Lofum mey að morgni og ríkisstjórn að kveldi, ef hún á það skiið

Gengið og ekið var til kosninga fyrir fáum dögum og sumir fengu það sem þeir vildu en aðrir ekki.

Skjámynd 2024-12-04 091748Ívar sem teiknar fyrir Morgunblaðið, sýnir okkur mann sem liggur á bekknum hjá sála sínum og er alveg hættur að botna í sjálfum sér, en á hinni myndinni er svo að sjá sem Bjarni sé búinn a tína einhverju!

Við búum við fjölflokkakerfi og óhætt er að segja að ekkert hafi skort upp á það í kosningunum sem fram fóru síðastliðna helgi.

Flokkarnir voru óvenju margir og kjörseðillinn langur eftir því og svo fór að ritari hugleiddi eina örskotsstund, hvort flokkurinn sem hann ætlaði að kjósa væri ekki á hinum snyrtilega samanbrotna renningi.

Eftir nokkra athugun fannst ,,listinn” lystilegi og hið margrómaða X var sett á sinn stað.

Ýmislegt var sérstakt við kosningarnar og er þar fyrst að telja, að þær fóru fram þegar kominn var harða vetur og allra veðra von.

Sá sem kaus að sprengja stjórnarsamstarfið hefur trúlega ekki litið á dagatalið eða tekið feil á mánuðum og hugsanlega gleymt því í hvaða landi hann væri.

Ritari þekkir það af eigin reynslu að veðrið er oftast nær gott við sundin blá, þ.e.a.s. sundin sem nýfallinn forsætisráðherra býr í grennd við.

Hvað sem þessu leið, þá varð ekkert framboð á talningarvandræðum í ,,úti á landi” landshlutum og almennt var ekkert slíkt framboð, nema á suðvestur horninu veðursæla.

Þar gekk óvenju illa að telja en allt hafðist það á endanum og ekkert spurðist til Borgarness í því sambandi!

Flokkafækkun varð veruleg og sá sem elstur var í hópi smáflokkanna og sá sem setið hafði í ríkisstjórn árum saman í innilegu samstarfi við ysta hægrið í íslenskri flokkaflóru, fékk svo lítið fylgi, að hann hreinlega gufaði upp og eftir situr lítil flokkssletta sem er þyngri en svo að hún geti horfið inn á astralplanið án eftirkasta.

Stjórnarviðræður eru hafnar milli þriggja kvenna sem eru í forystu fyrir þremur flokkum sem til stendur að bræða saman í ríkisstjórn.

Hvernig það gengur er ekki ljóst enn, en sú sem hefur stærstan munninn fyrir neðan nefið er þegar búin að gefa ríkisstjórninni nafn sem er: ,,Valkyrjustjórnin”.

Nafnið mun vera dregið af því að hún telur þær vera miklar Valkyrjur og satt að segja hefur mörg íslensk ríkisstjórn gengið undir verra nafni.

Örlítil athugun leiðir í ljós að nafnið er dregið af föngulegum konum fortíðar sem kunnu ýmislegt fyrir sér, eða eins og segir á Wiki:

,,Valkyrja er kvenkyns persóna úr sem hafði það hlutverk að sækja fallna hermenn og koma þeim til Valhallar.“

Sem betur fer er enginn ,,fallinn“ í þeim skilningi sem hér er til vitnað en flokkar eru fallnir út af þingi og ríkisstjórnin er fallin líka.

Hvort eftirsjá er í þeim sem ,,féllu“ út af þingi, fer eftir viðhorfi hvers og eins en vitað er að mörg voru þau okkar, sem voru búin að fá meira en nóg af ,,stjórn“ þeirri sem féll og er þá átt við báðar útgáfurnar sem hún bauð upp á, þ.e.a.s. bæði með og án Vg.

Niðurstaðan er sú, að það hafi verið til góðs að kjósa og taka til í flokkakraðakinu og reyna að mynda nýja ríkisstjórn, sem tíminn mun síðan leiða í ljós hvernig reynast muni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband