21.11.2024 | 14:57
Kosningagos
Nei, bara eldgos og þau eru sem fastir liðir eins og venjulega, á Reykjanesi.
Þetta var í Morgunblaðinu um daginn og nú er gripið til sparnaðaraðgerða, enda séð fram á krepputíma að kosningum loknum:
En þegar við vöknum þennan morguninn, er sagt frá því í fréttum, að eldgos sé hafið í enn eitt skiptið á Reykjanesi.
Lítið og nett sprungugos eins og þau hafa verið flest og ástandið er fyrir löngu farið að minna á ,,Kröflueldana, sem afgreiddir voru svo léttlega af Jóni Sólnes þegar hann sagði:
,,Við kröflum okkur út úr þessu.
Þeir Ragnar Arnalds og hann, lögðu til hliðar pólitískan fjandskap þegar þeir voru í forsvari fyrir framkvæmdunum við Kröfluvirkjun.
Eldgos í byggð, eða á framkvæmdasvæðum eru ekkert grín en Jóni var fyrirgefið þó hann slægi á létta strengi, því það þarf að hafa léttleikann með, svo alvaran fari ekki að verða of þungbær!
Það eru ekki framkvæmdir sem liggja á okkur þessa dagana, heldur kosningar til Alþingis og eins og tekið hefur verið eftir, liggja aurar á lausu til að gera eitt og annað, sem reyndar verður trúlega fæst síðan gert eftir kosningar.
Það er nefnilega oft þannig, að þegar búið er að kjósa, þá breytast viðhorfin og þá þarf að huga að einhverju öðru en því sem var til umræðu fyrir kosningarnar.
Atkvæðin eru komin í hús, eins og það er kallað og þá er farið að hugsa að eitthvað annað.
Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að fjölga lögreglumönnum um 200 eftir kosningar.
Framsóknarflokkurinn rýkur til og segist ætla að byggja brú sem búið er að japla um og jamla á í langan tíma, en eftir er að hanna.
Áður en flokkurinn batt ástfóstri við brúna, sem enn er óhönnuð hugmynd, dreymdi hann um að bræða göng undir Ölfusá og sleppa brúnni.
Nú er ,,bræðslutólið gleymt og grafið og það sama mun gilda um göngin miklu sem bræða átti til Eyja og töframaðurinn sem jarðbræðslunni átti að stjórna, hefur ekki verið nefndur í langan tíma.
Svo er samt ekki um rafknúnar farþegaþotur sem Framsóknarflokkinn dreymir um, því þær birtast í umræðunni við hin ýmsustu tækifæri.
Rafknúin tól af ýmsum gerðum þurfa raforku og því stærri sem tólin eru, því meiri raforku þarf til að knýja þau, en það er ekki í handbókum Framsóknar.
Þau kjósa sig svo sjálf en það er fullkomlega eðlilegt eins og flestir sjá, því ekki geta þau farið að kjósa einhverja aðra, sem eru þar að auki með alrangar hugmyndir!
Þannig er það að þeir sem þrá að halda völdum og þykir gaman að ,,ráða og ,,stjórna, að þeir þurfa sífellt að finna upp á einu og öðru til að heilla okkur kjósendur.
Til er andategund sem kölluð er stokkendur en hún kemur þessu ekkert við og stígur ekki einu sinni á stokk og hvað þá tvisvar!
Og fer aldrei í framboð!
Teiknarar draga upp myndir í fjölmiðla og hafa gaman að öllu tilstandinu og hér sjáum við nokkur dæmi um það, sem Ívari teiknara Morgunblaðsins, hefur dottið í hug. Almennir kjósendur vita hins vegar að flest verða kosningaloforðin gleymd að kosningunum loknum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning