5.4.2025 | 06:36
Til heiðurs þeim sem björguðu heiminum
Menn ætla að koma saman og minnast þeirra sem fórnuðu sér fyrir þá sem síðan nutu sigursins.
Það er ekki laust við að farið sé að fenna yfir í hugum sumra en þó kann það að vera á misskilningi byggt.
Hvað sem því líður þá ætla forystumenn sumra þeirra þjóða sem sigruðu nasismann og fasismann, að minnast sigursins. Frá því er sagt á Russya Today og víst er að oft hefur verið komið saman af minna tilefni.
Xi Jinping mun mæta og gera má ráð fyrir að það geri fleiri.
Skemmst er frá því að segja að Rússar (Sovétríkin), færðu einhverjar mestu fórnir sem um getur til að hrinda af sér innrásarher þýskra nasista og fylgiríkja þeirra og það tókst og við megum vera þakklát fyrir það.
En hvað situr eftir og hvernig er staðan núna? Hún er í stuttu máli skelfileg, þjóðin sem nasistar lögðu mikla áherslu á að útrýma er í hryllilegu stríði á Gasa og víðar og stefnan er að flæma þjóðina sem fyrir er á landsvæðinu á brott og svo er að sjá sem forseti Bandaríkjanna styðji þau áform.
Þeim áformum er fylgt eftir af miklum krafti og eyðileggingin á Gasa er slík að flestum hryllir við og það svo að teikn eru um, að yfirvöldum í Bandaríkjunum sé farið að þykja nóg um.
Við höfum lesið um og séð myndir frá Dresden, Hirosima, Nagasaki, Vietnam, Írak og fleiri stöðum og flestum finnst sem löngu sé komið nóg.
Það er sem sífellt sé hægt að finna siðlaus stjórnvöld sem einskis svífast og sem finnst tilgangurinn helga meðalið.
Eitt sinn vorum við í hópi ,,hinna viljugu þjóða" og sú skömm hefur aldrei og verður trúlega aldrei, hreinsuð af okkur.
Við tókum ekki sérlega vel á móti landflótta fólki sem til okkar leitaði í seinni heimstyrjöldinni.
Tíminn leiddi hins vegar í ljós að margt af því fólki skilaði miklu til þjóðarinnar, sem var rétt að byrja að fóta sig í þeirri sjálfstæðu tilveru sem var rétt handan hornsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning