Ríkisstjórn á ferð og flugi

Niðurstaðan eftir síðustu kosningar til Alþingis, varð að mynduð var ný ríkisstjórn með nýju fólki sem hefur að mörgu leiti aðra sýn á þjóðfélagsmálin en fyrri ríkisstjórn hafði. 

Skjámynd 2024-12-17 163300Stjórnina leiða þrjár konur frá jafnmörgum flokkum og a.m.k. sumum, þykir sem nýir og ferskir vindar leiki um í stjórnmálunum.

  Fyrri ríkisstjórn var löngu sprungin á limminu, enda gekk hún aldrei á öllum ef svo má segja.

Að henni stóðu þrír stjórnmálaflokkar sem segja má að hafi spannað nokkuð breitt svið, eða allt frá Sjálfstæðisflokknum og yfir í Vinstri græna og Framsóknarflokknum var stungið þar inn á milli. 

Sjálfstæðisflokkinn þekkjum við flest og Framsóknarflokkinn líka, enda hafa þeir flokkar verið til lengur en elstu menn muna, en fráleitt er að nöfn flokkanna standi fyrir það sem þeir eru í raun, enda ná nöfnin yfir breitt svið.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið neitt sérstaklega framsækinn svo elstu menn muni, sem er í sjálfu sér ágætt m.v. hve gamaldags hann er í viðhorfi sínu til atvinnuvega og byggðamála.

Öll viljum við sjálfstæði fyrir okkur sjálf og annað fólk og þjóðina okkar að sjálfsögðu og því segir nafn Sjálfstæðisflokksins okkur ekkert og hafi það einhvertíma verið svo, þá er það löngu liðið. 

Með þessum tveimur flokkum var síðan í ríkisstjórn flokksundur sem kallað er Vinstri- græn, sem er ekki til vinstri en vel getur verið að hann sé ,,grænn" en eins og við vitum eru margir grænir án þess að það teljist vera eitthvað til að hælast yfir.

Stjórnin var sem sagt sett saman úr ólíkum öflum þ.e. frá hægri (Sjálfstæðisflokknum) og til vinstri (Vinstri grænum) þ.e. hagsmunagæsluflokki hinna ríku og flokki hinna vinstrisinnuðu græningja sem voru með óljósa stöðu í tilverunni, en kenna sig við vinstri til að gefa í skin að um ,,félagshyggjuflokk” sé að ræða.

Síðan er ,,græn” hnýtt aftan við, í þeim tilgangi væntanlega, að höfða til fólks sem telur sig hafa jákvæðari afstöðu til náttúrunnar en aðrir. 

Grænna getur það varla verið!

Framsóknarflokkurinn fékk að vera með hinum tveimur en fyrir hvað hann stendur er afar óljóst, en þó má svo skilja sem hann vilji sækja fram en hvert og fyrir hverja vitum við ekki og flokksmenn líklega ekki heldur.

  Niðurstaðan af þessari samsuðu varð eins og vænta mátti, að það var fyrst og fremst gaman að vera í ríkisstjórn sem gerði sem allra minnst og ætli ferðalag með flugvélarfarm af ,,umhverfisáhuga”- fólki, til Abu Dabi til að sækja þangað hreina og tæra náttúru lýsi ekki einna best ríkisstjórn sem bæði var búin að missa veruleikaskinið og gleyma því til hvers hún átti að vera.    

Framsóknarflokkurinn er trúlega til þess að gera góður í samstarfi, þ.e.a.s. ef þeir sem með honum eru vilja hugsa um kýr og kindur og bregða sér á hestbak á haustin og kannski á vorin líka en tæplega er það meira. 

Við er tekin stjórn hinna þriggja kvenna sem ætla að gera stóra hluti og eru a.m.k. duglegar að ferðast.  

Við vonum hið besta og að þær gleymi ekki þjóð sinni og auki veru sína með fólkinu sem valdi þær til forystu í von að nú myndu blása nýir og ferskir vindar.

Það má greina það af því hve fúl núverandi stjórnarandstaðan er, að það var kominn tími til stjórnarskipta og við vonum því að þær muni eftir þjóð sinni og skilji hvers vegna hún valdi þær til þess að veita henni forystu og leiðsögn.

Að sú leiðsögn verði sótt til annarra landa kemur í ljós en er hreint ekki víst. Hitt er ljóst að það er heilmikið sem laga þarf eftir sjö ára setu fyrrverandi stjórnarflokka og að því þarf að snúa sér.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband