14.10.2024 | 13:23
Stjórnarslit
Teiknarar miðlanna hafa túlkað ástandið hjá ríkisstjórnarflokkunum; túlkað það eins og þeir sjá það og eins og þjóðinni sýnist það vera.
Þjóð veit þá tveir vita og í Morgunblaði laugardagsins síðastliðins, sjáum við fyrirsögn sem færir okkur heim sanninn um að ,,veikleikar eru í stjórnarsamstarfinu en þrátt fyrir það að ,,Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt fund í Valhöll, liggur ,,engin sérstök niðurstaða fyrir.
Þannig er það og þannig hefur það verið í þessu sérkennilega stjórnarsamstarfi, að hver höndin hefur verið upp á móti annarri í hverju málinu af öðru og ekki skiptir neinu máli hversu mikilvæg þau eru.
En það skiptir máli fyrir þjóðina hvernig staðið er að málum, hvernig tekna er aflað og hvernig síðan farið er með þær tekjur og það skiptir líka máli að þeir sem fara með stjórn lands og þjóðar séu sæmilega samkvæmir sjálfum sér.
Og kannski eru þau einmitt það, samkvæm sjálfum sér, en ekki samkvæm sem samstæð heild sem er í samstarfi um að stjórna landinu.
Við höfum sum haldið að þau væru sammála um eitt og annað, en þó mest af öllu sammála um að vera ósammála um flest sem máli skiptir.
Dæmi: Ráðherra Sjálfstæðisflokksins kveður upp úr með það að sjúkur drengur skuli fara til Spánar og njóta þar læknisþjónustu sem bíður hans þar.
Vinstrigrænn ráðherra hringir af því tilefni í lögreglustjóra, í þeim tilgangi að hindra för drengsins þangað og telur að honum sé betur borgið hérlendis, sem hreint ekki er víst.
Hvort það er rétt metið eða ekki vitum við ekki, en okkur grunar að vinstrigræningjar hafi ekki haft bein í nefinu til að standa með samstarfsflokknum, í svörum við spurningum sem gætu komið frá almenningi vegna málsins.
Hvort læknisþjónusta drengsins yrði betri eða verri á Spáni en á Íslandi vitum við ekki, en að því gefnu að þar sé saman að jafna, má augljóst vera, að það eru pólitískar keilur sem skipta máli, ekki þjóðarhagur, heldur flokkshagur litla flokksins sem er við það að hverfa.
Það er ekki heldur verið að hugsa um þjóðarhag þegar hindraðar eru hvalveiðar lítils fyrirtækis og það lýsir vel stöðunni í ríkisstjórninni, að einn pólitískur sértrúarsöfnuður skuli komast upp með að ráða þar för.
Við höfum séð það á mörgum fleiri sviðum að samstarfið er nær ekkert í málum sem skipta máli en hins vegar nokkuð gott í þeim, sem best færi á að menn væru ekki að skipta sér af.
Þar má nefna utanríkismálin, umhverfismálin, orkumálin og samgöngumálin, útlendingamálin o.s.frv.
Skrípaleikirnir hafa verið margir og alls ekki er víst að flugið til Abu Dabi, eða hvað sem það nú heitir það blessaða olíufurstadæmi, hafi verið toppurinn og ekki heldur bjórrútuferðin til Þingvalla né ráðstefnuhaldið í Hörpu með bílakaupum og jakkafata m.m.
Við endum þetta á furðufrétt úr náttúrunni sem rekist var á hjá BBC.COM.
Bbc- arar hafa ekki fengið svör við spurningum um hvað þar sé um að ræða og af því drögum við þá ályktun, að enn sé margt skrítið í kýrhausnum!
Við þýðum lítið brot af textanum og þá má sjá að um er að ræða hið dularfyllsta mál:
Myndir af efninu byrjuðu að skjóta upp kollinum hjá strandhópi á netinu og vöktu þær vangaveltur um að þetta væri sveppur eða mygla, pálmaolía, paraffínvax eða jafnvel ambra sjaldgæft og verðmætt efni framleitt af hvölum sem notað er í ilmvatnsiðnaðinum.
Segi menn svo að náttúran sé hætt að koma okkur á óvart!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.