Heyflutningar, saga frá liðnum tíma

Á sjöunda áratug síðustu aldar, var staðan erfið hjá bændum á Austurlandi og víðar, en mun betri hjá sunnlenskum bændum.

2023-12-01 (5)Þá var gripið til þess ráðs að binda hey í bagga til að minnka rúmtak þess og flytja það þannig með skipum til þeirra sem á þurftu að halda.

Myndin sem hér fylgir með var í Morgunblaðinu, ef rétt er munað og sýnir hvernig staðið var að flutningunum til Reykjavíkur; bílarnir bíða losunar og bílstjórarnir hafa kíkt við á Hótel Sögu.

Nú er hótelið ekki lengur til sem slíkt, þó húsið standi enn og peningarnir sem kreistir voru undan nöglum fátæks bændafólks til byggingar þess, glataðir fyrir löngu.

Hvernig forustumönnum bændastéttarinnar gat dottið í hug að efna til byggingar montmusteris af þessu tagi í því peningaleysi sem var á þessum tíma, hefur aldrei verið skýrt og verður tæpast gert úr þessu.

Undirritaður kom dálítið að þessum heyflutningum, en þó ekki þannig að hann væri bílstjóri á flutningabílunum, enda tæpast með aldur til þess.

Þannig var að uppalendur mínir, móðurafi og amma, höfðu fest kaup á grasgefinni jörð austur í Flóa og þar voru hlöður fullar af heyi og nú voru góð ráð dýr.

Á þessum árum þótti sjálfsagt að fólk legði hönd á plóg til hjálpar þeim sem þurfandi voru og eins og áður sagði voru bændur á Austurlandi og Norðurlandi í vandræðum vegna uppskerubrests sem orðið hafði vegna kuldatíðar og kals í túnum.

Fram var komin tækni til að vélbinda hey í bagga með bindivélum sem knúnar voru af dráttarvélum og til að minnka umfang heysins var gripið til þess ráðs að binda það í bagga, en vélar til þess voru ekki á hverju strái.

Í Gunnarsholti var ein slík og um samdist að fá hana lánaða til verksins og var hún sótt á vörubíl þangað og losuð síðan af bílnum á hentugum stað, þar sem hægt var að bakka bílnum að sandbarði, tengja við dráttarvél og draga vélina síðan heim á bæ og nú var allt til reiðu til að hefja verkið!

Og þó ekki, því það vantaði mannskap til að moka heyinu úr hlöðunni og í bindavélina og ekki stóð á því og mannskapurinn var sóttur allt til Sandgerðis og víðar og allir vildu hjálpa til og ekki var spurt um laun, en góður matur og kaffi með meðlæti að sjálfsögðu í boði, sem var vel þegið.

Og svo var líka gott að fá tilefni til að hittast! 

Það þarf vart að lýsa því hve erfið vinna það er að handmoka heyi út úr hlöðu með þeim hætti sem þarna var gert og það launalaust.

Undirritaður, sem gerður var að traktors og bindivélarstjóra, var á kafi í vorprófum í gagnfræðaskóla þegar þetta var og svo sem geta má nærri, var lítill tími til upplestrar fyrir prófin, en þau voru tekin og náðust!

Til að gera langa sögu stutta, þá tókst að tæma hlöðuna og koma heyinu á vörubíla sem fóru síðan með það til Reykjavíkur, þar sem það var sett í skip og flutt til þeirra sem á þurftu að halda.

Í dag teldist þetta fullkomið óráð allt saman og trúlega færi heyið í plöstuðum rúllum í gámum á áfangastað ef til þess kæmi að flytja þyrfti það milli landshluta.

En á þessum tímum voru rúllur ekki til og ekki gámar heldur og fólk reyndi að bjargast með það sem til var.

Hver greiddi fyrir heyið og hvernig er mér ókunnugt um og man ekkert með vissu um hvernig því var háttað, enda er það ekki aðalatriði málsins.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband