29.9.2023 | 12:16
Föstudagstrall og dinglumdangl
Samkvæmt því sem lesa má í morgunsárið á visir.is er ríkisstjórn Íslands farin í frí, lögst útaf, eða komin upp á heiðar, á gæsaskytterí eða rjúpna, enda haust samkvæmt dagatalinu.
Dagatalið segir eitt en fréttir í dagblöðum, bæði á pappír og rafrænt segja annað.
Þingmaðurinn sem tjáir sig á visi.is er úr Samfylkingunni, sem ekki á aðild að ríkisstjórninni og þingmaðurinn saknar samt stjórnarinnar sem virðist vera farin frá, eða a.m.k. ekki vera ein heild og þegar að er gáð ætti það ekki að koma neinum á óvart.
Hjá ríkisstjórninni er bara hlegið og trallað, dútlað og dinglumdanglast, segir þingmaðurinn!
Við tökum ekki undir þetta, því innan ríkisstjórnarinnar hefur verið ýmislegt að gerast.
Einn vill veita því fólki skattafslátt sem eyðir peningunum sínum í fjölmiðla.
Annar eða fleiri vilja veiða hvali, en þá sprettur fram hvalavinur mikill í kvalræðiskasti, innan ríkisstjórnarinnar og stöðvar veiðar, - sem reyndar eru ekki byrjaðar - í krafti þess að best sé að hafa tímann fyrir sér, eigi eitthvað að gera og að betra sé að gera illt, en ekki neitt.
Okkur verður hugsað til stráksins Láka, en það passar frekar illa þar sem ráðherrann er kona, þrátt fyrir að vera herra og alls ekki saklaus stelpuhnokki lengur, en samt saklaus af því að skjóta hvali.
Þriðji ráðherrann vill virkja vatnsföll þjóðinni til hagsbóta en þá sprettur fram nefndarómynd út úr einhverju rykugu skúmaskoti og ógildir þá ákvörðun.
Innviðaráðherra finnst vera komið nóg af innviðum og dómsmálaráðherra og fleiri hafa komist að því, eftir ítarlega skoðun, að það hljóti að vera svo, að flóttamenn sem til landsins koma, komi alls ekki til landsins, heldur einhvers sveitarfélags, sem þau hafi valið sér og þar skuli þau því vera.
Landið er sem sagt stjórnlaust í nafni frelsisins og senn kemur að því, að við gerum, framsóknar- BARA og síðan það eitt sem okkur sýnist, og þegar okkur sýnist vera best að gera það...bara.
Eða, gerum ekki neitt, í þeirri trú að hægt sé að lifa á skattaafslætti, í boði þjóðarinnar og Framsóknar, sem sækir þar með fram með nýjum hætti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.