Kindarlegar kindur?

Í Morgunblaðinu þann 20.1.2024 birtist grein eftir Kristínu Magnúsdóttur lögfræðing þar sem hún veltir upp þeirri spurningu, hvort eignarrétturinn sé til óþurftar í landbúnaði?

Skjámynd 2024-01-20 072907Það er von að spurt sé, því eins og fram kemur í grein hennar, þá hefur verið í seinni tíma löggjöf beitt ýmsum ráðum, til að gera ólöglega beit (sauðfjár) löglega, s.s. sést í kafla greinarinnar þar sem fjallað er um ,,laumuna".

Þar fóru alþingismenn þá leið að gera beit sauðkinda ,,löglega", ef landeigendur girtu ekki lönd sín með svokallaðri ,,vottaðri" girðingu.

Eins og greinarhöfundur bendir á, þýddi þetta í raun að sauðfjárbeit væri heimil á annarra lönd, nema þau væru sérstaklega varin fyrir fénaðinum með fyrrnefndri ,,vottaðri" girðingu.

Bændasamtök þess tíma (fyrir 22 árum) voru ánægð með þessa lausn, en rétt er að geta þess að töluvert vatn hefur runnið til sjávar á þessum tveimur áratugum og viðhorf hafa víða breyst, einnig í Bændasamtökunum.

Því hefur verið haldið fram að rétturinn til lausagöngu sauðfjár sé forn, en svo mun ekki vera þegar betur er að gáð og samkvæmt því sem fram kemur í greininni sem hér er vitnað til, mun það fyrst hafa komið fram í lögum árið 1991.

Það er lítil von til þess að menn geti fallist á, að það sem gerðist fyrir þremur áratugum sé aftur í fornöld!

Mikil breyting hefur orðið í nærumhverfi þess sem þetta ritar hvað varðar lausagöngu sauðkinda og er þar skemmst að segja frá, að engin vandræði sem hægt er að kalla því nafni stafar af henni.

Það er ólíkt því sem áður var, en skýringin mun vera breyttir búskaparhættir og þ.á.m. minni sauðfjárrækt.

Ritari hefur samt haft af því spurnir að ekki þurfi að fara langt til að finna búskaparhætti sem eru samkvæmt fyrra lagi: að kindum sé einfaldlega sleppt úr húsi og geti síðan farið hvert sem þær vilja og komast.

Grein Kristínar er að mati þess sem þetta ritar góð áminning og rétt er að taka fram að sauðheld girðing er ekki allsstaðar sauðheld og að sauður er ekki sama og sauður, eins og þar stendur.

Flestar kindur virða netgirðingar með gaddavírsstrengjum fyrir ofan og neðan, en ekki allar.

Það eru ekki mörg ár síðan ritari varð vitni að því að kind stökk yfir slíka girðingu og að önnur af sama uppruna gerði tilraun til að grafa sig undir nýlega og vandaða veggirðingu, líkt og hundur væri.

Kindurnar reyndust eiga uppruna sinn í nærliggjandi sveitarfélagi, svo ekki þurfti langt að fara til að finna sauðfénað sem ræktaður hafði verið án tillits til hátternis af þessu tagi.

Kindur eru sem sagt ekki sama og kindur, þó kindarlegar séu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband