8.3.2025 | 07:57
Bréfið og Silfrið
Zelensky mun hafa ritað bréf til Trumps og á CNN er myndskeið þar sem Trump segir frá bréfinu.
Þegar ljótleikinn er hafinn upp og orðbragðið milli ráðamanna heimsbyggðarinnar er ekki sem huggulegast, er gott að virða fyrir sér eitthvað fallegt, þó það komi innihaldi þessa pistils ekkert við.
Hið ill- leysanlega Úkraínumál er eftir því sem best verður séð, komið í hendur Trump hins nýja forseta Bandaríkjanna.
Ekki eru allir ánægðir með hvernig hann hefur tekið á því máli og frægastur er fundurinn í ,,Oval office, þar sem Zelensky var veginn metinn og léttvægur fundinn.
Vilji menn frið verða menn að segja það og meina það en á það hefur skort hjá hinum úkraínska forseta.
Gera má ráð fyrir að hann reyni að tala eins og honum er uppálagt að gera en vindar breytast hratt í ríkinu sem fáir hugsuðu mikið um þar til nýlega þ.e.a.s. áður en Rússar misstu þolinmæðina með alkunnum afleiðingum.
Hvað sem segja má um Trump, þá verður því seint haldið fram að hann geti ekki hrist upp í mönnum með sinni framgöngu.
Hann er óhefðbundinn stjórnmálamaður og svo er að sjá, sem hann vilji rusla hlutunum af, afgreiða málin með snöggum hætti og í þessu tilfelli, til að koma á friðið milli ríkja sem staðið hafa í blóðugri baráttu.
Styrjaldir eru viðbjóður og eitt ömurlegasta sýnishorn af því sem mannskepnan hefur fundið upp til að leysa(!) deilur milli landa, eða réttara sagt milli leiðtoga landa.
Það þarf ekki að kafa djúpt í söguna til að finna frásagir af styrjöldum milli þjóða og svo er að sjá, sem seint muni koma sá tími að menn muni finna aðra lausn til að leysa úr deilum en hún er þó til.
Ef við gætum tekið upp þann sið að ræða málin af yfirvegun og sanngirni þegar ágreiningur kemur upp, væri staðan öðruvísi.
Við þurfum siðbreytingu og það í stórum stíl; siðbreytingu sem gengur svo langt að gerbreyta hugsunarhætti og framkomu milli manna og þjóða.
Við sáum í Silfrinu á Rúv fyrir skömmu, samskipti milli ólíkra pólitískra afla og þau gengu að flestu leiti ágætlega fyrir sig, nema að formaður Miðflokksins taldi sig þurfa að hafa orðið, þótt hann hefði nánast ekkert að segja!
Fulltrúinn skar sig í því úr hópnum, því hann taldi sig hafa meira að segja en innistæða var fyrir, á meðan aðrir sátu á strák sínum, nú eða stelpum, ef menn vilja hafa það þannig, á tímum hins mikla jafnréttis!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning