Fimm sinnum 2,6 og Ísland í stríði

RUV.IS segir frá því að Ísland sé í stríði og sé gengið í eina sæng með Úkraínu í styrjöldinni við Rússland.

Í styrjöldina hafi verið varið 2,6 milljörðum til kaupa á hergögnum og að þar með sé ekki allt upp talið því það sé ekki nema 21,6% af því sem íslenska ríkið hefur varið til hernaðarmála.

Síðan er hægt að rifja upp barnaskólalærdóminn og reikna út frá þessu hver heildarútgjöldin séu.

2024-09-07Fréttinni fylgir mynd sem sýnir tvo af málaliðum íslensku þjóðarinnar, þar sem þeir eru að störfum við að verja land sitt og þjóð.

,,Íslenska ríkið hefur greitt 2,6 milljarða í kaup á hergögnum síðustu tvö ár. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata."

Í fréttinni segir einnig: ,,Í útskýringum ráðuneytisins segir að varnartengdur stuðningur við Úkraínu á árabilinu 2022 til 2024 sé 21,6 prósent af heildarfjárheimildum til varnarmála."

Kaupin eru ekki fyrir varnir Íslands heldur eru öll útgjöldin tengd Úkraínu.

Erjur milli Rússlands og Úkraínu eru ekki nýjar í sögulegu samhengi og sagan greinir frá mörgum og andstyggilegum atburðum sem orðið hafa á fyrri tímum í samskiptum þar á milli en það er ekki efni þessa pistils að fara ofan í það allt.

Við lifum í núinu - sum að minnsta kosti - en höfum söguna til hliðsjónar a.m.k. stundum, þegar við erum að reyna að taka afstöðu til mála sem þeirra sem þarna er um að ræða.

Sumt er gott sem þar greinir frá en annað vont.

Í þeim átökum sem nú eiga sér stað hefur íslenska þjóðin tekið þá afstöðu að eðlilegt sé að hjálpa fólki á flótta og jafnvel húsdýrum þess, svo sem við munum úr fréttum í upphafi núverandi hernaðarátaka og sumum okkar þykir það nokkur framför frá því sem áður var.

Fyrir ekki löngu síðan gerðist það í átökum milli Úkraínu og íbúa Donbas að þeir síðarnefndu frömdu það voðaverk að skjóta niður hollenska farþegaþotu sem flaug yfir svæðið á leið sinni í áætlunarflugi og notuðu til þess loftvarnarbúnað sem Rússar höfðu lagt þeim til í þeim tilgangi að geta varist loftárásum frá Úkraínu.

S 200 mun hertólið heita, eða eitthvað í þá áttina og okkur rekur minni til að Tyrkir hafa m.a. fest kaup á slíkum búnaði, þegar þeir voru af einhverjum ástæðum ekki í náð vestrænna framleiðenda á slíku dóti.

Með þotunni fórst fjöldi fólks sem ekki hafði átt nokkra aðkomu að átökunum á svæðinu og er atburðurinn dæmi um, að betra er að vanda til þegar sköffuð eru hertól til manna sem með eiga að fara.

Að minnsta kosti betra að þeir kunni að greina á milli þess sem ógnar þeim og því sem gerir það ekki.

Ekki er ritara þessa pistils kunnugt um hvort rannsakað hafi verið, hvers vegna vélinni var valin flugleið yfir þekkt átakasvæði og vel getur verið á því skýring, þó það virðist hæpið.

Þegar málum var svo komið að Rússar fóru þá leið að taka sjálfir þátt í átökunum með beinum hætti, greip um sig mikið fár hér í vestrinu, því eins og við munum er Rússagrýlan bráðlifandi fyrirbrigði sem ekki má vanmeta.

Íslenskir ráðamenn, svo dæmi sé tekið, sáu fyrir sér stórt og voldugt ríki ráðast á smáþjóð og fundu það út að þar sem Ísland væri smáþjóð líka, þá væri rétt að standa með hinni úkraínsku smáþjóð í slagnum sem þarna væri orðinn.

Flumbrugangurinn var slíkur að fátt virtist hugsað en meira gert og eitt það fyrsta var að reka sendiherra Rússlands til síns heima og loka jafnframt sendiráði Íslands í Moskvu, sem sumum þykir ekki hafa verið djúpt hugsuð né yfirveguð ákvörðun.

Samskipti Íslands og Rússlands höfðu fram til þessa verið frekar góð og Sovétríkin gömlu höfðu reynst Íslandi betri en ekkert þegar svokallaðar vinaþjóðir tóku upp á því að reyna að kúga Ísland til hlýðni þegar það hafði fært fiskveiðilandhelgi sína út í 12 mílur og síðar meira.

Þegar það var, þótti gott að geta átt viðskiptasamband við stóra þjóð þegar kúgarar þeirrar litlu reyndust ekki vera þeir ,,vinir" sem þeir höfðu þóttust vera.

Nú er það allt gleymt og flumbrugangur einkenndi ákvarðanatöku hins íslenska utanríkisráðherra.

Svona er staðan og í ljós kemur að meira blóð er í kúnni, því útgjöld íslensku þjóðarinnar nema upphæðum, sem við getum reiknað út með þríliðunni sem við lærðum í gagnfræðaskóla, ef við kærum okkur um. 

Stemningin í samfélaginu okkar er hins vegar þannig að til lítils er að vera að velta hlutum af þessu tagi fyrir sér, rökhugsunin er farin lönd og leið og tilfinningarnar ráða för og eins og við vitum þá er ýmislegt fallvalt þegar svo er komið.

Ísland er sem sagt í stríði í raun, þó það sé ekki í verki, í þeim skilningi að íslenskir hermenn séu á vettvangi átakanna, heldur á þann veg að það er ásamt mörgum öðrum þjóðum, að skaffa hertól til annars stríðsaðilans og er þar með óbeint í stríði gegn þeim sem hann er að berjast við.

Fáum dettur í hug að fá menn til að setjast við samningaborð og hætta manndrápum og eyðileggingu.

Það er einhvernvegin utan sviðsins ef svo má segja og þess í stað, er sífellt boðið meira af dráps- og eyðileggingartólum til vonlítillar baráttu við björninn sem illt er að vekja upp af svefni sínum, þar sem hann lúrir með hátækni- drápstól.

Tól af þeirri gerð sem bestu vinir aðal, notuðu á sínum tíma til að berja niður Japani í heimstyrjöldinni síðari, sem við skulum vona að verði áfram síðari en ekki önnur af fleirum slíkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband