12.2.2024 | 07:16
Svefninn, gosið og virkjunin sem ekki má byggja
Í Morgunblaðinu var sagt frá því, að fólk hefði lýst sig jákvætt í afstöðu til þess hvort byggja mætti smávirkjun í Þingeyjarsveit og þar segir:
,,Í nýrri skoðanakönnun Maskínu fyrir Litluvelli ehf. um þekkingu og afstöðu til rennslisvirkjunarinnar Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti í Þingeyjarsveit, telur 61% svarenda að auglýsa skuli virkjunina og 62% telja að hún muni hafa góð áhrif á nærsamfélagið. Virkjunin er 9,8 MW smávirkjun, án stíflu og miðlunarlóns, um 7 km ofan við Goðafoss og nýtir um 24,4 metra vatnsfall."
Virkjunin hefur verið í undirbúningi í í 7 ár og ætlunin er að hún verði rennslisvirkjun án uppistöðulóns.
Í umsögn forsvarsmanns virkjunarinnar segir að ,,engar skýringar séu á því að tillagan hafi verið tekin úr auglýsingu önnur en að borist hefðu athugasemdir.
Hann segir jafnframt að það hafi komið öllum að óvörum að ,,tillagan var tekin úr auglýsingu."
Það bárust sem sagt athugasemdir og það dugði til þess að áformin urðu að engu!
Svona er komið fyrir þjóðfélaginu okkar, að það dugar sem sagt til að góð áform verði ekki að veruleika, að það berist athugasemdir við hugmyndina!
,,Hugmyndir" eru drepnar í fæðingu, málin festast, deyja og verða að engu, þ.e.a.s. ef hugmyndasmiðirnir ná sínu fram.
Við fylgjumst líka með dularfullum orkuskorti á Suðurnesjum, þar sem ekkert hefur gengið að styrkja raforkukerfið undanfarin ár og nú er skorturinn á raforku slíkur að vart er hægt að elda og mælst er til þess að fólk kyndi heilu íbúðirnar með tveggja kílóvatta rafmagnsofnum.
Ekki nóg með það, heldur þarf að slökkva á ofnunum ef fólki dettur í að elda sér mat.
Eins og flestir vita, er um að ræða afleiðingu af því að hitaveituæð rofnaði í eldgosi.
Í aðsendri grein eftir þingmann Samfylkingarinnar í sama blað og hér hefur verið vitnað til segir m.a.:
,,Það verður þó ekki horft framhjá því að sterkar vísbendingar hafa nú komið fram um að ekki hafi verið hugað tímanlega að varaleiðum, kæmi til þess að vatnsflæði myndi skerðast á svæðinu vegna jarðelda. Samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar í gær, föstudag, liggja fyrir gögn þess efnis að stjórnvöld hafi ekki brugðist við ábendingu Orkustofnunar til ríkisstjórnarinnar og Almannavarna, sem meðal annarra unnin var í samstarfi við HS Orku og HS veitur, um búnaðarþörf og vararáðstafanir til heimila færi svo að Svartsengi yrði óstarfhæft að hluta eða öllu leyti."
Það var sem sagt sofið á verðinum og það var ríkisstjórnin sem svaf!
Afleiðingin blasir við sé horft á miðmyndina - í samsettu myndinni - efst í þessari umfjöllun, þar sem sjá má ljósavél sem til stendur að nota til að bjarga, þó ekki sé nema einhverju, af því sem ríkisstjórnin missti af í draumum sínum.
Hvernig sú ráðstöfun fer í þau, sem ekki mega til þess hugsa að brennt sé jarðefnaeldsneyti fylgir ekki sögunni!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.