29.2.2024 | 08:24
Endurvinnsla og hagsmunir
Það eru margir að vinna góð verk, sem eru hagkvæm, bæði fyrir land og þjóð og í Hveragerði er, svo dæmi sé tekið, fyrirtæki sem hefur unnið að því að þróa aðferðir til að geta endurunnið plast sem notað er m.a. til að pakka inn heyi og gera það nothæft að nýju.
Rúlluplast er flutt inn í stórum stíl, enda frábært efni t.d. til að nota utan um hey til að verja það fyrir skemmdum og vernda í því ferskleikann.
Þeir sem eru að vinna að endurvinnslu þess, stuðla að því að koma í veg fyrir sóun á verðmætu hráefni og minnka mengun svo um munar.
Alifuglabændur komu saman á dögunum til að ræða sín mál og eins og kemur fram í fréttinni, að standa í ístaðinu varðandi óraunhæfar kröfur sem koma að mestu frá Evrópu.
Kröfur sem ætlast er til að evrópskir bændur, en þó ekki allir, uppfylli hvað sem það kostar og algjörlega burtséð frá því, hvort það er nokkrum til gagns, nema þá ef vera kynni þeim sem lána fé til uppbyggingar og framkvæmda.
Kröfurnar eru meiri til íslenskra bænda t.d. hvað varðar þéttleika í húsum, en þeirra erlendu og eins og allir vita sem byggt hafa, hvort sem það er yfir sig eða eitthvað annað, þá kosta byggingar peninga.
Framhjá slíku horfa einkavinir alls sem heita hefur, gera aðeins kröfurnar og þá algjörlega án þess að tillit sé tekið til þess, hvort þær séu einhverjum til gagns, hvort heldur sem um er að ræða fólk eða fénað, náttúru eða tilveru yfirleitt.
Eitt af frægustu dæmum af flumbrugangi blýantsnagara er þegar Mette nokkur í Danmörku, rauk til - eflaust að ráðum valinkunnra sérfræðinga - og náði því fram að minkastofninn í því ágæta landi var drepinn og grafinn, án þess að nokkur rök væru fyrir því færð fram sem mark var á takandi.
Flumbrugangurinn var slíkur, að minkar þessir gengu síðan aftur, með frekar sérstökum og ógeðfelldum hætti, því þeir risu upp úr gröfum sínum, öllum sem vitni urðu að, til hrellingar og hremmingar, því lyktin af hinum niðurgröfnu dýrum var ekki sérlega góð, eftir þetta sérkennilega framtak hinnar dragtklæddu konu og félaga hennar.
Við skulum vona, að ekki verði gengið jafn langt í brjálæði líku þessu hér hjá okkur á Íslandi en sérkennilegt er, að verið sé, að gera ítarlegar og stundum vanhugsaðar kröfur til fólksins sem er út á örkinni.
Kröfur sem síðan kemur í ljós, að ekki eru gerðar, þegar spámennirnir á Alþingi snúa sér að því, að grafa undan innlendri framleiðslu með innflutningi frá löndum, þar sem litlar sem engar reglur gilda hvort heldur er til mannlífs eða húsdýralífs.
Þá gildir það eitt sem orðað hefur verið sem svo: Bara þegar það hentar mér!
Evrópskir bændur hafa risið upp í hverju landinu af öðru til varnar gegn rugli jakkafataklæddra möppudýra, sem allt telja sig vita, en reynast síðan fátt vita, um þau mál sem þau eru að fara með.
Hvernig þau mál fara er ekki útséð með, en fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.