2.11.2024 | 07:09
Framboðsfundur í sjónvarpinu
Boðið var upp á framboðsfund í Sjónvarpi allra landsmanna í gærkvöldi 1/11/2024 og það var sjón að sjá og heyra.
Myndirnar eru fengnar af vefsíðum Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins. Kjósandinn er með valkvíða sem von er þegar í boði eru tíu listar og það er Ívar teiknari Morgunblaðsins sem teiknar myndina.
Kristrún Frostadóttir er formaður Samfylkingarinnar, flokksins sem þjóðin bindur mestar vonir við skv. niðurstöðu skoðanakannana.
Fulltrúi Miðflokksins var í hlutverki trúðsins eða grínarans, lék á alls oddi og virtist vera kominn á fundinn til að skemmta sér og reyna að skemmta öðrum en þó aðallega sjálfum sér.
Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á hvernig til hafi tekist en óhætt er að segja að framkoma mannsins hafi frekar lífgað upp á stemminguna en hitt.
Ljóst er að íhaldsflokkarnir eru orðnir a.m.k. þrír, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og síðan Viðreisn sem er með rætur þaðan og ætli ekki megi segja að Vinstri græn séu líka í þeim hópi, þó þau telji sig til vinstri.
Hart var sótt að formanni Samfylkingarinnar sem vonlegt er, þar sem ógnin við flokkana fyrrnefndu kemur fyrst og fremst þaðan.
Kristrún Frostadóttir var í forsvari fyrir flokkinn sem hún leiðir og lét engan eiga neitt inni hjá sér og svaraði spurningum og skotum með beinskeyttum og málefnalegum hætti.
Segja verður það eins og er, að sjónvarpsefni af þessu tagi er almennt séð ekki sérlega aðlaðandi fyrir áhorfendur en þáttastjórnendur buðu upp á ágætar nýjungar eins og það, að bjóða fulltrúum framboða, að spyrja hvern annan spurninga og svörin komu yfirleitt greiðlega til baka.
Einbjörn spurði tvíbjörn, sem síðan spurði þríbjörn o.s.frv. eða alls upp í tíu, því svo mörg eru framboðin!
Þættinum lauk síðan með þeim óvanalega hætti að menn áttu að segja eitthvað gott við og um hvern annan.
Góð nýjung sem gera má ráð fyrir að muni festast í sessi!
Sumir þeirra sem í framboði voru, gerðu tilraun til að sauma að formanni Samfylkingarinnar en uppskáru ekki eins og þeir sáðu, því Kristrún svaraði greiðlega og málefnalega.
Það er von að menn skuli hafa beint spjótum sínum að henni, því flokkur hennar hefur skorað hátt í skoðanakönnunum og því er það, að þaðan kemur þeim ógnin.
Það sannaðist sem sagt, að gamlir refir vilja verja sitt og halda áfram að ráðskast með þjóðina og eigur hennar.
Að þessu sinni var ekki rifist um gjafasölu á lambakjöti til annarra landa, því önnur og erfiðari mál voru og eru efst á baugi, eins og t.d. óheftur innflutningur fólks frá útlöndum, fólks sem komið er flest til að leita sér að betri stað til að vera á í lífinu.
En það tekur í fyrir litla þjóð að fjárfesta í slíkum innflutningi og því er skiljanlegt að menn vilji ræða málin og skoða hvort farið sé of geyst.
Komið hafa fram tölur um að hvert gæludýr, sem inn er flutt með húsbændum sínum, kosti í slíkum innflutningi um þrjár milljónir króna og hver maður aðrar sjö slíkar.
Vonandi er það góð fjárfesting fyrir þjóðarbúið okkar en það mun koma í ljós með tímanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning