Hryllingssögur úr fortíðinni

Flett hefur verið  ofan af dapurlegri fortíð að undanförnu, fortíð sem gera má ráð fyrir að þeir sem að stóðu vilji gleyma og grafa, enda það sem gert var sannarlega frekar óhugnanlegt.

Skjámynd 2023-10-07 085029Börn voru geymd á stofnun og með þau farið eins og um skynlausar skepnur væri að ræða og jafnvel verra en það, því flest viljum við sýna dýrunum sem við höfum undir höndum umhyggju og alúð.

Það var ekki gert og börnin meðhöndluð líkast því sem um dauða hluti væri að ræða, eða í besta falli dýr, sem varasamt væri að snerta nema sem allra minnst, því snertingin gæti skemmt!

Þessu virðast menn hafa trúað og sem dæmi mátti ekki gefa börnunum að borða öðruvísi en að mata þau aftan frá til að tryggt væri að ekki myndaðist augnsamband milli þess sem mokaði matnum í munninn og barnsins sem verið var að næra.

Skjámynd 2023-10-07 085102Lýsingarnar hafa verið óhugnanlegar, bæði í sjónvarpi og í öðrum fjölmiðlum.

Heimildin hefur t.d. birt nokkrar greinar að undanförnu um málið og þar kennir ýmissa grasa ef svo má segja.

Í grein sem Steinþór Grétar Jónsson ritaði í Heimildina þann 21. júlí 2022 segir frá því að ,,Borgarráð [hafi] samþykkti á fundi sínum [...] að skipa nefnd um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins".

Í ljós kemur að það var sannarlega ekki vanþörf á.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið að koma fram í fjölmiðlum og t.d. Ragnhildur Þrastardóttir, ritar um málið í Heimildina 5/10/2023 og greinir frá því að foreldrum hafi verið ,,meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni".

Skjámynd 2023-10-07 085251Þá segir þar, að foreldrum hafi verið bannað að snerta börn sín og þar af leiðandi, ekki mátt halda á þeim og er vísað til skýrslu nefndar sem var falið það verkefni að rannsaka málið.

Í henni segir ,,að tengsl við foreldri voru alfarið rofin".

Tilgangurinn var sem sé að slíta tengsl foreldra og barna og gera það bæði vel og vandlega!

Svipuð saga er sögð af ,,vöggustofu THorvaldsenfélagsins".

Í grein Sunnu Óskar Logadóttur segir í upphafi:

,,Ekki mátti taka börnin upp og hugga þau. Ekki mátti horfa í augun á börnunum þegar þeim var gefið að borða og það mátti alls ekki leika við þau. Rík áhersla var á að starfsmenn mynduðu ekki augnsamband því það myndi valda börnunum svo mikilli sorg. ,,Ekki mátti heldur taka sængina af börnunum í heimsóknartíma og starfsstúlkum sagt að snúa baki í mæðurnar."

Hvað því fólki sem setti reglurnar hafur gengið til er ekki gott að segja og sögurnar eru óhugnanlegar.

Það sem ekki mátti gera:

,,Starfsmenn máttu ekki mynda augnsamband, ekki mátti heldur taka sængina af börnunum í heimsóknartíma og starfsstúlkum sagt að snúa baki í mæðurnar."

Börnin áttu sem sagt mæður, en þær máttu ekki eiga eðlileg samskipti við börnin sín!

Líklegt er að aðstæður mæðranna hafi ekki verið sérlega góðar og öruggt má telja að hin ómanneskjulega framkoma sem þeim og börnum þeirra var sýnd hafi aukið enn á vanlíðanina, í stað þess að bæta.

Það er gott að það sé búið að fletta ofan af málinu, vítin eru til að varast og tryggja þarf að annað eins og þarna hefur verið sagt frá, endurtaki sig aldrei aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband