Það verður ekki bæði sleppt og haldið

Hér sjáum við tvö skjáskot af fréttum úr Morgunblaðinu.

Skjámynd 2023-10-24 165348Það sem er vinstra megin segir frá því að hjá Icelandair séu menn farnir að huga að orkuskiptum í fluginu og eins og við vitum, þá er flug afar orkufrekur ferðamáti.

Kosturinn við flugið er, að það tekur skamman tíma að skjótast á milli staða með þeim ferðamáta og vegna þess að okkur finnst mörgum gaman að ferðast um og skoða heiminn með eigin augum, þá hefur það orðið ofan á í nútímanum að nota þann ferðamáta til að ferðast, hvort heldur sem er milli landa sem innanlands.

Þó sögurnar frá fyrri tíð af spennandi lestarferðum hafi þótt lokkandi og skemmtilegar, þá þykir okkur ekki lengur mega fara þannig með tímann og svo má vitanlega ekki gleyma þeim, sem eru þannig í sveit sett, að aðrir ferðamátar en með flugi eða skipum eru ekki í boði.

Við Íslendingar höfum því tekið því fagnandi, að eiga þokkalega öflugt flugfélag, sem heldur uppi flugi milli landsins okkar og annarra landa. Hið íslenska flugfélag vill vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum, þ.e.a.s. ef aðrir kostir en afurðir olíuvinnslu úr iðrum jarðar eru í boði.

Hugmyndir um flug með ,,hreinni" orku hafa komið til fyrr og t.d. var á tíma Sovétríkjanna smíðuð flugvél sem brenndi vetni, en trúlega hafa þær hugmyndirnar þótt óþarflega framúrstefnulegar á þeim tíma og að það hafi orðið til þess að þær fjöruðu út.

Fyrir nokkrum árum heyrði ritari formann Framsóknarflokksins tala í útvarpi fyrir því að Íslendingar gætu orðið í fararbroddi varðandi orkuskipti af þessu tagi!

Að framleiða orkubera s.s. vetni til nota í flugi og á skip gerist ekki af sjálfu sér og auðséð er, m.v. hvernig gengur að koma af stað framkvæmdum vegna virkjana, að nær engin von er til að orkuberar framleiddir með orku íslenskra fallvatna verði að veruleika í fyrirsjáanlegri framtíð, a.m.k. hér á landi.

Sem stendur er það svo að eini raunhæfi möguleikinn á þessu sviði er að nota orku fallvatnanna, jarðhitans, vindsins eða sjávarfalla, til framleiðslu á orkuberum sem nothæfir eru fyrir flug og siglingar.

Líklegast er, sé tekið mið af afstöðu ráðandi afla til virkjanamála, að ný orka til nota í samgöngum milli Íslands og annarra landa verði flutt inn erlendis frá, ef eitthvað á að geta orðið af hugmyndum af þessu tagi.

Á myndinni sem er til hægri hér að ofan má sjá dæmi um virkjunarsvæði sem ekki fæst nýtt fyrir virkjun og í minnisblaði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra segir: ,,Ein­ung­is hef­ur verið sótt um virkj­un­ar­leyfi fyr­ir tveim­ur virkj­un­ar­kost­um af 16 sem eru í nýt­ing­ar­flokki 3. áfanga ramm­a­áætl­un­ar, Búr­fells­lundi og Hvamms­virkj­un, en báðir eru þeir í upp­námi. Þess­ar tvær virkj­an­ir áttu að skila 213 mega­vött­um inn á kerfið." [...],,Í til­viki Búr­fells­lund­ar ákvað sveit­ar­stjórn Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps að fresta ákvörðun um land­notk­un í allt að tíu ár, vegna ágrein­ings rík­is­ins og sveit­ar­fé­lags­ins um tekju­skipt­ingu."

Fleira verður ekki tínt til hér, en dæmin er mun fleiri og af þeim má sjá að hugmyndir um ,,hreinorkuflugvélar" og ,,hreinorkuskip" sem gangi fyrir orku framleiddri innanlands eru óraunhæfar.

Því má bæta við að endurnýjaðar voru á dögunum vindmyllur við Þykkvabæ.

Þær sem fyrir voru höfðu gengið sér til húðar og voru búnar að standa ónotaðar vegna bilana. Þegar upp voru komnar nýjar í stað þeirra ónýtu, komu fram raddir um að það hefði verið betra að sleppa endurnýjuninni.

Þar kom skýrt fram enn eitt dæmið um, að nóg er til af röddum sem telja óþarft að beisla náttúruöflin til orkuframleiðslu.

Raddir þeirra sem eflaust vilja samt sem áður geta notið þess að ferðast um í farartækjum sem framleidd eru á ,,vistvænan" hátt og knúin áfram af ,,hreinni" orku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband