10.7.2024 | 08:49
Hverju gleymdu þingmenn, spyr kindin
Í Heimildinni er viðtal við forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samrunaferlið á Norðurlandi, sem fór af stað eftir lagasetningu á Alþingi og það er ekki ofsagt, að hann hefur ýmislegt við það að athuga.
Hagræðing af því tagi sem búið er að gera á Norðurlandi, hefur farið fram á Suðurlandi, án afskipta Alþingis og án vandræða eftir því sem best er vitað.
Eðlilegra hefði verið að farin hefði verið svipuð leið til hagræðingar á Norðurlandi og þá án afskipta Alþingis.
Þá hefði trúlega ekki hlotist af umræða af því tagi sem nú er uppi, því rekstrareiningar sem ekki eiga sér framtíð lognast á endanum út af og til að það gerist þarf ekki pólitísk afskipti.
Hvar ætlar Alþingi að setja mörkin?
Ætlar það að leggjast í lagasetningar um fyrirtæki landsins almennt, til að þau geti hagrætt, sameinast, eða einfaldlega hætt rekstri?
Góðar hugmyndir um fyrirkomulag í fyrirtækjarekstri verða seint sóttar til Alþingis og þaðan af síður til framsóknarflokka nútímans, hvort sem þeir kenna sig við framsókn, vinstri grænleika, eða sjálfstæði.
Alþingismenn sem hafa ekki annað erindi, en að ráðskast með rekstur einstakra fyrirtækja og það jafnvel sjálfum sér til hagsbóta, eiga ekkert erindi á Alþingi.
Hvað gleymdist spyr kindin kindarlega?
Það sem gleymdist var að þingmenn eru ekki kjörnir til að gæta hagsmuna einstakra fyrirtækja, heldur heildarinnar og það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem ,,gleymska" af þessu tagi ríður húsinu við Austurvöll.
Húsinu sem ætlað er til lagasetningar þjóðinni til hagsbóta.
Þjóðin er ekki fyrirtækin í landinu, en alþingismenn eiga samt að búa svo um að þau geti starfað, með eðlilegum hætti þjóðinni til hagsbóta.
Þingmenn stjórnarflokkanna ,,gleymdu" því og ákváðu að blanda sér í annað sem þeim kemur ekki við, nema náttúrulega ef þeir hafa hagsmuna að gæta eins og komið hefur fram.
Og þá hefði verið eðlilegt að sitja að minnsta kosti hjá við atkvæðagreiðsluna!
(Myndin eru fengin úr Heimildinni og teikningin úr Morgunblaðinu)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.