20.7.2024 | 05:49
Sjónhverfingar og afneitanir
Í safninu rekumst við á mynd sem eitt sinn var klippt út úr Morgunblaðinu.
Eins og sjá má eru hjónin á teikningunni, látin vera að ræða stöðu flokksins ,,síns" og þó í þessu tilfelli sé það Sjálfstæðisflokkurinn, þá gæti það vel verið einhver annar flokkur.
Við viljum stundum ekki viðurkenna það sem við blasir og teiknarinn Ívar er að vitna í fyrirsögn þar sem sagði frá skoðanakönnun, sem sýndi fylgi stjórnmálaflokka.
Þær hafa verið að birtast að undanförnu og hafa sýnt athyglisverðar niðurstöður eins og kunnugt er og t.d. er staðan þannig að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur lítils fylgis m.v. það sem áður var, Vinstri græn eru við það að hverfa af sviðinu og Samfylkingin fer með himinskautum, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Aðrir flokkar eru hér og þar og almennt má segja að óánægja með ríkisstjórnina komi fram víða.
Stöðugt er verið að segja frá málum sem ekki auka vinsældir líkt og sjá má í grein sem birtist á DV.IS.
Auðvitað eru svo síðan þeir til, sem halda sig við ,,sína" flokka hvað sem tautar og raular; treysta og trúa á sitt fólk og haggast ekki með það!
Í eina dagblaðinu sem út kemur er sagt frá því að ,,trúin" á rafbíla sé minnkandi, hrun hafi orðið í sölu þeirra og okkur er sýnt súlurit því til sönnunar.
Staðan í ,,bílamálunum" er dregin upp eins og það skipti einhverju máli fyrir heiminn hvort bílar sem ekið er á um landið gangi fyrir rafmagni, bensíni eða gasolíu, þegar allir sem vilja vita, vita að það skiptir engu máli fyrir heimsbyggðina hvort svo sé eða ekki. Sumt skiptir samt máli og það er t.d. ekki sama hvernig útflutningsfyrirtækjum okkar gengur og því er gott til þess að vita að verð á afurðum álveranna sé á uppleið.
Álframleiðsluþjóðinni ætti að þykja það gott, þó þau séu til, sem vilja sem minnst af slíkri framleiðslu vita.
Við erum ekki þar og gleðjumst því yfir því sem vel gengur, vitandi að peningarnir verða ekki til af engu, þó þeir geti ótrúlega fljótt orðið að engu.
Fugl situr á steini og lætur sér fátt finnast um það sem gerist í mannheimum, býður sig ekki fram í kosningum og hann og félagar hans myndar ekki stjórnmálaflokka en taka sig þó stundum saman þegar leggja þarf upp í tvísýna langferð yfir höf og lönd.
Svo eru þau líka til sem kunna að njóta góðs félagsskapar við menn og skepnur svo sem við sjáum.
Enda fátt ljúfara en góður ilmur af hestum og notalegheitin öll sem finna má í samskiptum við þá.
Við endum þetta síðan á pistli sem birtist í ,,Staksteinum" Morgunblaðsins fyrir nokkru.
Þar eru þeir hafðir ofan frá og niður á við en formsins vegna eru þeir hér hafðir frá vinstri til hægri!
Þar er ekki töluð nein ,,hebreska" og þó ritari þessa pistils sé ekki alltaf sammála Staksteinum, þá hafði hann gaman af að renna yfir þennan!
Pistillinn fjallar um greiningu á stöðu þjóðarbúsins og þar segir m.a. í upphafi:
,,Kostuleg greining á stöðu þjóðarbúsins birtist á vefsvæði efnahags- og fjármálaráðuneytisins í síðustu viku og ekki í fyrsta skipti. Menn eru farnir að tala um greiningardeild fjármálaráðherra í daglegu tali, en hennar helsta hlutverk virðist vera að fegra stöðu ríkisfjármála, en af þeim er fullt tilefni til að hafa áhyggjur eins og ViðskiptaMogginn rakti í síðustu viku."
Á öðrum stað í pistlinum segir að ,,álit fjármálaráðs sýnir svo engum vafa sé undirorpið að meint aðhald ríkissjóðs byggir á sjónhverfingum".
Tónninn er sleginn og pistilinn má nálgst í heild sinni á vef Morgunblaðsins á tenglinum sem er hér að neðan:
Fegrunaraðgerðir fjármálaráðuneytisins (mbl.is)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.