17.7.2025 | 09:44
Flutningar með skipum eða bílum
Í Bændablaðinu rekst ritari á grein um flutninga, annarsvegar á landi og hins vegar á sjó.
Myndin sýnir flutningaskip fá Eimskip.
Það hefur lengi verið áhugamál ritara að siglingum umhverfis landið verði haldið áfram og að þar með yrði haldið áfram að flytja vörur til og frá landsbyggðinni með skipum eins og gert var og er enn.
Man hann þá tíð af eigin reynslu, að strandsiglingar voru stundaðar af tveimur skipafélögum.
Skipafélögum sem hann starfaði hjá báðum, á sínum tíma.
Flutningunum var hagað þannig, að siglt var með vörur frá Reykjavík vestur um og allt til Þórshafnar, með viðkomum í hafnir eftir því sem þörf krafði.
Á leiðinni til Reykjavíkur eftir að snúið hafði verið við eftir t.d. viðkomu í Þórshöfn voru síðan teknar vörur í höfnum á heimleiðinni, sem koma þurfti til Reykjavíkur í veg fyrir millilandaskipin.
Gámar voru notaðir bæði fyrir t.d. frosnar fiskafurðir og kældar en einnig fyrir aðrar vörur, sem ekki þörfnuðust kælingar eða frystingar.
Félögin sem um ræðir voru annarsvegar Eimskip og hins vegar Samskip og bæði voru þau með skip í siglinum annarsvegar vestur og norður um og hins vegar suður og austur um, frá og til Reykjavíkur.
Vörur voru fluttar til landsbyggðarinnar og framleiðslan sem oftast var frysti eða kælivara var flutt frá landsbyggðinni til Reykjavíkur í veg fyrir skipin sem voru í millilandasiglingunum, skipin sem skiluðu þeim síðan til erlendra hafna.
Það segir sig sjálft að þessar siglingar léttu miklu álagi af vegakerfi landsins og því er ekki gott til þess að vita, að til standi að draga úr strandsiglingunum.
Getur verið að ástæðan sé, að framleiðendur á landsbyggðinni kjósi heldur landflutninga?
Gera má ráð fyrir að flestum sé ljóst að sjórinn sem víkur undan skipinu er fljótur að falla aftur í sama far!
Það gera vegirnir hins vegar ekki og þeim þarf að halda við, með ærnum kostnaði í stóru landi og strjálbýlu.
Þegar þungur og lestaður flutningabíll fer um vegi lætur slitlagið sem oftast er ,,klæðning" undan með tímanum og að lokum fer svo, að vegurinn og vegstæðið gefur sig sé það ekki því betra.
Af þessu dregur ritari þá ályktun að það sé nauðsynlegt að strandsiglingarnar haldi áfram og að það sé öllum til hagsbóta.
Það breytir ekki því, að vinna þarf stöðugt að því að endurbæta á vegakerfi landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning