20.5.2025 | 07:07
Hrunið og hrunmálin
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram og talað fyrir tillögu um að fram fari rannsókn á ,,hrunmálunum" og að til þess verði stofnuð sérstök nefnd.
Frá þessu er sagt á Vísi undir fyrirsögninni: Vill rannsóknarnefnd um rannsókn hrunmálanna, Guðrún Hafsteinsdóttir talaði fyrir málinu á Alþingi.
Þeir sem fylgst hafa með fréttum hafa tekið eftir því, að ýmislegt hefur verið að koma í ljós í þeim málum og sérstaka athygli hefur vakið, að fyrirbæri sem kallað er PPP stóð fyrir persónunjósnum.
Bókin ,,Hrunið" eftir Guðna Th. Jóhannesson fyrrverandi forseta er ágæt heimild um þau mál og fleira mætti tína til, en njósnamálið er nýlega upplýst og þarfnast sannarlega skoðunar af til þess bærum yfirvöldum.
Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera áhugasamur um að upplýst verði og kafað enn betur ofan í það sem gerðist í aðdraganda Hrunsins og eftirmála þess.
Óhætt er að segja að flest hafi brugðist sem brugðist gat í aðdraganda Hrunsins, hruninu sjálfu og eftirköstum þess en að því sögðu, þá brást sannarlega ekki allt.
Seðlabankinn brást og fjöldi ,,athafnamanna" fór út af sporinu þ.e.a.s. hafi þeir einhvertíma verið á því og brugðust sjálfum sér og öðrum og endalaust má deila um hvort hrunmálin hafi verið gerð endanlega upp.
Þegar heilt samfélag fer á ,,hausinn" þá hriktir í mörgu og margir þurftu að horfast í augu við sjálfa sig og aðra og spyrja sig þeirrar spurningar, hver þeirra ábyrgð væri.
Það gerðu sumir en ekki allir og segja má að þjóðin hafi komið ótrúlega vel standandi í lappirnar út úr þessum hremmingum.
Í þessum pistli verður ekki kveðið upp úr með hver eða hverjir hafi borið mesta ábyrgð, en víst er, að það voru æði margir sem fóru út að sporinu og það þó í háum ábyrgðarstöðum væru.
Að málið verði rannsakað enn frekar en búið er að gera verður eflaust ágætt, en einhvertíma kemur að því að komið er nóg og ætli ekki megi treysta því að sagnfræðingar nútíðar og framtíðar muni afgreiða málið svo að nægjanlegt teljist?
Við vitum að ráðamenn, viðskiptajöfrar og embættismenn ásamt fjölda annarra fór út af sporinu og sé vilji til að skoða það betur, þá er hægt að gera það með ,,hinu frjálsa framtaki", líkt og gert hefur verið og engin ástæða til að amast við því.
Persónunjósnir sem komið hafa fram fyrir sjónir almennings á síðustu vikum, eru enn einn dökkur blettur á þessari sögu og hann má sannarlega skoða betur og ef það er tilgangurinn með hugmynd Guðrúnar, þá hljóta flestir að taka undir að þau má megi taka til skoðunar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning