31.7.2024 | 10:40
Enn einn voðinn...
Fyrirbærið ,,Verkefnisstjórn rammaáætlunar" ,,hefur lagt til að kosturinn Hamarsvirkjun á Austurlandi fari í verndarflokk. Fyrirtækið Arctic Hydro, sem ætlaði að reisa virkjunina, gagnrýnir tillöguna. Það gera einnig þeir sem stefna á byggingu risavaxins vindorkuvers."
Sagt er frá þessu í Heimildinni þann 30/7/2024 og með fylgir mynd af fallegri fossaröð sem undir stendur:
,,Á Hraunasvæðinu, sem Arctic Hydro hugðist byggja Hamarsvirkjun á, er m.a. þessi röð fossa. Um er að ræða vatnasviðið austan Vatnajökuls og tilheyrir svæðið Djúpavogshreppi sem nú er hluti sveitarfélagsins Múlaþings."
Mynd fylgir með af fossunum og vissulega eru þeir fallegir en hvort þeir komi til með að hverfa kemur ekki fram í umfjölluninni.
Það verður ekki bæði sleppt og haldið segir einhverstaðar og það er erfitt að virkja orkuna sem felst í fallvötnum án þess að snerta við vatninu!
Við munum enn lætin sem urðu þegar til stóð að byggja Kárahnjúkavirkjun, sem þrátt fyrir þau var byggð og sem er stærsta virkjun landsins, sem vekur almenna aðdáun fyrir nú utan, að í ljós komu feiknafallegar stuðlabergsmyndanir sem vekja almenna aðdáun þeirra sem þær sjá þær.
Það var mótmælt og sönglað, flogið og staðið og í stuttu máli allt gert sem hægt var til að veita útrás meintri væntumþykju fyrir náttúrunni, sem menn virtust líta svo á að hefði ætíð verið óbreytanleg allt frá upphafi sköpunar veraldarinnar.
Á þeim tíma var atvinnulíf á Austurlandi frekar dapurlegt og flestir voru sammála um að það mætti breytast til batnaðar en sönglarar og mótmælendur vildu að það gerðist með því að gera ekkert!
Það var þeirra aðall og engu mátti breyta, en hvort það átti að vera í þágu hreindýranna sem ráfa um hálendið var ekki augljóst og ef til vill var mótmælt með ,,vistvænu" flugrelluflugi til þess eins, að fá útrás fyrir innibirgða ónýtta orku viðkomandi, sem vissu eflaust ekki að hreindýrin voru innflutt ,,aðskotadýr" í íslenskri náttúru.
Hráefnin í flugvélina og hljómtækin - ekki má gleyma þeim - voru einhverstaðar sprottin úr jörðu og unnin, til að hægt væri að búa til fararskjóta fyrir m.a. íslenska veðurvita, sem vildu svo sem allir vitar ,,vísa veginn"!
Skemmst er frá því að segja að atvinnulíf á Austurlandi glaðnaði og dafnaði í kjölfarið, reis upp og fór að blómstra.
Nú vilja framsýnir menn byggja virkjun til orkuöflunar og þá er sem gamall leikur ætli að endurtaka sig, því upp rísa þeir sem telja sig vera einkavini náttúrunnar og finna því allt til foráttu.
Vonandi gengur það yfir sem annað, því lífið gengur sinn gang, vatn mun halda áfram að renna svo lengi sem rignir og jöklar bráðna en óvíst er, að helfrost hugarfarsins þiðni jafn greiðlega.
Og þó, því aldrei er að vita nema að af mönnum renni móðurinn og að þeir verði til, sem muni sækja um vinnu í atvinnurekstrinum sem upp kemur til með að spretta þegar ný virkjun er komin til sögunnar.
Finnist mönnum það ekki nógu fínt, má alltaf finna sér nýtt verkefni til að berjast gegn, agnúast út í og finna allt til foráttu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.