2.5.2025 | 11:40
Sigurhátíð og nýsmíði
Rússar misstu rúman hálfan þriðja tug milljóna karla og kvenna í seinni heimstyrjöldinni.
Þeir minnast þess og hafa fulla ástæðu til og þeir þakka Bandaríkjunum framlag þeirra til að sigra þýska nasista og bandamenn þeirra.
Rússar munu halda sigurhátíð þann 9. maí næstkomandi, til að minnast sigursins yfir nasismanum.
Leiðtogum margra þjóða hefur verið boðið til hátíðarhaldanna.
Það er ekki undarlegt að þjóð sem fórnaði um 26 milljón manns til að knýja fram sigur á helstefnunni haldi minningunni til haga.
Það kann að vera, að til séu þeir sem láta sér fátt um finnast, er þeir heimsækja t.d. minningarsafnið í Pétursborg um seinni heimstyrjöldina en varla eru þeir margir.
Heimsstyrjöldin seinni sem knúin var áfram að þýskum vitfirringi og dindilmannskap hans og formuð í stjórnmálastefnufyrirbrigði sem kallað var ,,nazismi lék margar þjóðir grátt.
Við þekkjum hvernig unnið var að útrýmingu gyðinga samkvæmt þeirri stefnu og ekki er ofmælt að mannslíf, hvort heldur þau voru þýsk eða annarra þjóða, voru lítils metin.
Um þetta hafa verið ritaðar margar bækur sem ekki verður reynt að telja hér upp.
Það vekur athygli að ýmsir leiðtogar hafa ekki í sér burði, til að þiggja boðið um að mæta á hátíðarhöldin.
Gera má ráð fyrir að það sé vegna Úkraínu- málsins, sem eflaust vekur upp ýmsar minningar meðal Rússa.
Það ætti að vera þekktara en svo, að þörf sé að rifja upp, að Úkraínumenn unnu með Þjóðverjum og þóttu síst minni böðlar en Þjóðverjarnir sjálfir.
Um það má fræðast ef vilji er til, t.d. í bókinni ,,Ég lifi þar sem sagt er frá lífsreynslu ungs pilts sem fékk að kynnast böðlunum og vinnubrögðum þeirra.
Honum þóttu Úkraínarnir síst betri en þeir þýsku en tókst með ótrúlegri þrautseigju að komast lifandi úr útrýmingarbúðum nasistanna.
Þegar þetta er haft í huga er ekki undarlegt að rússneska þjóðin sé á verði þegar hún verður vör við ný- nasista.
Ætli það geti ekki verið að minnsta kosti hluti af ástæðunni fyrir því, að tekist er á um rússnesku héruðin á mörkum ríkjanna Rússlands og Úkraínu?
Og vegna þess að Krímskagi er stundum nefndur í því sambandi, þá má minnast þess að hann hefur tilheyrt Rússlandi um aldir þó með hléum sé og þrátt fyrir afskipti og hernað úr vestri og suðri til að komast yfir skagann.
Pétur mikla dreymdi um að brúa Kerssundið.
Nú er búið að gera það og afar litlar líkur eru á að Rússar fáist til að afhenda Úkraínum skagann.
Við þetta má síðan bæta, að Rússneskur miðill hefur greint frá þróun skotflaugar sem knúin er kjarnorku, sem vonandi verður ekki að veruleika, þó svo sé að sjá sem að skammt sé í, að hún verði að raunveruleika.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning