26.9.2023 | 06:36
Hver gerði Gerði og fleira
Synd væri að segja, að ekki sé af nægu að taka í fréttum þessa dagana.
Í DW.COM er enn einu sinni farið yfir sprenginguna á NORD STREEAM 1&2 lögninni, en eins og flestir muna var hún eyðilögð í sprengingu sem varð skammt frá Borgundarhólmi.
Evrópubúar kunna gerendum litlar þakkir og grunurinn beinist að Úkraínum og þó jafnvel enn frekar Bandaríkjamönnum og Ursula von der Leyen kann þeim sem að verknaðinum stóðu engar þakkir.
Rifjuð er upp yfirlýsing Bidens, þar em hann sagði við fjölmiðla í heimsókn til Olaf Scholz í byrjun febrúar 2022:
,,"Ef Rússar ráðast inn ... þá verður Nord Stream 2 ekki til lengur. Við munum binda enda á það.""
Nokkrum dögum eftir að Rússar hófu ,,hina sérstöku hernaðaraðgerð" sína sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Nord Stream sprengingarnar fælu í sér ,,"stórkostlegt tækifæri til að afnema í eitt skipti fyrir öll hversu háð Evrópa væri rússneskri orku"".
Hver sem sannleikurinn er í þessu er ekki gott að segja en hitt er víst að sagan af Úkraínum siglandi á lítilli fleytu til að kafa með sprengiefni niður að lögnunum og fara síðan til síns heima í skjóli myrkurs er bæði ævintýralegri og skemmtilegri, ef nota má það orð yfir andstyggðar verknað af þessu tagi; verknað sem beinist að því að gera helstu stuðningsaðilum Úkraínu lífið leitt og valda ,,vinum" og ,,stuðningsaðilum" fjárhagslegum skaða bæði í bráð og lengd.
Fleira er í fréttum og það er meira blóð í kúnni, því kanadískur þingforseti fann hjá sér þörf til að hylla háaldraðan Úkraína sem barist hafði með þýskum nazistum í seinni heimsstyrjöldinni. Hinn kanadíski var svo fastur í úkrínuritúalinu að hann hélt að um væri að ræða afreksmann sem hefði verið að berjast gegn Rússum í heimstyrjöldinni. Berjast fyrir Úkraínu vel að merkja!
Líklega hefur maðurinn mætt illa í mannkynssögutímana á sínum yngri árum og þaðan af síður lesið bókina ,,Ég lifi" um sögu mannsins sem lifði af kynnin við þýska og úkraínska nazista, barðist síðan með Rauða hernum þar til hann fór að sinna sínum málum! Martin gerðist bandarískur ríkisborgari og komst vel áfram og sýndi mikinn dugnað og þrautseigju í sínu lífi; bar Rauða hernum góða sögu, en því miður lék gæfan ekki við þann ágæta mann.
Sá kanadíski er búinn að sjá að sér og biðjast afsökunar á flumbruganginum og segir ekki meira af honum.
Zelenski vil meira og fær aldrei nóg og um það má lesa í New York Times. Það er dýrt að standa í styrjaldarrekstri og svo er að skilja sem sumum a.m.k. sé farið að þykja nóg um fjárausturinn í það sem menn kalla hiklaust orðið staðgengilsstríð og þá er væntanlega átt við að Bandaríkin og aðrar NATO þjóðir séu með óbeinum hætti í stríði við Rússa.
Það er dýrt að standa í styrjaldarrekstri og sé það gert með einhverskonar ,,verktaka", er örugglega betra að sá ráði við verkefnið. Það er ekki að sjá sem svo sé, en Zelensky telur að allt muni þetta koma, bara ef hann fær meira af peningum, drápstólum og eyðingarvopnum.
Hvernig brugðist verður við þeim óskum mun upplýsast innan skamms og ekki vafi að okkur verða fluttar af því fréttir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.