Framkvæmdahugur og Silfrið í Sjónvarpinu

Það er algengt að vilji til framkvæmda færist í aukana hjá pólitíkusum þegar dregur að kosningum og þá er oft lofað öllu fögru en stundum minna staðið við af því sem lofað var, að kosningunum loknum.

Enda er það nú svo, að vilji er eitt en getan til að gera annað.

Skjámynd 2024-10-28 070933Í fréttinni hér til hliðar sem birtist í Morgunblaðinu 28/10/2024 er sagt frá því sem er verið að gera en ekki því sem á að gera eftir kosningar.

Hugumstórir pólitíkusar eiga það til að skreppa saman þegar til alvörunnar kemur og geta þeir oftar en ekki skýlt sér bakvið það: að það þurfi samstilltan meirihluta til að geta komið málum fram.

Í aðdraganda kosninga verða alls kyns uppákomur svo sem við sjáum dæmi um, þar sem t.d. formaður flokks útskýrði fyrir kjósanda, að hann þ.e. kjósandinn, ætti alltaf þann möguleika, að strika yfir frambjóðanda sem væri á listanum ef kjósandinn væri ekki sáttur við frambjóðandann og setja síðan að því loknu hið eftirsóknarverða X á ,,réttan" stað.

Af þessu hefur orðið mikið ,,frétta"- gaspur með japli jamli og fuðri, sem engu skilar nema leiðindum til þeirra sem hlut eiga að máli.

Hvað sem þessu líður, verður kosið til þings eftir skamman tíma og verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður.

Vonandi verður hún þannig að hægt verði að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem geti tekið við stjórnartaumunum eftir stjórnleysið sem ríkt hefur undanfarin ár.

Ríkisstjórn sem fátt kann né getur, annað en ausa peningum út og suður, eða í allt frá stríðsrekstri og yfir í gæludýrainnflutning, sem sagður er kosta 3 milljónir á hvert dýr, er ekki alveg að standa sig að margra mati.

Að þessu sögðu er rétt að óska íbúum Þorlákshafnar til hamingju með uppbygginguna sem orðið hefur í sveitarfélaginu undanfarin ár.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá Þorlákshöfn blómstra og umsvifin þar aukast dag frá degi og það er reyndar ekki ólíkt því sem sjá hefur mátt í Reykjavík undir stjórn þess meirihluta, sem Dagur B. Eggertsson hefur stýrt af mikilli lagni, maðurinn sem strika má út sem aðra ef vilji er til og finni menn hjá sér hvöt til þess.

Í Reykjavík þurfti að byggja breyta og bæta eftir langan tíma sem liðið hafði án þess að það væri gert með sæmilega skipulögðum hætti.

Það var nefnilega sú tíð að hverfi byggðust upp hér og þar um borgarlandið, að því eð virtist án þess að heildarskipulag væri haft í huga.

Þétting byggðar var notað af andstæðingum Dags og félaga sem skammaryrði en við sem munum eftir slettu- uppbyggingunni sem áður var, fögnum því sem að undanförnu hefur verið að gerast.

Og ekki má gleyma því, að Sjálfstæðismenn hrifust með og ákváðu að ,,þétta" byggðina við Valhöllina sína og gengur það bara vel eftir því sem best er vitað og fyrir það munu hafa fengist einhverjir aurar.

Um uppbyggingu flokksins á reitnum má lesa í hér og síðan hér og eflaust víðar ef hugur stendur til.

Það er sem sé svo, að þétting byggðar getur verið lausnarorð þegar það hentar og kemur sér vel!

Við þetta er því að bæta, að í Silfrinu á Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi 28/10/2024 sýndi Dagur úr hverju hann er gerður og hversvegna hann hefur enst svona vel í forystunni í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband