25.7.2024 | 07:51
Líf dýra og manna
Allir geta verið vinir, ef þeir vilja það en það er sem dýrin eigi betra með það a.m.k. stundum.
Eins og svo oft áður sjáum við, að við getum sótt fyrirmyndir til þeirra um hvernig hægt er að koma sér saman og trúlega koma þau oftast til dyranna eins og þau er klædd.
Teiknarar blaðanna taka þetta líka stundum fyrir og fanga vandann oft ótrúlega vel, sýna okkur með nokkrum strokum hvernig við erum og hvernig við gætum verið.
Við áttum okkur strax á því hverjir ganga hólmgönguna og við sjáum líka hvernig hún endaði en í miðjunni er köngulóin litla og fallega sem fékk nafnið Vigdisia, eftir forsetanum okkar kæra, sem á ekkert sameiginlegt með bandarísku fígúrunum sem birtast okkur á myndunum sitthvoru megin við áttfætlinginn.
Teiknararnir bregðast okkur ekki, en það sama verður ekki sagt um viðfangsefni þeirra.
Dýrið litla stendur fyrir sínu en hætt er við að karlarnir tveir geri það ekki; hafa ekki gert það og muni ekki gera það.
Biden er reyndar floginn út en hinn situr eftir, er ólíkindatól og til alls líklegur, hér eftir sem hingað til og sú í miðjunni á ekkert sameiginlegt með vininum til vinstri, ef hann er þá einhvers vinur.
Við gætum sótt okkur margar góðar fyrirmyndir til dýranna, en gerum það ekki nógu oft og trúlega flest okkar aldrei.
Það er hólmganga framundan en hvar er Joe!?
Í landinu okkar er búin að vera rysjótt tíð, það hefur ,,ekkert rignt í dag" segir karlinn og er furðu lostinn og hvernig fer fyrir vigdisiunni í tíð sem þessari, er ekki gott að segja, en við vitum að hún mun bjarga sér!
Það færi vísast betur á því að við litum til dýranna varðandi samskipti okkar mannanna á þessari Jörð, því þó þeim geti greint á, þá leysa þau málin á annan hátt en er í því því þrætubókar- fyrirkomulagi sem við höfum komið okkur upp.
Vissulega er misjafnt milli þjóðfélaga og landa hvernig menn haga málum við val forystumanna og við á norðurlöndunum getum verið til þess að gera sátt við það kerfi sem komið hefur verið upp í kringum þessi mál, en það er ekki hægt að segja það sama víða annarstaðar.
Í auðræðisríkinu í vestri, sem er stundum kallað stærsta lýðræðisríki í heimi, ríkir ekki lýðræði af því tagi sem við þekkjum og nú stendur til að kjósa forseta þar.
Valið hefur til skamms tíma staðið um tvo aldraða karla, annan sem var forseti og hinn sem er það enn, þegar þetta er pikkað.
Hvernig málin munu þróast á hinum pólitíska vettvangi hjá þessum ,,vinum" okkar mun koma í ljós og við sjáum hvað setur!
(Teikningarnar eru fengnar úr Morgunblaðinu (Ívar) og visi.is (Halldór)).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.