfarar Ísraels gegn Palestínumönnum, verða ekki upphafnar á þessum vettvangi.
Upphaf þessa máls má rekja til þess að Gyðingum var úthlutað landi af alþjóðasamfélaginu eftir seinni heimstyrjöldina, sem er gjörningur sem má hafa ýmsar skoðanir á en eins og við vitum gleymdist að taka tillit til þess að á svæðinu býr fólk.
Gyðingar fluttust til landsins og yfirtóku gjarnan lönd þeirra sem fyrir voru og hafa verið allt til þessa en nú er svo komið að flestum finnst sem meira en nóg sé og samúðin er ekki almennt með gyðingum svo fundið verði.
Með einni undantekningu sem nefnd ver hér í upphafi, því þar virðist samúðin vera óþrjótandi og stuðningurinn eftir því.
Nágrannalönd hafa reynt sum hver að blanda sér í átökin með frekar litlum árangri og hafi hann verið einhver, þá grípur stóra mamma inn í og lætur viðkomandi finna fyrir því.
Flutningaskip hafa þurft að forðast Suesskurðinn vegna ófriðarins og neyðst til að sigla suður fyrir Afríku með tilheyrandi kostnaði og olíubrennslu, sem umhverfisvæningar virðast hafa litlar áhyggjur af.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning