12.7.2025 | 18:29
Átökin á Alþingi og umræðan endalausa
Það var gerð sú krafa undir lokin á samningum af hálfu minnihlutans að það væri ekki hægt að afgreiða nein önnur mál fyrir þinglok fyrr en það yrði samið um veiðigjaldið á forsendum sem við gátum ekki gengið að, segir Kristrún."
Textinn hér fyrir ofan er tekinn úr umfjöllun Ríkisútvarpsins og myndin er þaðan líka.
Það þarf ekki að orðlengja það, að ástandið í þinghúsinu við Austurvöll hefur verið meira en sérstakt að undanförnu og þjóðin hefur getað fylgst með og undrast.
Ekki virðist fara milli mála að núverandi stjórnarandstaða er í erfiðleikum og erfiðleikarnir felast í því að þurfa að sætta sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga.
Og til þess að ,,sanna" sig völdu þau ,,veiðigjaldafrumvarp" ríkisstjórnarinnar; frumvarp sem gengur út á að handhafar nýtingarréttar á auðlindinni, sem þjóðin lifir að stórum hluta á, verði nýtt í auknum mæli í þágu þjóðarinnar allrar.
Við erum rík þjóð og búum að auðlindum sem við getum nýtt þjóðinni til heilla og framfara en ágreiningur er um hvernig með arðinn af - í þessu tilfelli fiskveiðiauðlindinni - sé ráðstafað.
Sjálfstæðisflokknum finnst að best sé að veiðiréttarhafar ráðstafi arðinum eftir sínu höfði í trausti þess, að það skili sér best þannig til þjóðarinnar allrar og Framsóknarflokkurinn er á svipuðum slóðum.
Og Framsóknar-íhaldsflokkurinn sem kallar sig Miðflokk dinglar með, líklega vegna þess að þeir eru í stjórnarandstöðu og geta ekki verið annað; eiga sáralitla von um að komast í stjórnarmeirihluta, trúlega vegna þess að enginn virðist vita fyrir hvað þeir standa og síst af öllu þau sem í flokknum eru.
Þau eru einna best í því að standa fyrir allskonar uppákomum, sem birtast okkur í hráhakksáti og öðrum skrípalátum sem ekki verður reynt að telja upp, enda varla þess virði.
Þjóðin á þetta ekki skilið eftir að hafa gengið til vetrarkosninga, sem skiluðu þeim árangri að út af þingi hreinsaðist hinn alhreini vinstrigræningjaflokkur sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði borið á höndum sér árum saman og kannski var Framsóknarflokkurinn þar einhverstaðar en fáir tóku eftir né muna eftir honum.
Nú er hann að minna á sig með dæmalausu forneskjuþusi á þingi, tuði sem fáir nenna að hlusta á og þaðan af síður, taka sér til leiðsagnar.
Hvað sem öllu þessu líður er ríkisstjórnin sem nú situr búin að sanna sig hvað það varðar, að hún hefur bæði sýnt þolinmæði og þolgæði gagnvart málæðingum alþingis og síðan að höggva á hnútinn þegar komið var nóg af bulli ergelsi og firru.
Við treystum því að fárið sé gengið yfir í bili og að við taki aðrir tímar; að stjórnarandstaðan sem er vönust því að sitja í ráðherrastólum og stjórna málum þannig að allt fari vel fyrir vildarvini og stuðningsfólk nái áttum.
Sætti sig við niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, sem þau sjálf efndu til.
Því má síðan við þetta bæta, að umræður um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu þar sem annar aðilinn (stjórnarandstaðan) talar út í eitt, aftur og aftur, segjandi hið sama dag eftir dag og viku eftir viku, er ekki umræða og nær væri að kalla hana innihaldslítið þus, því þau eru löngu búin að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Að lokum er rétt að benda á pistil eftir Indriða Þorláksson sem birtist í Heimildinni um málið.
Indriði fer yfir það og vitnar í aðrar greinar fyrir áhugasama til að kynna sér ef þeir vilja. Þau sem töpuðu kosningunum til Alþingis hafa ekki haft vilja eða getu til að una niðurstöðunni og átta sig á að svo uppsker hver sem sáir.
Og nú hefur bæst við ys og þys og mas og þras af þeirri gráðu, að efast má um að fólkið sem í því tók þátt, eigi nokkurt erindi í Alþingishúsið, nema þá ef til vill á áheyrendapallana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning