Tap, veira og svar

Rekstrartapið, veiruafbrigðið og augljósa svarið, er það sem málin snúast um í dag.

Skjámynd 2023-08-21 073540Tækniskólinn er rekinn með ,,meðvituðu" tapi, enda trúlegast ekki mikið val á öðru þegar aðsóknin er meiri en áætlanir hafa gert ráð fyrir. 

Það hefur við okkur loðað að meta verknám minna en bóknám, enda er mun ódýrara að reka skóla sem byggjast á bóknámi og eru ástæðurnar næsta augljósar.

Bóknámið verður ekki í askana látið var sagt og þó nokkuð sé til í því, þá er það óralangt frá því að vera rétt. 

Augljósega er tækninám og verklegt, þjóðinni nauðsynlegt og það þurfum við að hafa í huga. Án tækniþekkingar og verklegrar kunnáttu förum við ekki langt í nútímanum.

Veiruskömmin, - sem varð til með óupplýstum hætti þótt ýmsar kenningar hafi komið fram - er farin að láta á sér kræla að nýju, þó hún sé ekki komin til Íslands svo vitað sé. Má það merkilegt heita eins og straumur fólks erlendis frá er mikill.

Forsætisráðherrann hefur augljós svör við spurningum eins og við mörg vitum og frá því er sagt í Morgunblaðinu. Spurningin er reyndar ein, sé að marka fyrirsögnina og er hún um hver beri ábyrgð á flóttamönnum sem komnir eru til landsins.

Sé rétt skilið það sem forsætisráðherrann segir um málið, þá eru það sveitarfélögin sem ábyrgðina bera og ekki er nú alveg víst að allir séu því sammála.

Gera má ráð fyrir að flóttamenn sem til landsins koma, séu að koma til landsins en ekki einhverra tiltekinna sveitarfélaga. Þeir séu á flótta úr landi og til lands.

Það er ólíklegt að þeir hafi ætlað sér að fara til einhvers sveitarfélags. Með þeirri undantekningu þó, að millilandaflugvöllurinn er í Keflavík og því er hugsanlegt að þeir hafi ætlað sér þangað, en aðeins hugsanlegt.

Það er frekar fjarlægur möguleiki og líklegast er að stefnan hafi verið tekin á landið Ísland, þar sem eygja megi von um bjartari framtíð, eða að minnsta kosti einhverja framtíð.

Við þetta er því að bæta að í Kastljósi RÚV, sem kom úr sumarfríi í gærkvöldi, var til viðtals hinn nýi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir og skýrði hún málið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt því sem þar kom fram er ljós fyrir enda ganganna fyrir þau sem á flótta eru, svo þeir og við hin, getum gert okkur von um að málið leysist með farsælum hætti.

Ríkisstjórnin stjórnar landinu öllu, en sveitarfélögin eiga líka hlut að máli og koma til með að sjá um það sem að þeim snýr, lendi fólk á vergangi. 

Fólkið fór þaðan sem það var og stefndi á Ísland og því er það ríkisstjórn Íslands sem hlýtur að axla ábyrgðina að stærstum hluta.

Ríkisstjórnin hefur reyndar sýnt vilja sinn í verki í þessu efni og t.d. flutt inn dálítið skrýtnar dömur frá Rússlandi, en hafði skömmu áður vísað á brott frekar venjulegum hjónum frá því ágæta landi. Karlinn hafði tjáð óánægju sína með hina sérstöku hernaðaraðgerð og var kominn upp á kant við rússnesk stjórnvöld og óttaðist um sinn hag.

Það var allt í tíð fyrrverandi dómsmálaráðherra og sem vonandi endurtekur sig ekki með þeim sem tekinn er við.

Það er sem sagt, eitt í dag og annað á morgun, á ríkisstjórnarheimilinu sem víðar, og því verðum við, sem ekki erum innvígð í fræðunum sem á er byggt, dálítið ringluð og líklegast er að svo verði áfram. 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband