Ríkisstjórnaruppistand- og landbúnaðar

Fyrst var það bankasalan (eða var eitthvað á undan?), þá stöðvun virkjunar í Þjórsá, næst hvalveiðibann til tveggja mánaða og nú er það Seðlabankinn sem bætir íSkjámynd 2023-08-27 070401 vaxtaokrið, og eflaust er ýmislegt fleira sem mætti telja til, s.s. flugvélarsöluna sem ekki varð og ergelsi vegna flóttamanna.

Margir eru búnir að gleyma bankasölunni, a.m.k. í bili og listinn er langur. En samstaða virðist vera um, að ríghalda í stjórnartaumana í von um að ótemjan stökkvi ekki út í skurð eða eitthvert annað forað.

Skjámynd 2023-08-27 164925

Hvort röðin er rétt í þessari upptalningu er ekki ábyrgst og eflaust vantar eitthvað, en það er mikið fjör og mikið gaman á ríkisstjórnarheimilinu, eins og við er að búast þegar samsetning stjórnarinnar er sú sem hún er: Frá ysta vinstri og yfir til ysta hægri og með millistykkið Framsókn í miðjunni.

Áætlað er að 19% verðhækkun verði á dilkakjöti í komandi haustslátrun og þykir ekki mikið séð frá sjónarhóli framleiðenda, sem vilja auk þess fá góðan slump til viðbótar úr ríkissjóði í komandi búvörusamningum. 

Búvörusamningar eru samningar um kindakjöt og mjólkurafurðir og greinarnar eru ríkisreknar að stórum hluta: fyrir innanlandsmarkað og þann erlenda.

Í Bændablaðinu er aðsend grein um það ástand sem sauðfjárræktin skapar öðrum, en þeim sem hana stunda. Greinin er efst til vinstri á myndinni hér að ofan og er þar farið nokkuð vel yfir málið. Mál sem erfitt er að skilja. Aðallega vegna þess hvernig búskaparhættirnir eru. Fyrir liggur, að hver eigi að gæta síns fjár, en það virðist ekki vera varðandi sauðfjárræktina, hvorki hvað varðar markaðssetningu né ýmislegt annað.

Það er stóra mamman ríkissjóður sem á að sjá um peningamálin, en bóndinn gefur á garðann, sér um sauðburðinn, fjallreksturinn, smalamennskuna o.s.frv.

Til hliðar við greinina um lausagönguna er önnur þar sem hagfræði sauðfjárræktar er vegin, metin og léttvæg fundin og þar segir m.m.: ,,Sauðfjárrækt er ekki lengur burðarás íslenskrar matvælaframleiðslu, og mun ekki verða. Allar tilraunir til að hverfa til fortíðar munu einungis rýra lífsgæði á Íslandi almennt og viðhalda fátækragildrunni hjá minni sauðfjárbændum".

Sætti menn sig ekki við þessi sannindi Lárusar Elíassonar, þá eru þeir ekki á góðum stað!

Bændablaðið er langt frá því tæmt. Þar er, svo dæmi sé tekið, umfjöllun um ástand landsins og niðurstaðan er, að það sé ekki gott fyrir ofan 180 metra hæð, en þó breytilegt eftir aðstæðum. Á bls. 18 í blaðinu er farið yfir framleiðslu, afurðaverð, sölu og útflutning á sauðfjárafurðum, en eins og fyrr er getið, er blaðið að stórum hluta helgað þeirri búgrein bæði í greinum blaðsins og ekki síður hinum innsendu.

Stundum hefur verið sagt, að Bændasamtökin séu fyrst og fremst samtök sauðfjárbænda, en þar sem nú er að koma sláturtíð þeirrar búgeinar verður að telja eðlilegt að um hana sé talsvert fjallað. 

Umfjöllun blaðsins eru alls ekki hér öll upp talin, en hér verður staða numið, en þeir sem áhuga hafa geta kynnt sér málin í Bændablaðinu, því sem út kom þann 24. ágúst síðastliðinn. 

Við erum eflaust mörg sem viljum eiga tryggan aðgang að dilkakjöti, en það er með þá vöru eins og flestar aðrar, að ekki er sama hvað hún kostar þegar upp er staðið og framlög frá hinu opinbera verða að teljast með í umræðunni. Þau eru tekin úr sameiginlegum sjóði allrar þjóðarinnar.

Auk þess sem setja má spurningarmerki við, að ein kjötframleiðslugrein sé að góðum hluta rekin á framlögum, sem tekin eru úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband